spot_img

Viðhorf | Skapandi meðhöndlun sannleikans hjá forsætisráðherra

Hvítt verður svart og svart verður hvítt í meðförum forsætisráðherra.
Hvítt verður svart og svart verður hvítt í meðförum forsætisráðherra.

Forsætisráðherra sýnir töluverð tilþrif í skapandi meðhöndlun sannleikans þegar hann lætur útúr sér að verið sé að auka framlög til kvikmyndagerðar með nýjum fjárlögum, raunar svo mjög að hvítt verður svart og svart verður hvítt.

Í fjárlagafrumvarpinu er nefnilega gerð tillaga um að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði 735,3 milljónir króna 2014. Árið 2013 voru framlögin 1.147,2 milljónir króna. Lækkunin nemur vel á fimmta hundrað milljónum króna. Hvernig það getur talist „aukning“ er vandséð.

Ráðherrann talar einnig um að fjárfestingaáætlun fyrrverandi stjórnar hafi verið „kosningaplagg“, en skýrir ekki frekar hvað hann á við. Í skýringum með fjárlagafrumvarpi er einnig talað um að „áætlanir um tekjur sem fjármagna áttu [fjárfestinga]áætlunina, sérstakt veiðigjald á auðlindaarð sjávarútvegsins, söluhagnaður og eignasala, hafa ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni.”

Ekki hefur orðið vart við rökstuðning þessarar fullyrðingar með neinum sannfærandi hætti. Í því sambandi má nefna að framlög til kvikmyndagerðar voru sérstaklega merkt arði og eignasölu í fyrrnefndri fjárfestingaáætlun, en t.d. ekki tekjum af veiðileyfagjaldi. Minnt skal á að sama dag og fjárlög voru lögð fram auglýsti Landsbankinn sérstaklega að hann hefði greitt ríkinu 10 milljarða króna arð – sem er næstum sama upphæð og merkt er ferðaþjónustu, skapandi greinum (þ.á.m. kvikmyndagerð), græna hagkerfinu og fasteignum í títtnefndri fjárfestingaáætlun.

Sigmundur Davíð vísar til þess að verið sé að hækka framlög til Kvikmyndamiðstöðvar samkvæmt samkomulagi frá 2011. Upphæðin nemur rúmum 70 milljónum króna. Á sama tíma er verið að afnema ráðgert framlag úr fjárfestingaáætlun sem nemur 488 milljónum króna – án rökstuðnings.

Það má kannski kalla þetta „skapandi meðhöndlun sannleikans.“ En það væri ekki erfitt að kveða mun fastar að orði.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR