spot_img

Viðhorf | Ódramatísk athugasemd um aðsókn

Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson vegnaði best íslenskra mynda í miðasölunni 2013.
Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson vegnaði best íslenskra mynda í miðasölunni 2013.

„Nobody knows anything“ eru fleyg ummæli handritshöfundarins William Goldman og vísaði hann þar til þess að enginn í Hollywood vissi hvað myndi ganga og hvað ekki; bransinn sé nokkurskonar skot í myrkri. Ég rifja þetta upp í ljósi slaks gengis íslenskra kvikmynda á heimamarkaði á síðasta ári. Fallið er umtalsvert frá síðustu árum og verður að leita aftur til 2005 til að finna lakari heildaraðsókn.

Ég hef verið spurður að því að undanförnu af blaðamönnum og öðrum hvort ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessari útkomu. Ég held ekki að svo komnu máli. Verði þetta viðvarandi ástand næstu ár væri ástæða til að skoða málin, en ég tel litlar líkur á að svo fari.

Hæðir og lægðir

Vegna þess hve fáar myndir eru gerðar á hverju ári (einhversstaðar á milli 5-10 bíómyndir) er eðlilegra að horfa á aðsókn yfir lengra tímabil. Víst er þó að þetta eru ekkert sérstaklega góðar fréttir og nokkur viðbrigði enda hafa íslenskar kvikmyndir notið mikillar velgengni á undanförnum sjö árum. Árin þar á undan eru hinsvegar mun rysjóttari, með hærri hæðum og lægri lægðum. Síðustu ár fyrri aldar og fyrstu ár nýrrar eru til dæmis sérlega slök ef 2000 og 2002 er undanskilið (2000 gerðu t.d. Englar alheimsins og Íslenski draumurinn allt vitlaust og 101 Reykjavík gekk einnig vel, 2002 naut Hafið mikilla vinsælda og Stella í framboði og Maður eins og ég gengu einnig vel). Athyglisvert er reyndar að flestar þessara mynda fjalla um andhetjur í úlfakreppu, að undanskilinni Stellu sem ávallt horfir brosandi mót hverri raun (nei, þetta er ekki mat á gæðum myndanna).

Það er eðlilegt að spyrja afhverju myndir eins og til dæmis Hross í oss og Málmhaus, sem fengið hafa nær einróma hástemmt lof gagnrýnenda bæði heima og erlendis, njóti ekki meiri hylli. Einfalda svarið er auðvitað að þær ná ekki að höfða nægilega til almennings. Flóknara er að svara hversvegna svo er.

Þungar og dökkar?

Þær raddir eru stundum áberandi að íslenskar myndir séu dálítið þunglamalegar og hafi tilhneigingu til að fjalla um fólk sem dvelur á jaðri samfélagsins með tilheyrandi andlegri kröm. Víst kann að vera ýmislegt til í því á köflum en á móti kemur að fjölmargar íslenskar myndir hafa notið gríðarlegrar hylli og meðaltalsaðsókn á þær er miklu hærri hlutfallslega en tíðkast á heimamyndir  í nágrannalöndum okkar. Jafnvel þær sem telja mætti „þungar“ hvað efnivið varðar og „dökkar“ í efnistökum (hugtökin eru vissulega afstæð).

Hinsvegar má velta fyrir sér hvort við gerum ekki of mikið af andhetjumyndum og hörgull sé á myndum þar sem lífssýn persóna er jákvæðari. Án þess að eitthvað sé að andhetjumyndum í sjálfu sér, né öðrum túlkunarleiðum sem kvikmyndahöfundar kjósa að fara. Veldur þar hver á heldur. Að auki er þetta ríkjandi stemmning í öðrum norrænum og evrópskum myndum, að því leyti skerum við okkur ekki úr.

Hvað er velgengni?

Svo er annað. Mælikvarðinn á velgengni íslenskra mynda er mjög á reiki. Vegna fámennis eru myndir ætlaðar sérstökum hópum fátíðar. Flestir framleiðendur vonast til að lunginn af þjóðinni komi á myndina þeirra. Þeir verða svo fyrir vonbrigðum þegar það gerist ekki. Þeir eru næstum aldrei ánægðir og telja ástæðu til að fagna. Jú kannski ofurlítið þegar aðsóknin er komin yfir 40-50.000 manns, sem er reyndar stjarnfræðilega hár hluti af markaðinum en gerist stundum, sérstaklega hin síðari ár svo ekki sé minnst á upphafsárin uppúr 1980 en það er tími sem er bæði löngu liðinn og aðsóknin stafaði fyrst og fremst af nýjabruminu.

Smá samanburður við frændur vora Dani

Hvað telst þá velgengni í aðsókn á íslenskar myndir? Meðaltalsaðsókn á íslenskar myndir s.l. tíu ár (2003-2012) segir vissa sögu. 15.487 manns koma að sjá íslenska mynd að meðaltali á þessu tímabili eða tæp 5% þjóðarinnar. Í Danmörku, þar sem heimamyndir hafa verið með um 26% meðalmarkaðshlutdeild (íslenskar myndir hafa verið með um 5.4% á sama tímabili, sem þýðir einfaldlega að íslenski markaðurinn er hlutfallslega miklu stærri, Íslendingar fara 4.8 sinnum í bíó að meðaltali á ári meðan Danir fara 2.4 sinnum) er meðaltalið á mynd á sama tímabili um 144.000 manns eða um 2.5% þjóðarinnar. Við erum því með um það bil helmingi meiri meðalaðsókn á heimamyndir en Danmörk. Víst eru frændur vorir um 18 sinnum fjölmennari en við, en engu að síður smáþjóð á flesta mælikvarða. Einnig þarf að hafa í huga að þeir gera á bilinu 20-25 bíómyndir á ári, en við ca. 6-8.

Hvidsten gruppen var vinsælasta mynd Dana 2012. Aðsókin var á hlutfalslegu pari við vinsælar íslenskar myndir eins og
Hvidsten gruppen var vinsælasta mynd Dana 2012. Aðsókin var á hlutfallslegu pari við vinsælar íslenskar myndir síðari ára eins og Astrópíu, Jóhannes og Sveppamyndirnar en á ekkert í metsölumyndir eins og Mýrina, Svartan á leik eða Bjarnfreðarson.

Og jú, Danir eiga toppa eins og við, dæmi eru vinsælustu myndir þeirra 2012, Hvidsten gruppen og Den skaldede frisør, með um 744.000 og 630.000 gesti. Það er aðsókn á hlutfallslegu pari við vinsælar íslenskar myndir síðari ára eins og Astrópíu, Jóhannes og Sveppamyndirnar en á ekkert í metsölumyndir eins og Mýrina, Svartan á leik eða Bjarnfreðarson. Merkilegt nokk eiga þeir líka lægðir sem eru álíka og hér, þarf þá ekki að beita neinum hlutfallsreikningi.

Staðan er svipuð eða jafnvel enn frekar okkur í hag ef borið er saman við hin Norðurlöndin. Enn batnar hún þegar borið er saman við stærri samfélög. Það segir okkur að íslenskar kvikmyndir njóti almennt sterkrar stöðu á heimamarkaði, þ.e. almenningur lætur sig þær varða í meira mæli en á við um heimamyndir landa sem við berum okkur saman við.

Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að kvikmyndagreinin geti hallað sér makindalega aftur og unað við sinn hlut, það má alltaf gera betur. En það er að minnsta kosti engin sérstök ástæða til að örvænta. Ekki einu sinni missa sig upp í dramatískar yfirlýsingar.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR