spot_img

Sagafilm hefur starfsemi í Svíþjóð

Kjartan Þór Þórðarson verður forstjóri Sagafilm Nordic.
Kjartan Þór Þórðarson verður forstjóri Sagafilm Nordic.

Sagafilm opnar skrifstofu í Stokkhólmi frá næstu áramótum og verður Kjartan Þór Þórðarson, núverandi forstjóri, yfir hinum erlenda hluta starfseminnar sem kallast mun Sagafilm Nordic. Ragnar Agnarsson, sem hefur starfað sem stjórnarformaður Sagafilm undanfarin 7 ár, tekur við starfi Kjartans sem nýr forstjóri Sagafilm á Íslandi.

Ragnar Agnarsson verður forstjóri Sagafilm á Íslandi.
Ragnar Agnarsson verður forstjóri Sagafilm á Íslandi.

Guðný Guðjónsdóttir, sem hefur starfað sem fjármálastjóri Sagafilm undanfarin 6 ár, verður nýr framkvæmdastjóri félagsins á Íslandi. Guðný starfaði áður sem forstöðumaður á fjármálasviði Vodafone.  Kjartan Þór mun taka við stjórnarformanns hlutverkinu af Ragnari.

Guðný Guðjónsdóttir verður framkvæmdastjóri Sagafilm á Íslandi.
Guðný Guðjónsdóttir verður framkvæmdastjóri Sagafilm á Íslandi.

Mikil eftirspurn eftir hagkvæmum framleiðslulausnum

Kjartan Þór segir mikil tækifæri í bæði verkefnaþjónustu og sölu íslenskra hugverka á norrænum og evrópskum markaði. „Nú er svo komið að 60% af tekjum Sagafilm á árinu 2013 eru erlendar tekjur” segir hann. „Verkefnin hafa verið af ýmsum toga en leikið sjónvarpsefni og kvikmyndir hafa átt stóran sess í þessari auknu veltu erlendis frá”.

Kjartan segir mikla eftirspurn eftir vönduðum en hagkvæmum lausnum við framleiðslu á sjónvarpsefni og kvikmyndum í heiminum og að Ísland hafi ákveðna sérstöðu í þeim efnum.

„Erlendir samstarfsaðilar eru áhugasamir um þær lausnir sem hafa sprottið úr íslenskum aðstæðum. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn framleiða hágæða efni á afar hagstæðu verði í samanburði við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Sagafilm hefur þegar framleitt norska útgáfu af Næturvaktinni í Noregi og er að þróa bæði finnska og sænska útgáfu, einnig eru tvö önnur leikin Sagafilm verkefni í þróun fyrir sænskan markað.  Við viljum fylgja þessum áhuga eftir og taka skrefið af krafti og vera nær þessum markaði.”

Síðustu misseri hafa verið annasöm hjá Sagafilm, bæði í þjónustu erlendra verkefna og í framleiðslu sjónvarpsefnis fyrir íslenskan markað.  Samhliða því hefur Sagafilm verið að kynna starfsemi sína erlendis og möguleg tækifæri sem felast í að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsefni á Íslandi fyrir aðra markaði sem og að endurgera íslenska sjónvarpsþætti á borð við Næturvaktina og Pressu fyrir erlendan markað.

Sagafilm hefur framleitt margar helstu framhaldsseríur undanfarinna ára og má þar nefna Vaktaseríurnar, Pressu, Rétt, Ástríði, Stelpurnar og Svarta engla, auk heimildamyndarinnar Andlits norðursins sem og kvikmyndirnar Bjarnfreðarson og Kalda slóð.  Auk þess er Sagafilm með mikla reynslu af framleiðslu alþjóðlegra formatþátta á borð við X-Factor, Idol-Stjörnuleit, MasterChef, MoneyDrop (Vertu viss) og Biggest Loser. Þá hefur Sagafilm einnig þróað íslensk formöt eins og Hannað fyrir Ísland, Dans Dans Dans og Hæfileikakeppni Íslands.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR