Dagskrá RÚV skerðist vegna niðurskurðar

RÚV húsiðÍ fréttatilkynningu sem RÚV hefur sent frá sér segir Páll Magnússon útvarpsstjóri að óhjákvæmilegt sé að boðaður niðurskurður, sem og samdráttur á auglýsingamarkaði, muni hafa mikil áhrif á dagskrána.

„Nokkrir dagskrárliðir í útvarpi og sjónvarpi munu hverfa, öðrum fækkar og enn aðrir breytast og þynnast. Fréttatímar munu styttast og þeim mun fækka,“ segir Páll. Hann segir jafnframt að ekki verði um flatan niðurskurð að ræða heldur verði „forgangsraðað í samræmi við lögbundnar skyldur og stefnumörkun Ríkisútvarpsins. Grunnþjónustan verður áfram til staðar en dagskrárgæðin rýrna óhjákvæmilega“.

Frekari útlistanir á hvernig þetta verður í framkvæmd er ekki að finna í fréttatilkynningunni.

Þá verður 60 starfsmönnum sagt upp. Starfsmenn félagsins eru nú 305, þannig að hér er um 20% niðurskurð að ræða.

Morgunblaðið birtir þetta fróðlega graf um starfsmannaþróun RÚV 2005-2012:

Gögn frá Morgunblaðinu.
Gögn frá Morgunblaðinu.

Páll segir ennfremur:

„Hafa verður í huga að nú stefnir í að þjónustutekjur Ríkisútvarpsins hafi dregist saman um rúmlega 20% að raungildi á fimm ára tímabili. Okkur hefur hingað til tekist að verja dagskrána sjálfa furðu vel fyrir þessum samdrætti, – annars vegar með mikilli lækkun á öðrum rekstrarkostnaði og hins vegar með nokkurri aukningu á kostunar- og auglýsingatekjum. Nú verður ekki lengra gengið í lækkun á öðrum kostnaði og sömuleiðis tekur við lögþvinguð lækkun á kostunar- og auglýsingatekjum RÚV um næstu áramót – ofan á almennan samdrátt á þeim markaði. Það eru því ekki aðrar leiðir færar til að mæta aðgerðum stjórnvalda nú en að fækka starfsfólki og draga saman í dagskrá.“

 Sjá nánar hér: Starfsmönnum RÚV fækkar um sextíu | RÚV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR