spot_img

Útvarpsgjald vs. afnotagjald

útvarpshúsið_efstaleiti1Egill Helgason bendir á að afnotagjald danska og norska ríkisútvarpsins er miklu hærra en útvarpsgjald RÚV. En málið er ekki alveg svona einfalt.

Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að þessar stöðvar hafa ekki tekjur af auglýsingum líkt og RÚV. Tekjur RÚV af auglýsingum og kostun eru um 2/3 af útvarpsgjaldstekjunum sem þýðir gróflega að útvarpsgjaldið þyrfti að vera rúmlega 30.000 kr. á ári ef auglýsingatekjum væri sleppt.

Einnig verður að taka með í reikninginn að afnotagjöld norrænu sjónvarpsstöðvanna miðast við eigendur viðtækja (líkt og afnotagjald RÚV gerði áður) en sá hópur er nokkuð smærri en þeir sem greiða útvarpsgjald. Sambærilegt gjald RÚV þyrfti því að vera enn hærra.

Hvað væri afnotagjaldið hátt í dag væri það enn við lýði? Sé miðað við þær hugmyndir sem fram komu í greinargerð frumvarps um RÚV frá 2007, þar sem talað er um að útvarpsgjald verðiþannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður”, væri það um 44.000 kr. á ári (upphaflega var í frumvarpinu miðað við að útvarpsgjald væri 14.580 kr. á ári en endaði í 18.800 kr.). Þetta er nokkuð lægra en afnotagjöld norrænu stöðvanna, en við þetta bætast svo auglýsingatekjur RÚV, sem eru ígildi um 12.000 kr. á ári pr. greiðanda. Alls þyrfti sambærilegt afnotagjald (RÚV án auglýsinga) því að vera tæpar 56.000 kr. á ári – mjög á pari við afnotagjöld norrænu stöðvanna, ögn hærra ef eitthvað.

Athugið að yrði þessi breyting gerð myndu rekstrartekjur RÚV ekki breytast að ráði.

Hitt er að þessa peninga þarf til að reka ríkisútvarp. Það kostar í raun og veru ekkert minna að búa til sjónvarpsefni hér en á hinum Norðurlöndunum en vegna aðstæðna (undirfjármögnunar, smæðar) er það samt sem áður svo.

Staðreyndin er sú að gjaldið er of lágt. Vegna undirfjármögnunar skortir RÚV mjög burði til að kosta dagskrárgerð af þeirri stærðargráðu sem æskileg er. Flest verkefni eru undirfjármögnuð og líða fyrir það. Kostnaðaráætlanir innlendra dagskrárverkefna eru gegnumgangandi mjög lágar hér miðað við nágrannalöndin og það takmarkar auðvitað mjög það svigrúm sem menn hafa.

Egill kemur raunar með ágætan punkt um þetta í athugasemdum við grein sína, þar sem hann bendir á að 14 manns starfi að bókaþættinum Babel í sænska sjónvarpinu sem er jafnlangur og Kiljan sem 3 starfsmenn vinni. Það er ekki erfitt að sjá aðstöðumuninn – sem og kostnaðarmuninn.

Þetta er faglegt mat, á hinum endanum er spurningin hvaða verðlagningu “markaðurinn” þolir og hvað almenningur er tilbúinn að sætta sig við.

Vísbendingarnar um það eru misvísandi; t.d. nýtur RÚV ítrekaðs trausts almennings varðandi fréttaflutning – sem bendir til þess að almenningur sé sáttur við þau gæði sem boðið er uppá af fréttastofunni. RÚV fær almennt gríðarlegt áhorf samkvæmt mælingum og ber höfuð og herðar yfir aðra aðila. Það er líka vísbending um að áhorfendum líki gæði þjónustunnar – en einnig verður að taka það með í reikninginn að dreifing á RÚV er víðtækari en hinna stöðvanna og stöðin býr bæði að skylduáskrift og nýtur ákveðinnar velvildar fyrir að vera í eigu almennings.

Hinsvegar eru raddir sem kvarta yfir dagskránni (bæði innlendri og erlendri) nokkuð háværar og áberandi árið um kring (aukast reyndar nokkuð á sumrin) – sem er vísbending um að mörgum finnist nokkuð skorta á gæði þjónustunnar. Mjög mismunandi er hversu málefnaleg sú gagnrýni er – en auðvitað er bæði sjálfsagt og eðlilegt að almenningur láti í sér heyra varðandi RÚV. Almenningur þarf einnig að finna að á gagnrýni sé hlustað.

RÚV er semsagt verulega undirfjármögnuð stofnun. Við þurfum að setja meiri peninga í hana ef vel á að vera. Allt tal um að hægt sé að skera niður í rekstri RÚV er útí hött nema þá að skerða þjónustuna. Þá er ég ekki að undanskilja eðlilegar kröfur um aðhald og hagræðingu, en slíkt er eilífðarverkefni. Vissulega mætti hugsa sér í ljósi aðstæðna að RÚV forgangsraðaði áherslum með mjög afgerandi hætti (ég fjallaði um það t.d. hér). Það yrði þó líklega mjög umdeilt – en ef til vill það rétta í stöðunni.

Aðalatriðið er að finna leið til að auka það fé sem fer til dagskrárgerðar – bæði til að auka fjölbreytni efnis og setja meira fé í einstaka dagskrárliði. Þjóðin mun kaupa það ef – og aðeins ef – hún finnur að hún er að fá eitthvað fyrir peningana, þ.e. stóraukið framboð á vönduðu innlendu efni af hverskyns toga. Innlendu efni sem beint er að margskonar ólíkum hópum og áhugasviðum. Bæði efni sem ætlað er að höfða til hins breiða fjölda og efni sem beint er að smærri hópum.

RÚV er vissulega að gera þetta innan síns ramma og margt er þar vel gert, en betur má ef duga skal. Lykilatriði í því er að viðurkenna að stofnunin þarf á mun meira fé að halda.

Það hvort leggja eigi RÚV niður eða ekki, er svo önnur umræða sem fáeinum háværum aðilum virðist hjartans mál. Er því algjörlega ósammála en það er sjálfsagt að ræða það reglulega.

Nokkrar áhugaverðar tölur « Silfur Egils.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR