spot_img

Fjaðrafokið í kringum Í SKÓM DREKANS rifjað upp

Heimildamyndin Í skóm drekans er endursýnd í Bíó Paradís 24. september í tilefni 20 ára afmælis myndarinnar, sem vakti miklar deilur á sínum tíma. Lestin ræddi við höfundana, Hrönn og Árna Sveinsbörn.

Smelltu á myndina til að sjá umfjöllun Lands & sona um Í skóm drekans frá 2002.

Á vef RÚV segir:

Ný fegurðarsamkeppni var kynnt til leiks á Íslandi árið 2000 sem breyttar áherslur en áður höfðu þekkst. Hrönn Sveinsdóttir sló til og sótti um þátttöku með það í huga að taka upp heimildarmynd um ferlið. Myndin olli talsverðu fjaðrafoki og reynt var að koma í veg fyrir að myndin yrði sýnd. „Daginn áður en hún átti að vera frumsýnd þá er sett á hana lögbann.“

Heimildamyndin Í skóm drekans á 20 ára afmæli um þessar mundir. Myndin vakti hörð viðbrögð í samfélaginu áður en hún var sýnd og meðal annars var sett á hana lögbann. Hrönn Sveinsdóttir tók þá ákvörðun, sínum nánustu algjörlega að óvörum, að taka þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland.is árið 2000. Hún skráði sig til leiks með það í huga að gera heimildarmynd um þátttöku sína í keppninni. „Eins og mjög margar góðar hugmyndir þá kom þessi um miðja nótt á Kaffibarnum,“ rifjar Hrönn upp. Hún og Árni bróðir hennar ræddu við Lestina á Rás 1 um fjaðrafokið í kringum myndina.

Dogma 95-hreyfingin innblástur

Hrönn og Árni Sveinsbörn höfðu bæði verið viðloðandi kvikmyndaframleiðslu um nokkra hríð um aldamótin síðustu. Þau voru innblásin af hinni dönsku dogma-hreyfingu sem lagði áherslu á viðfangsefni kvikmynda fremur en tæknibrellur og áferðarfegurð. „Byltingin í þessu eru þessi upptökutæki, þessar litlu handhægu digital myndavélar sem gátu tekið upp bæði frekar fína mynd og gott hljóð,“ segir Árni. Þessi nýja tækni gerði öllum kleift að taka upp kvikmyndir án þess að þurfa til þess stóran hóp af fólki. „Þetta gerðist allt léttara og meira mobile,“ bætir hann við.

Hrönn sá auglýsingu um þátttöku í nýrri fegurðarsamkeppni, Ungfrú Ísland.is, og ákvað að slá til og sækja um með það fyrir augum að gera heimildamynd um ferlið. „Á þessum tíma voru fegurðarsamkeppnir orðnar mjög halló en þær þóttu samt enn þá merkilegar,“ segir Hrönn. Handhæg tækni gerði henni kleift að taka allan aðdraganda keppninnar upp. Hún fékk móður sína með sér í lið sem tökumann til að skrásetja þátttöku sína í því sem átti að vera nútímaleg fegurðarsamkeppni sem hefði aðrar áherslur en aðeins á fegurð keppenda.

Átti erfitt með að ímynda sér farsæla mynd

Hrönn segir það hafa reynst sér erfitt framan af að sannfæra vini og vandamenn um að þátttaka hennar í fegurðarsamkeppni hefði stærri tilgang. „Ég rak mig alveg á það að fólk í kringum mig í kvikmyndagerðinni var alveg, er Hrönn að missa það? Langar Hrönn að vera Ungfrú Ísland?“

„Það fannst öllum þetta svo vond hugmynd,“ rifjar Hrönn upp. Árni bróðir hennar segir að hann og fleiri hefðu átt erfitt með að ímynda sér að fyrirætlanir Hrannar bæru árangur. „Ímyndunarafl manns er svo takmarkað þegar maður heyrir svona hugmynd bara face value. Maður fattar ekki.“

Nýjar áherslur fegurðarsamkeppninnar pössuðu vel við starfsferil Hrannar og lífsviðhorf. „Þeim þótti það akkúrat fyrir keppnina að fá svona unga og hressa píu úr kvikmyndageiranum sem er að gera fullt,“ minnist Árni. Keppnin flaggaði því hreykin að kvikmyndagerðakona væri að taka þátt. „Hins vegar náttúrlega leist þeim ekkert á blikuna þegar að þau föttuðu að þau gætu ekki alveg stjórnað því sem var að gerast.“

Afhjúpa væntingar feðraveldisins

Fyrst um sinn var heimildamyndin hið eiginlega verkefni Hrannar en smám saman krækti keppnisskapið klóm sínum í hana. „Fyrst þetta er keppni þá skulum við bara fara inn til að sigra,“ segist Hrönn hafa hugsað. „Því meira sem að ég rifja upp þessa tíma, því meira sekk ég dýpra og dýpra niður í þetta, djöfull var ég nálægt. Ég hefði getað tekið þetta.“

„Á tímabili var ég farin að virkilega hugsa hvort ég þyrfti að fá mér gelneglur og hárlengingar,“ rifjar Hrönn upp. Hún áttaði sig jafnframt á því að ákveðin persónueinkenni juku vinningslíkur. „Það er svo fyndið hvernig það er ósagt en allir vita það.“ Allar stúlkurnar fóru í viðtal og voru spurðar hvert þeirra æðsta takmark í lífinu var. „Þá sögðu þær eiginlega allar að eignast eiginmann og börn.“ Hrönn segir að væntingar feðraveldisins hafi afhjúpast í tilsvörum keppenda sem vissu til hvers var ætlast af þeim. „Þessar stelpur voru ekkert að sitja saman á föstudagskvöldum og að tala um að æðstu takmörkin þeirra væru að giftast og eignast börn.“

Baðfatasýning fyrir lokuðum dyrum

Hrönn, ásamt öðrum þátttakendum í Ungfrú Ísland.is, gegndi margvíslegu kynningarstarfi fyrir keppnina og bakhjarla hennar. „Maður var komin í rosa þjónustuhlutverk við keppnina.“ Kynningarstarfið fólst meðal annars í því að mæta í Kringluna og kynna sokkabuxur, að fara í myndatökur og í viðtöl. „Öll viðtöl voru eins og maður væri ellefu ára. Það var eitthvað hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór.“

„Þið eruð náttúrulega alltaf að safna stigum í ferlinu,“ segir Árni. Hápunktur keppninnar sjálfrar var svo keppniskvöldið þar sem keppendur gengu tískupallinn fyrir augum dómnefndar og landsbyggðarinnar allrar í beinni útsendingu. Sú breyting var frá hefðbundinni fegurðarsamkeppni að keppendur gengu ekki í baðfötum á keppniskvöldinu. Baðfatasýningin fór fram nokkru fyrr fyrir lokuðum dyrum. „Það var bara fyrir dómarana en það var skrítið,“ minnist Hrönn.

Fullt starf við að kynna meik og sokkabuxur

„Þegar maður pælir í þessu svona eftir á þá fór að byggjast upp í mér kergja. Maður var þarna í fullri vinnu nánast við þennan viðburð í margar vikur, að selja meik og sokkabuxur og alls konar dót og það eru allir að fá borgað nema þú,“ segir Hrönn.

Kergja Hrannar barst til stjórnenda keppninnar sem höfðu auknar áhyggjur á því myndefni sem hún hafði sankað að sér í aðdragandanum. „Þau fatta að hún er eitthvað wild card sem þau geta ekki stjórnað þannig að þau setja lokur fyrir það,“ segir Árni. „Þá er líka komin upp innan meðkeppenda hennar tortryggni. Hvað er hún alltaf að gera með þessa myndavél og þessa gufurugluðu mömmu sína og það er búið að einangra hana svolítið og þá hringir hún í bróður sinn.“ Hann og Sindri Páll Kjartansson voru á þessum tíma að gera þætti um vinahópa á Skjá einum og ákváðu að gera einn þátt um stelpurnar í Ungfrú Ísland.is. „Þannig að við náðum þannig að loka síðustu vikunum í tökum.“

Hélt að þetta væri allt bara drasl

Hrönn endaði í þriðja sæti og vildi eftir keppnina sem minnst hugsa um þennan tíma. „Eftir keppnina þá er ég alveg löngu búin að fá nóg af þessu öllu og langar eiginlega ekkert að fara að díla við þetta.“ Hún segist hafa misst trúna á að eitthvað væri varið í myndefnið. „Maður heldur að þetta sé bara eitthvað drasl.“

Árni bróðir hennar tók við eftirvinnslu myndarinnar ásamt fleirum. „Við létum þetta efni liggja í heilt ár, bara vegna anna og svona. Eftir á að hyggja þá finnst mér það oft góð regla að láta þetta aðeins malla,“ segir Árni. Eftir árs pásu hófst hann handa við að skoða það efni sem Hrönn og móðir hennar höfðu tekið upp og klippa það til. „Þá förum við að skoða þetta og þá föttum við að við erum beisikklí með örk sem er bara ferðalag hetjunnar.“

Afþakkaði samstarf og þá byrjuðu vandræðin

Þegar systkinin hófust handa við að klippa mynd sína heyrði Hrönn óvænt aftur frá stjórnendum keppninnar. „Þau vilja bara endilega fara í einhvers konar samstarf og gera eitthvað sem þau kalla þátt.“ Hún afþakkaði samstarfið. „Þá byrja vandræðin,“ segir Hrönn.

„Fyrsta tilraun til að fá lögbann var á þeim forsendum að við mættum ekki fjalla um vörumerkið Ungfrú Ísland.is,“ segir Árni. Þessi tilraun náði ekki flugi þar sem umfjöllun hafði verið um keppnina í öllum fjölmiðlum landsins án formlegs samþykkis frá keppninni.

Árni segir lögfræðinga keppninnar hafa áttað sig á að þau gætu stýrt umræðunni um heimildarmyndina svo lengi sem enginn hefði séð hana. „Þau fatta mjög fljótt að um leið og þú ert að tala um einhvern hlut sem  í rauninni enginn hefur séð þá getur þú sagt hvað sem er. Þá er hún orðin fantasía.“ Hann segir að lykill að málsvörn þeirra hafi verið fólginn í því að enginn fengi að sjá myndina.

Í málinu gegn kvikmyndinni segir Árni að friðhelgi einkalífsins hafi tekist á við tjáningarfrelsisákvæði. Fólk skiptist í tvær stríðandi fylkingar. Upp til hópa hafi fólk í samfélaginu ekki endilega kynnt sér til hlítar um hvað málið snerist heldur einfaldlega verið með myndinni eða á móti. „Þau heyra yfirborðið, sem er að við erum illa innrætt, við erum búin að gera þessum aumingja stelpum þennan óleik að taka þær upp í laumi. Við erum með mjög lágar hvatir og við erum að gera eitthvað frekar ógeðslegt.“ Þar sem þessi orðræða var viðhöfð um þau systkinin hafi eðlilega margir tekið afstöðu gegn kvikmyndinni.

Fengu lögbann í frumsýningarviku

Hrönn segir að þetta hafi verið ákaflega dramatískur tími. „Fyrir utan réttarsalinn var fullt af áhyggjufullum foreldrum og grátandi fegurðardísum.“ Í vitnaleiðslum krafði lögmaður stefnenda Hrönn um hæfniskröfur hennar til kvikmyndagerðar. „Af hverju er ég í réttarsal að svara fyrir mína aðkomu að mynd sem er mitt höfundarverk, sem var tekið upp með samþykki allra sem voru á staðnum og er orðin einhver stórkostlegur farsi um brot á friðhelgi og hvað er mynd og hvað er listrænt frelsi og hvað er tjáning?“ man Hrönn eftir að hafa hugsað.

Það jók á dramatíkina að frumsýning myndarinnar átti að fara fram aðeins nokkrum dögum eftir málsmeðferðina. „Daginn áður en hún átti að vera frumsýnd þá er sett á hana lögbann.“ Árni segir það hafa verið sjokk. „Við vorum í mega limbói þetta sumar. Með tilbúna mynd, fullt af fólki búið að mixa hana og litagreina og mastera og bara allt og við erum að blæða peningum í einhverjum lögfræðikostnaði og kjaftæði.“

Málinu lauk með samkomulagi. „Okkar lögfræðingur talaði við þeirra lögfræðing,“ segir Hrönn. Árni segir að smám saman hafi keppendurnir sem efnt höfðu til hópmálsins áttað sig á að keppnin var búin að draga sig út úr málinu. „Þetta er allt á herðum þeirra, þær eru allt í einu orðnar málshöfðendur í þessu máli sem þær vildu í rauninni aldrei vera.“ Sáttin fólst meðal annars í því að keppendum gafst kostur á að óska eftir að andlit þeirra væri hulið í myndinni. „Mig minnir að það hafi verið þrjár stelpur sem tóku því,“ segir Hrönn. „Fyrir mér var þetta bara æðislegur effect. Ég hafði bara séð þetta gert í Cops lögregluþáttunum og ég hugsaði bara vá þetta er geggjað, að fegurðarsamkeppni sé svo sjúklega vafasamur hlutur að þú vilt bara láta blörra þig frekar en að vera þarna.“

Sú eina sem fékk slæma útreið í myndinni

Myndin kom loksins út 2002 eftir að hafa hrakist um í dómskerfinu í nokkurn tíma. Fjölmiðlafárið í kringum dómsmálið hafði lægt og Árni var staddur í Frakklandi á frumsýningardegi. Hrönn man að það voru þung skref að fara niður í Háskólabíó. „Það var eins og að mig langaði ekki þegar til kastanna kom.“ Frumsýningin gekk þó vel, myndin rataði í mörg bíóhús landsins og aðsóknin var góð. Kvikmyndin var sýnd á kvikmyndahátíðum víða um Evrópu og hlaut Edduverðlaunin árið 2002.

Árni minnist þess að myndin hafi komið mörgum á óvart á sínum tíma. „Það var ógeðslega hissa að þetta væri svona mynd, af því að hún var rosalega persónuleg og Hrönn leggur sig alla að veði.“ Hann segir Hrönn hafa afhjúpað sig og sína veikleika í myndinni. „Þú ert vissulega aðalsöguhetjan en líka algjörlega án þess að ritskoða þig.“

„Það er skemmtilegt að pæla í því að það eina sem er rætið og erfitt og eina manneskjan sem fær virkilega útreið í þessari mynd, var ég,“ segir Hrönn. Áhyggjur annarra keppenda hafi því verið ástæðulausar. „Ég er gjörsamlega þarna dregin sundur og saman í minni ferð í gegnum þennan speglasal fegurðarinnar.“

Forsmekkur að samfélagsmiðlaöldinni

Myndin hefur reynst stöndugt innlegg í umræðu um femínisma, kynjahlutverk, tíðarandann um aldamótin og um lögfræði.  „Hún er mjög mikið notuð þessi mynd í lögfræði, því hún er enn þá einhvers konar prófmál,“ segir Hrönn sem er reglulega stoppuð af ungum lögfræðingum á djamminu sem vilja ræða myndina. Hún hefur verið beðin um að koma og ræða myndina í kynja- og félagsfræðinámskeiðum í Háskóla Íslands. „Það hafði aldrei neinn farið inn í svona umhverfi og í rauninni gert pínu uppreisn gegn því sem konur eiga alltaf að spila með.“

Í skóm drekans er mjög persónulegt verk og því hefur verið haldið fram að hún sé fyrsta karakterdrifna heimildarmyndin á Íslandi. „Hún lýsir tíðarandanum vel og þessum heimi, þetta er forsmekkur að því sem verður síðan samfélagsmiðlar þar sem fólk er að deila persónulegum sögum af sjálfum sér en þetta hafði aldrei verið gert áður á þennan hátt,“ segir Hrönn.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR