spot_img

Viðhorf | Páls tími Magnússonar og sýnin á RÚV

Það er eitthvað við Ríkisútvarpið.

Það er ekki aðeins þjóðareign heldur einnig þjóðarspegill, sem og leiðarhnoða um hvunndaginn. Sjá má í notkunarmælingum Capacent að vel yfir helmingur þjóðarinnar notfærir sér þjónustu þess daglega. Flestir eitthvað í hverri viku. Næstum allir hafa á því skoðun.

Páll Magnússon fyrrum útvarpsstjóri viðraði til dæmis þessa í viðtali á Bylgjunni um daginn:

„Þetta heitir almannaþjónustuútvarp, þetta er ekki fámannaþjónustuútvarp.“ […] „Það má ekki breyta þessu í einhverja sérviskulega, þrönga dagskrá sem hefur ekki almenna skírskotun, þá er alveg eins gott að loka þessu, þá hefur þetta enga þýðingu.“

Páll var gagnrýndur harðlega fyrir þessi ummæli, sem og framkvæmd nýlegs niðurskurðar. Orð hans virðast einnig á skjön við það sem hann sagði í viðtali við Blaðið 2. ágúst 2005, þá á leiðinni í stól útvarpsstjóra:

„Mælikvarði á velgengni almenningssjónvarps getur ekki verið sá að þú eigir alltaf að hámarka áhorfenda- eða hlustendafjöldann. Ef það á stöðugt og alltaf að taka mið af áhorfendafjölda þá sitja menn uppi með fjölmiðil sem er nákvæmlega eins og afþreyingarstöðvarnar – og það er ekki endilega íslensk menning.“

Málið er þó ekki svona einfalt; hann hefur lög að mæla í báðum tilvikum.

Almannastöð á bæði að sýna efni með víða skírskotun og þrönga. Legði slík stöð eingöngu áherslu á seinni liðinn myndi samfélagslegur slagkraftur hennar dragast verulega saman og erfiðara yrði að rökstyðja hið breiða þjónustuhlutverk gagnvart almenningi. Legði hún aðeins uppúr vinsældum væri hún að vanrækja erindi sitt varðandi fjölbreytni og fræðslu, rökstuðningurinn yrði erfiðari af sömu orsökum.

En hverskonar útvarpsstjóri hefur Páll verið? Mig langar að leita svara við þeirri spurningu út frá dagskránni, því eina sem í raun skiptir máli gagnvart eigendum RÚV, þjóðinni. Í þeirri yfirferð verður meira horft til sjónvarpshlutans, þó stundum sé snúið að greina á milli. Í framhaldinu ræði ég svo fjármögnun stofnunarinnar og meðferð fjárveitingavaldsins á henni í samhengi við hið dagskrárlega inntak.

Skipting dagskrár sjónvarps eftir efnisflokkum (allt efni, innlent sem erlent). Heimild: Ársskýrsla RÚV 2011-12.
Skipting heildardagskrár sjónvarps eftir efnisflokkum (allt efni, innlent sem erlent). Heimild: Ársskýrsla RÚV 2011-12. Smelltu til að stækka.

Páls tími Magnússonar og dagskráráherslur Ríkisútvarpsins

Þær raddir heyrast stundum – og sérstaklega í kringum nýafstaðnar uppsagnir – að áherslur Páls hafi fyrst og fremst snúist um hina breiðu skírskotun á kostnað hinnar þrengri.

Það er töluverð einföldun.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir allt er fjölbreytni dagskrár RÚV mikil eins og sjá má af meðfylgjandi skjáskotum úr ársskýrslu 2011-12 – miklu meiri en í öðrum fjölmiðlum (áhugasamir um útvarpsefnið smelli hér og skoði bls. 69).

Skiping efnisflokka dagskrár sjónvarps eftir upprunalöndum. Úr ársskýrslu RÚV 2011-12. Smelltu til að stækka.
Skiping efnisflokka dagskrár sjónvarps eftir upprunalöndum. Úr ársskýrslu RÚV 2011-12. Smelltu til að stækka.

RÚV ber að flytja fjölbreytt efni og gerir það. Hinsvegar má gagnrýna sumt í framkvæmdinni og tilteknar áherslur á einstaka efnisþætti. Svo er auðvitað eftir spurningin um gæði einstakra dagskrárliða. Margt á dagskrá RÚV er vel gert, annað þarfnast endurskoðunar. Þetta er vissulega afar mikilvægt atriði en ekki viðfangsefnið að þessu sinni.

Skoðum stóru drættina í dagskráráherslum RÚV á tíma Páls:

Aukning innlendrar dagskrár: Þegar RÚV var breytt í opinbert hlutafélag 2007 var gerður við það sérstakur þjónustusamningur. Hann kvað meðal annars á um aukningu innlendrar kjörtímadagskrár sjónvarps  (sem stendur frá kl. 19 til 23) úr 44% í 65% á fimm árum – þetta er næstum 50% aukning innlends efnis á kjörtíma. Ekki var gert ráð fyrir aukningu í fréttum og íþróttaefni. Markmiðið hefur ekki náðst enn sem komið er, en þó er hlutfallið komið í um 56% – á sex árum í stað fimm. Planið er semsagt aðeins rúmlega hálfnað og á mun lengri tíma en ætlunin var (athugið að hlutfall innlends efnis í heildardagskrá er 46% eins og sjá má af grafinu hér til hægri).

Þetta er auðvitað óviðunandi en hafa verður í huga þær aðstæður sem RÚV hefur búið við frá hruni. Páli og öðrum stjórnendum RÚV hefur tekist að auka innlenda kjörtímadagskrá á tímabilinu þrátt fyrir að samdráttur hafi orðið í umráðafé á árunum eftir hrun. Tekist hefur að setja meira fé í dagskrárgerð og um leið hagræða á öðrum póstum. Einfaldur samanburður úr ársskýrslum RÚV sýnir þetta (aukning tekna er um 8% meðan verðbólga á sama tíma var um 20%, því er um nokkra raunlækkun að ræða):

[tble caption=“Samanburður á tekjum og nokkrum helstu gjaldaliðum RÚV 2009-2013 (tölur í milljónum króna og námundaðar)“ width=“650″ colwidth=“150|50|50|50|50|50″ colalign=“left|center|center|center|center|center“]

LIÐUR,2009,2010,2011,2012,2013
Heildartekjur,4.900, 5.000,5.000,5.300,5.350
Dagskrárkostnaður,2.900,3.400,3.500,4.000,3.800
Rekstur og stjórnun,564,479,495,547,535
Fjármagnsgjöld,946,229,356,255,343
[/tble](Heimild: Ársskýrslur RÚV)

Aukning á dagskrárfé er vel umfram verðbólgu á tímabilinu, jafnvel þó dagskrárfé hafi dregist saman um 5% frá 2012. Þá hefur verið dregið nokkuð úr rekstrar- og stjórnunarkostnaði og verulega úr fjármagnskostnaði. Þetta styður þau ummæli Páls að uppsagnirnar í lok nóvember hefðu verið óhjákvæmilegar vegna þess að búið var að skera niður að beini á öðrum stöðum.

Aukning leikins innlends efnis: Leikið innlent efni jókst framan af á tíma Páls (reyndar úr næstum engu). Síðan dró mjög úr en hefur svo aftur tekið við sér á þessu ári. Að auki hefur RÚV markað sér stefnu um að sýna að minnsta kosti tvær leiknar seríur á ári. Útlit er fyrir að þær verði að minnsta kosti þrjár á yfirstandandi vetrardagskrá. Þetta er jákvæð þróun.

Fjölgun heimildamynda: Aukning varð í sýningu íslenskra heimildamynda á Pálstímanum þó að svo virðist sem dregið hafi úr sýningum þeirra síðustu misseri. Vissulega saknar maður markvissari stefnu hvað þær varðar, bæði varðandi inntak þeirra og ekki síður innkaupsverð. Þarna hefði mátt gera ýmislegt betur.

Íslenskar bíómyndir: RÚV kaupir einnig margar íslenskar bíómyndir, en brýnt er að gera RÚV skylt að koma með meira afgerandi hætti inní fjármögnun þeirra líkt og tíðkast til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Það fellur enda afar vel að almannaþjónustuhlutverki RÚV og helstu réttlætingunni fyrir tilvist stofnunarinnar; að veita almenningi aðgengi að innlendu efni sem varpar ljósi á hina margvíslegu króka og kima samfélagsins. Hér þarf að taka til hendinni.

Tilgreint hlutfall þjónustutekna í aðkeypt efni: Jákvætt er að nú er búið að binda í þjónustusamning að RÚV skuli verja 6% af þjónustutekjum sínum (útvarpsgjaldinu) til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þjónustusamningurinn verður endurnýjaður á næsta ári og stendur til að auka þetta hlutfall uppí 10% (raunar skilst mér að RÚV miði þegar við þetta hlutfall).  Það þýðir í praxís að um fjórðungur þess fjár sem Innlend dagskárdeild (IDD) hefur yfir að ráða yrði varið í kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

Auka þarf þetta hlutfall samfara almennri aukningu á hlutfalli innlends efnis; helstu réttlætingunni fyrir sjónvarpi (og útvarpi) í almannaþágu. Rökin eru tvíþætt; annarsvegar er nú kominn til sögu öflugur vettvangur sjálfstæðra framleiðslufyrirtækja sem hafa aðstöðu og fagkunnáttu til að skila af sér vel gerðu sjónvarpsefni á hagkvæman hátt; hinsvegar getur stofnunin fengið frekar ódýrt aðgengi að vönduðu og dýru sjónvarpsefni eins og t.d. leiknum þáttaröðum eða heimildamyndum gegnum sjóðakerfi og samframleiðslumöguleika sem kvikmyndabransinn hefur aðgang að en ekki RÚV.

Hallar á menningarhlutverkið: Fréttasviðið, það er að segja fréttir og fréttatengt efni (svæðisstöðvar, íþróttir og vefur meðtalið) hefur ávallt notið ákveðins forgangs hjá RÚV, hjá Páli sem fyrirrennurum hans. Þetta birtist til dæmis í því að sviðið hefur haft mun meira fé til umráða en önnur dagskrársvið (til dæmis um 43% af öllum innlendum dagskrárkostnaði 2009, Innlend dagskrárdeild sjónvarps (IDD) er þá með um 36% og útvarpsrásirnar báðar með um 21%). Síðan er töluvert af framleiðslu IDD einnig fréttatengt efni, t.d. Kastljós, Viðtalið og Sunnudagsmorgunn auk þess sem Fréttastofan framleiðir Landann þar sem fréttamenn taka púlsinn á því sem er að gerast víðsvegar á landsbyggðinni. Gróflega má því áætla að vel yfir helmingur af innlendum dagskrárkostnaði RÚV fyrir bæði sjónvarp og útvarp fari í fréttasviðið og fréttatengt efni. Því miður er afar erfitt að sundurgreina kostnaðinn frekar, t.d. milli sjónvarps og útvarps, vegna margþættrar samnýtingar á mannskap, tækjum og aðstöðu. Hlutfall þessa efnis í heildardagskrá er um 28% í sjónvarpi og um 15% í útvarpi – samanlagt um 18% af heildardagskrá í útvarpi og sjónvarpi – en vissulega þarf að hafa í huga að ekki er endilega beint samhengi milli magns dagskrár og kostnaðar við hana.

Með þessu er ég semsagt ekki að segja að þeir sem vinni fréttaefnið séu of vel haldnir af þeim peningum sem þeir hafa til umráða, þvert á móti. Enn síður hef ég eitthvað við slíkt efni að athuga. Hinsvegar þarf að skoða málið í samhengi við þá staðreynd að menningarhlutverk RÚV er alveg jafn mikilvægt og fréttahlutverkið. Segja má að um of halli á menningarhlutverkið (þar inni er t.d. leikið innlent efni, heimilda- og fræðsluefni, umfjöllun um menningu og listir, tónlistarefni og skemmtiefni). Leita þarf allra leiða til að auka það. Ég minni aftur á að eitt helsta markmið hins upphaflega þjónustusamnings frá 2006 var að auka innlent kjörtímaefni utan frétta og íþrótta – semsagt þann þátt dagskrár sem snýr að menningarhlutverkinu –  úr 44% í 65%. Enn er langt í land.

Ljóst er því að allt tal sem stundum heyrist um að RÚV hafi of mikla peninga til umráða er fleipur eitt; brýn þörf er á auknu fé ef RÚV á að geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum svo vel sé. Það er hinsvegar ekki í kortunum og ljóst að nýr útvarpsstjóri stendur frammi fyrir miklum vanda; hvernig skal forgangsraða í ljósi þeirrar skyldu RÚV að „fræða, upplýsa og skemmta“, þegar verulega hallar á menningarhlutverkið?

RÚV hélt sjó á tíma Páls: Í heildina má Páll sæmilega við una; hann náði nokkrum árangri í starfi sínu þegar litið er yfir sviðið. Stofnunin hélt sjó þrátt fyrir gríðarlega ágjöf á tímabilinu. Það gerðist þannig að honum og hans teymi tókst að auka auglýsingatekjur verulega meðan þjónustugjöld voru skorin niður. Ásamt niðurskurði annarra pósta gat hann þannig aukið innlenda dagskrá töluvert, þó ekki hefðu náðst upphafleg markmið; leikið innlent efni jókst einnig á hans tíma, en var reyndar mjög lítið fyrir; umfjöllun um menningu og listir varð einnig fjölþættari; og sömuleiðis varð nokkur aukning í hlutfalli efnis frá sjálfstæðum framleiðendum, en það var mikill slagur við hann og enn á eftir að vinna brýnar orrustur á því sviði. Áherslur á fréttir og fréttatengt efni eru enn of miklar á kostnað menningarhlutverksins miðað við erindi RÚV eins og það er skilgreint.

Harðdrægur baráttumaður: Páll má eiga það að hann hefur verið harðdrægur baráttumaður fyrir sjálfstæði RÚV þegar stormur hefur staðið á Efstaleitið. Um það er allt gott að segja í meginatriðum, það er mikilvægt að útvarpsstjóri standi með sínu fólki og sinni stofnun þegar að henni er vegið, sérstaklega þegar árásirnar eru ósvífin pólitísk strategía. Um leið sýndi hann takmarkaðan áhuga á rökræðu um stofnunina (sem hann kallar oftast félag eða fyrirtæki – og er svosem rétt) og þá vegferð sem hún er á. Þó er rétt að geta þess að að fyrir rúmu ári lagði RÚV loks fram stefnuplagg þar sem finna má marga góða punkta, t.d. um visst magn leikins efnis, auknar áherslur á dagskrárlega gæðastjórnun og nánara samráð við skapandi fólk og fyrirtæki utan stofnunarinnar. Plaggið tekur á ýmsum þáttum sem gagnrýni hefur beinst að gegnum tíðina og er það vel.

Skortur á sýn: Halldór Guðmundsson, fyrrum stjórnarmaður RÚV, hefur nokkuð til síns máls þegar hann ræðir um skort á sýn í samhengi við uppsagnirnar í lok nóvember. Hann segir réttilega að oft sé nauðsynlegt að gera breytingar, en þær þurfi að þjóna markmiðum. Séu þau til staðar skipti mun minna máli hvort það sé sjónvarp á hverjum degi eða útvarpað á mörgum rásum. „Við munum í framtíðinni velja okkar dagskrá eftir hentugleika af vefnum,“ segir Halldór ennfremur. „En það þarf einhver að sinna, markvisst og fyrir skattfé, íslenskri menningu, sögu og sköpun. Sé slík sýn til staðar, má alltaf lifa með tímabundnum sparnaði. Þetta finnst mér vera verkefnið sem bíður nýs útvarpsstjóra og stjórnar RÚV.“ Undir þetta skal tekið.

En hvað nú kæra RÚV þegar stjórnvöld hafa ákveðið að þrengja verulega að þér enn og aftur?

RÚV í spennitreyju

Skilgreina má hlutverk almannaþjónustumiðla í einföldum dráttum þannig að þeir bjóða uppá eitthvað fyrir alla einhverntímann, dagskráráherslur snúast um speglun fjölbreytileika mannlífsins og að ólík sjónarmið fái notið sín. Sátt hefur verið um að þetta sé samfélagslega mikilvægt og þannig réttlætanlegt að innheima sérstakt gjald til starfsseminnar af almenningi.

En er það að breytast?

Ljóst er að Alþingi hyggst klípa hressilega af útvarpsgjaldinu og til stendur að lækka það til frambúðar frá 2015. Þetta kemur ofan í tekjuskerðingu sem verður vegna takmarkana á auglýsingasölu. Umfang RÚV er því að skreppa verulega saman; raunskerðingin er að minnsta kosti um 20% frá því fyrir hrun. RÚV vantar semsagt um milljarð króna; peninga sem hefðu væntanlega að miklu leyti farið í eflingu innlendrar dagskrár og til að ná markmiðunum um 65% hlutfall innlends efnis á kjörtíma.

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt í sögu RÚV að stjórnvöld setji stofnuninni þröngar skorður, þó að niðurskurður undanfarinna ára sé óvenju mikill. Að ýmsu leyti hafa þessar skorður gert henni erfitt fyrir að gegna hlutverki sínu nægilega vel gegnum tíðina. Af einhverjum ástæðum hafa stjórnvöld ekki verið tilbúin að fjármagna RÚV eingöngu með notendagjöldum eins og tíðkast hjá þeim stöðvum sem telja má fyrirmyndirnar; DR og hinar norrænu stöðvarnar ásamt BBC.

Bent skal á að ef RÚV hefði eingöngu tekjur af notendagjöldum væri kostnaður almennings af tilvist þess svipaður og á Norðurlöndunum (sjá útlistun mína á því hér).

Afhverju ekki bara að skera almennilega niður – svona um helming allavega?

Hlutdeild RÚV í heildaráhorfi sjónvarpsstöðva. Heimild: Ársskýrsla RÚV 2012. Smelltu til að stækka.
Hlutdeild RÚV í heildaráhorfi sjónvarpsstöðva. Heimild: Ársskýrsla RÚV 2012. Smelltu til að stækka.

Mikael Torfason aðalritstjóri 365 miðla er einn þeirra sem vill ganga enn lengra í niðurskurði. Hann segir bæði í leiðara Fréttablaðsins og í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins að hægt sé að reka Ríkisútvarp sem sátt sé um án auglýsingatekna og fyrir aðeins hluta af nefskattinum. Hann nefndi 2.5 milljarða hjá Gísla. Það þýðir að RÚV myndi minnka um rúman helming. Mikael er semsagt að leggja til stórfelldan niðurskurð á innlendri dagskrá RÚV í útvarpi og sjónvarpi. Erfitt er að sjá að almenningur, sem horfir og hlustar mun meira á RÚV en hans miðla, yrði sáttur. En sumir yrðu kannski sáttir í Skaftahlíð.

Ég er ekki viss um að það sé nóg, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki.

Mikael starfar fyrir stórt einkarekið fjölmiðlafyrirtæki sem á í samkeppni við RÚV um auglýsingar. Það þýðir þó ekki endilega að sjónarmiði hans eigi að vísa umsvifalaust á bug sem ótíndri hagsmunavörslu. Það missir samt svolítið marks og verður eins og hvert annað stórkallalegt orðagjálfur vegna þess að rök vantar. Hyrfu auglýsingar af RÚV myndi slíkur tekjumissir óbættur leiða til niðurskurðar sem gerði þann sem varð á dögunum vart í frásögur færandi í samanburði. Frekari niðurskurður opinberrar fjármögnunar myndi svo enn bæta í. Stofnunin yrði vart svipur hjá sjón.

Um 3/4 af gjöldum RÚV fara í dagskrárkostnað, en þar af aðeins um 11% í kaup á erlendu efni (miðað við svipað hlutfall og var 2009). Innlenda dagskráin – bæði fyrir útvarp en að langstærstu leyti sjónvarp – er því það sem kostar stóru peningana. Erlenda efnið er hinsvegar vel rúmur helmingur heildardagskrár sjónvarps (54%). Þetta veit Mikael Torfason. Hann veit að innlend dagskrárgerð kostar peninga.

En undirliggjandi er ágæt spurning. Hvað er almannaþjónustumiðill að gera á auglýsingamarkaði í samkeppni við einkarekin fyrirtæki? Þetta er ekki svona á Norðurlöndunum eða hjá BBC. Í Þýskalandi eru þær afar takmarkaðar og Frakkar eru að undirbúa afnám auglýsinga í sínum almannastöðvum. Nokkrar almannastöðvar í smærri löndum Evrópu hafa þó hluta tekna af auglýsingum.

Þetta með fjármögnunina…

Auglýsingar í RÚV takmarka ekki aðeins svigrúm einkastöðva til fjármögnunar heldur setja einnig ákveðinn þrýsting á stjórnendur RÚV um að leggja meiri áherslu á efni með víða skírskotun umfram fjölbreytnina. Og enn frekar ef auglýsingatekjur eru hátt hlutfall af heildartekjum. Páll Magnússon orðaði þetta mjög vel í fyrrnefndu viðtali við Blaðið 2. ágúst 2005:

„Ef menn reka fjölmiðil á menningarlegum forsendum þá verður að nota annan mælikvarða á það hvernig til tekst en einungis áhorfenda- eða hlustendafjöldann. Að sumu leyti hefur Ríkissjónvarpið gengið of langt í átt að einkastöðvunum í dagskrársamsetningu sinni og einblínt um of á að hámarka áhorfið og þar af leiðandi auglýsingatekjurnar. RÚV er þó nokkur vorkunn að þessu leyti, það hefur verið í fjárhagsvandræðum, afnotagjöldin eru fastur póstur og menn hafa kvartað undan því að fá ekki eðlilegar hækkanir á þeim. Eina leiðin til að auka tekjur hefur verið að auka auglýsingatekjurnar. Um leið þokast dagskráin í átt að þeirri sem er á einkastöðvum og þá er ekki verið að sinna þeirri skyldu að láta til dæmis íslenska dagskrárgerð hafa forgang.“

Þrátt fyrir þessi ágætu varnaðarorð Páls frá 2005 jukust auglýsingatekjur stöðugt sem hlutfall af tekjum í útvarpsstjóratíð hans. Hann átti auðvitað varla annarra kosta völ og því eru ummælin um leið afar forspá um það hlutskipti sem beið hans. Þróunin var vissulega hafin fyrir hans tíð, eins og hann kom inná í viðtalinu við Blaðið, hlutfallið af heildartekjum hefur vaxið úr rúmum fjórðungi fyrir áratug til um 38% 2012. Með nýjum lögum þar sem auglýsingar og kostun eru háð takmörkunum minnkar hlutfallið eitthvað, sennilega niður í um þriðjung. Það er enn afar hátt hlutfall. Á sama tímabili hefur hlutur þjónustutekna (afnotagjald og útvarpsgjald) fallið frá rúmum 70% niður í tæp 60%, en fer nú upp aftur um nokkur prósentustig. Hafa verður í huga í þessu sambandi að einnig er verið að skerða heildarumráðafé.

Hin pólitíska ákvörðun um að klípa verulega af útvarpsgjaldinu og festa síðan lækkunina varanlega í sessi, eins og til stendur 2015, er stefnumarkandi aðgerð; ákvörðun um að þrengja möguleika RÚV til að sinna fjölbreyttu hlutverki sínu sem almannaþjónustumiðill. Um leið er RÚV gert að treysta að afar stórum hluta á auglýsingatekjur, sem bæði hefur áhrif á dagskrársetningu og takmarkar möguleika einkarekinna miðla til að sinna innlendri dagskrárgerð. Það er önnur stefnumarkandi aðgerð sem knýr RÚV til að halda uppi harðri samkeppni við einkamiðla um auglýsingafé.

Lögin um Ríkisútvarpið kveða á um erindi þess og skyldur. Þjónustusamningurinn snýst um nánari útfærslu þessara laga. Hvorutveggja eru marklítil plögg ef stjórnvöld hafa ekki vilja eða getu til að fjármagna stofnunina þannig að hún geti sómasamlega sinnt því sem henni er ætlað.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR