Viðhorf | Mótsagnir ráðherra

Kvikmyndabransinn hjó sérstaklega eftir orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Kastljósi RÚV þann 11. september s.l. þegar hann sagði, aðspurður um hugsanlegan niðurskurð í menningarmálum:

„Það er engin sérstök áhersla á það. Þvert á móti, við höfum í rauninni sé í þessum efnahagsþrengingum sem landið hefur verið að fara í gegnum undanfarin ár, hversu mikilvæg menningin og listirnar eru. Og við höfum líka séð að þessar greinar skapa áþreifanleg, raunveruleg efnahagsleg verðmæti. Ekki bara þau gæði sem er erfitt að mæla í fjármagni, þessar greinar skapa verulegan ávinning fyrir samfélagið efnahagslega.“

Sigmundur Davíð áréttaði orð sín síðar í sama viðtali:

„En ég get þó sagt, hvað varðar þessar spurningar þínar almennt, að það stendur ekkert slíkt til, ekki að fara að taka Kvikmyndasjóð út sérstaklega eða skera miklu meira niður hjá Ríkisútvarpinu en annars staðar. Það er alls ekki á dagskrá.“

Engu að síður er gert ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga að framlög til kvikmyndagerðar verði skorin niður um 39% – eða 445 milljónir króna. Í því felst að um 200 ársverk tapast, hið opinbera verður af tekjum sem nemur um 640 milljónum króna og erlend fjárfesting í kvikmyndaframleiðslu lækkar um 480 milljónir króna.

Hvernig getur þetta talist skynsamlegt?

Sigmundur Davíð getur auðvitað bent á að ekki sé verið að skera niður framlög til Kvikmyndasjóðs miðað við samkomulagið frá 2011 (sem er reyndar langt frá því að bæta kvikmyndagreininni þann skaða sem varð af niðurskurðinum 2009-2010). Hann getur sagt að aðeins er verið að fella burt fjárfestingaáætlun fyrri stjórnar sem núverandi stjórn segir hafa verið illa ígrundaða hvað varðar forsendur.

En er það svo?

landsbankaaugl-arður-2013Auglýsingin frá Landsbankanum hér til hliðar birtist í Fréttablaðinu í gær. Það er óneitanlega athyglisvert að á sama degi og ríkisstjórnin heldur því fram í fjárlagafrumvarpinu að ekki sé „útlit fyrir að forsendur fyrir fjármögnun framlagsins geti staðist“, greiðir Landsbankinn arð til ríkisins sem svarar til næstum sömu upphæðar og er á fjárfestingaáætlun fyrir árið 2013 undir lið sem er kallaður „Fjármögnun með arði og eignasölu“ og fer í ferðaþjónustu, skapandi greinar (þ.á.m. kvikmyndagerð), græna hagkerfið og fasteignir.

Hvernig kemur þetta heim og saman við ofangreind rök ríkisstjórnarinnar?

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR