Berlín 2014: Handahófshátíðin

Franski rithöfundurinn Michel Houllebecq leikur sjálfan sig í Ráninu á Michel Houllebecq.
Franski rithöfundurinn Michel Houllebecq leikur sjálfan sig í Ráninu á Michel Houllebecq.
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason

Handahófshátíðin heldur áfram. Ég held að dagurinn í dag teljist sá sjötti.

Zwischen Welten – Milli heima

Ég vaknaði fyrir allar aldir til að mæta í Berlinale höllina klukkan níu, og sjá þýsku kvikmyndina Zwischen Welten – eða Milli heima. Ég vissi svo sem ekki við hverju væri að búast en þetta er keppnismynd og ég vildi sýna metnað til að sjá fleiri keppnismyndir, einhver þeirra mun að endingu vinna, þeir hafa aldrei sleppt því að veita gullbjörninn, aldrei útskýrt að engin mynd hafi reynst nógu góð það árið. Held ég.

Feo Aladag stýrir tökum á Zwischen Welten. Aladag gerði m.a. Die fremde (When We Leave) sem sýnd var í Bíó Paradís á Þýskum kvikmyndadögum 2011.
Feo Aladag stýrir tökum á Zwischen Welten. Aladag gerði m.a. Die fremde (When We Leave) sem sýnd var í Bíó Paradís á Þýskum kvikmyndadögum 2011.

Þetta árið hafa flestar keppnismyndirnar hins vegar, hingað til, fyrst og fremst verið áminning um hvað myndin 71, sem er í keppninni, var þó ágæt. Og Milli heima var því miður enn ein áminningin. Ef The Monuments Men var léleg tilraun til goðsagnagerðar kringum hernað og ef 71 var vel heppnuð, raunsæisleg og þar með gagnrýnin kvikmynd um hernað, þá situr þessi hér stærðfræðilega nákvæmlega mitt á milli.

Hún fjallar um þýska hermenn og afganskan túlk í Afganistan. Hún byrjaði ekki skelfilega. En það var ekkert frábært við hana heldur. Það vantar orð yfir hefðbundna töku, leik og klippingu á ábúðarfullum samtölum hermanna – hefðbundna framsetningu á dygðuga hermanninum, góða hermanninum. Líta upp, líta niður, kyngja, já herra. Þetta er þannig mynd og þó að hún hafi ekki byrjað skelfilega var þar allt í föstum og vel þekktum skorðum, það stefndi í goðsagnagerð sem nýtti hefðbundna gagnrýni á hernað rétt upp að því marki sem gerir goðsögurnar aðeins trúverðugri, yrði þannig aðeins betur heppnuð en minjasafnsverðir Clooneys. Myndin virtist alls ekki nógu vond til að lýsa yfir sérstakri andúð á henni en alls ekki nógu góð til að sitja yfir henni í tvær klukkustundir þegar annað er í boði. Ég horfði á korter, steig síðan út og spáði í aðra sali.

Life of RileyResnais sagður í góðu formi

Á milli sala leit ég í blöðin: Variety, Hollywood Reporter og Screen gefa út dagleg sérrit á hátíðinni og dreifa þar umfjöllun, dagskrá og auglýsingum frítt meðal gesta. Mér sýndist að ein keppnismynd sem ég næ líklega ekki að sjá úr þessu hafi vakið nokkra hrifningu: Alain Resnais, sem nú er kominn yfir nírætt, frumsýndi nýja mynd á keppninni, sem hann sagðist hafa þurft að gera hratt, hann geti ekki séð fyrir lengur hversu langan tíma hann eigi eftir til að ljúka verkum sínum. Þetta er gamanmynd sem heitir Life of Riley á ensku en Aimer, boire et chanter á frönsku: elska, drekka og syngja. Og Resnais er sagður í góðu formi. Ef engin önnur mynd í keppninni reynist framúrskarandi hljómar ekki ólíklega að hann gæti unnið – það væri þá í það minnsta í frásögur færandi. Og enginn annar keppandi myndi móðgast.

L’enlevement de Michel Houllebecq – Ránið á Michel Houllebecq

Resnais var ekki í boði. Ég fór á franska gamanmynd um ránið á Michel Houllebecq: L’enlevement de Michel Houllebecq. Þetta er leikin mynd þar sem rithöfundurinn, höfundur bókanna Áform og Öreindirnar, sem þýddar hafa verið á íslensku, leikur sjálfan sig í höndum mannræningja. Myndin var stórskemmtileg enda ekki í keppninni.

Ég veit ekki hversu nærri persóna Houllebecqs eins og hún birtist í myndinni fer honum sjálfum í lifanda lífi – en þetta sköpunarverk hans og leikstjórans, maðurinn sem þarna birtist, gæti borið heila röð kvikmynda um önuglyndan, sjálfelskan leiðindapúka í hremmingum. Höfundurinn Houllebecq segist skrifa í hefð Céline og fleiri ákafamanna um mannfyrirlitningu – en kvikmyndapersónan Houllebecq er skilgetið afkvæmi Mr. Bean og Mr. Hulot – Rowan Atkinson og Jacques Tati. Þetta var virkilega fínt stykki og hélt góðum dampi.

Hross í oss sögð argentísk/þýsk.
Hross í oss sögð argentísk/þýsk.

Sígur á seinni hliðina

Ég læt hálfan dag nægja, til að þetta verði ekki of langt. Ef ég skil rétt er markaðnum, sem er hálf hátíðin, sú hliðin sem snýr frá okkur hinum, nú að mestu lokið. Eða margir þátttakendur hans í það minnsta farnir heim – þeir koma fyrst og fremst til að vera yfir fyrri helgina, ganga frá samningum, gera uppgötvanir.

Ég las að þetta væri annaðhvort stærsta markaðssamkoma Evrópu, í þessu fagi, eða sú stærsta í heimi. Líklega á maður aldrei að hafa eftir umsagnir í efsta stigi. Á markaðnum eru myndir sýndar á lokuðum sýningum, fyrir dreifingaraðila og hugsanlega meðframleiðendur, myndir sem ekki eru með á hátíðinni. Hross í oss var á markaðnum, skráð sem þýsk-argentínsk mynd, sem mig grunar að hafi með fjármagn að gera frekar en klaufaskap. Ég las líka að þetta árið hefðu viðskiptin á markaðnum verið í minni kantinum, menn haldi að sér höndum vegna óvissu á fjármálamörkuðum. Tími er víst peningar, hvað þá kvikmynd. Og samt, og þó: markaðsfólkið er á flugvellinum en hátíðin heldur áfram nokkra daga enn.

 

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR