Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í vikunni að styrkja sjálfseignarstofnunina Heimili kvikmyndanna um átta milljónir króna til að halda Kvikmyndahátíð í Reykjavík að nýju á næsta ári. Að baki Heimilis kvikmyndanna, sem rekur Bíó Paradís, standa öll fagfélög kvikmyndagerðarmanna, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag kvikmyndagerðarmanna.
Farið var að tillögu faghóps Bandalags íslenskra listamanna varðandi úthlutanir til menningarverkefna, líkt og gert hefur verið um árabil. Faghópurinn hafði 175 umsóknir til umfjöllunar og alls var sótt um styrki að fjárhæð 268 m.kr. Hópurinn lagði til að ráðstafað yrði 49.2 m.kr.- til 81 verkefnis á árinu 2014.
Einkahlutafélagið Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem er í eigu Hrannar Marinósdóttur, hefur notið styrkja frá Reykjavíkurborg og fleirum til að halda RIFF-hátíðina allt frá 2004 þegar fyrsta RIFF hátíðin var haldin, en fær ekki styrk að þessu sinni.
Kvikmyndahátíð í Reykjavík var rekin af fagfélögum kvikmyndagerðarmanna á árunum 1996-2001. Hún tók við af Kvikmyndahátíð Listahátíðar sem starfrækt var annað hver ár frá 1978.
Morgunblaðið greinir frá málinu hér og gerir meðal annars grein fyrir afstöðu meirihluta og minnihluta í menningar- og ferðamálaráði, auk þess að birta viðbrögð Hrannar Marinósdóttur stjórnanda RIFF og Hrannar Sveinsdóttur framkvæmdastjóra Heimilis kvikmyndanna.
Þá birtir Vísir frétt hér þar sem rætt er við Hrönn Sveinsdóttur um málið.
[divider scroll_text=””] (Athugið: Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés var dagskrárstjóri Bíó Paradísar, sem rekið er af Heimili kvikmyndanna, frá upphafi 2010 til 1. apríl 2013. Hann hefur einnig margoft komið að starfi RIFF sem stjórnandi “spurt og svarað” sýninga og “masterklassa”).