SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem tillaga um mikinn niðurskurð kvikmyndasjóðs er harmaður. Stjórnin bendir á að með niðurskurðinum sé vegið að uppbyggingu kvikmyndagerðar, ríkið verði af miklum tekjum og yfir 200 ársverk tapist í greininni.
[divider scroll_text=”Yfirlýsing SÍK“]
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 sem lagt var fram á Alþingi í dag kemur fram að Kvikmyndasjóður verður skorinn niður um 42% á næsta ári frá því sem áætlað var. Í annað skiptið á fjórum árum verður kvikmyndagreinin fyrir risa höggi í niðurskurðartillögum stjórnvalda og enn og aftur er vegið að uppbyggingu á atvinnugrein sem kominn var á góðan skrið.
Þessi niðurskurður er fordæmalaus í menningarhluta fjárlaganna og nær einsdæmi í öllum fjárlögunum. Framleiðendur sem hafa á ný byggt upp greinina eftir höggið 2010 kippa nú að sér höndum og gera má ráð fyrir að reynslan frá niðurskurði í fjárlögum fyrir árið 2010 muni endurtaka sig. Þanig má áætla að tekjur ríkissjóðs lækki um 640 milljónir, yfir 200 ársverk tapist í greininni og að þjóðarbúið verði af yfir hálfum milljarði í erlendum gjaldeyri, strax á næsta ári.
SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda lýsir yfir miklum vonbrigðum með þessa ráðagerð stjórnvalda og harmar að þessi ákvörðun sé tekin, þrátt fyrir yfirlýsingu forsætisráðherra um annað í Kastljósi þann 11. september sl. Það segir sig sjálft að uppbygging á atvinnugrein sem þarf sífellt að búa við slík skilyrði hafa mikil áhrif á hana og ljóst að enn á ný munum við sjá að baki margs af okkar færasta fólki sem mun leita í vellaunuð störf erlendis.
Í niðurskurðinum fyrir fjórum árum, glímdi greinin við vöntun á talnaefni og haldbærum upplýsingum um hagræn áhrif hennar en unnin hefur verið bragabót á því og í dag er hægt að fullyrða með vissu um áhrifin af þessum niðurskurði. Þau helstu eru rakin í smáatriðum hér í hjálögðu minnisblaði.
Auk þessara efnahagslegu áhrifa, þá er ótalið og þau menningarverðmæti sem Ísland verður af og niðurstaðan verður sú að hér verða framleidd færri innlend verk á íslensku, fyrir Íslendinga.
SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda skorar á Alþingi að leiðrétta þessi áform í meðförum fjárlaga á þingi. Það getur ekki verið ætlan löggjafans að minnka tekjur ríkissjóðs, að fækka störfum og að stuðla að landflótta sérfræðinga við samþykki á fjárlögum.
Reykjavík, 1. október 2013
Stjórn SÍK
[message_box title=”
Áhrif af lækkun framlaga í Kvikmyndasjóð
” color=”red”]
Þetta minnisblað gerir grein fyrir beinum fjárhagslegum áhrifum af því að draga úr opinberum framlögum í kvikmyndasjóð og tekur eingöngu til framleiðsluhluta greinarinnar. Minnisblaðið er byggt á niðurstöðum skýrslunnar „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk (Ólafur Arnarson og fl. 2010) og niðurstöðum úr bók Ágústar Einarssonar, „Hagræn áhrif kvikmyndalistar“ (2011, Bifröst útgáfa)
Lækkun kvikmyndasjóðs um 445 m króna:
1. Um 212 ársverk hverfa úr greininni
Framlag kvikmyndasjóðs nemur 12,86% af framleiðslukostnaði 112 kvikmyndaverka skv. skýrslunni „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“. 445 m króna framlag þýðir því brúttó framleiðsluveltu upp á 3.630 m króna. Að frádregnu hlutfalli erlendra meðframleiðenda þýðir þetta innanlands veltu upp á 1.819 m króna. Hlutfall launakostnaðar í greininni er 72,75% skv. sömu könnun sem svara til launakostnaðar upp á 1.400 m króna. Að frádregnum 30% launatengdum kostnaði og meðallaun upp á 550.000 kr á mánuði, samsvarar þessi upphæð 212 ársverkum.
2. Hið opinbera verður af tekjum sem nemur um 614 m króna
Af launakostnaði upp á 1.740 m króna nemur tryggingagjald (7,69%) 134 m kr., tekjuskattur 382 m kr. (21,9% meðaltals skatthlutfall) eða samtals 515 m króna. Af veltu að frádregnum launakostnaði, samtals 652 m króna, er virðisaukaskattur varlega metin um 98 m króna (15% hlutfall). Samtals nema þessir þrír liðir 614 m króna. Ekki er tekið tillit til áhrifa á aðra hluti kvikmyndagreinarinnar eins og dreifingu, sýningar, leigur og önnur starfsemi, frekar en óbeinni og afleiddri starfsemi. Sé tekið tillit til hlutfalla þeirra skv. „Hagræn áhrif í kvikmyndagerð“ hækkar tala virðisaukaskatts umtalsvert, auk áhrifa á tekjuskatta og tryggingagjald til hækkunar.
3. Erlendar tekjur til kvikmyndaframleiðslu lækka um 480 m króna
Byggt á hlutfalli erlendra sjóða og fjárfestinga í fjármögnun á íslenskum kvikmyndaverkum skv. skýrslunni „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“. Erlendir sjóðir og fjárfesting námu um 14% af fjármögnun 112 íslenskra kvikmyndaverka á árunum 2006-2009. Þess utan var fjármögnun erlendra meðframleiðenda um 31% af framleiðslukostnaði verkanna, eða um 1.070 m króna.
4. Tekjutap myndast strax
Skýrslan „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“ sýnir skýrt fram á að opinbert framlag til framleiðslu kvikmyndaverka á Íslandi eru greidd til baka á framleiðslutíma verkanna og því mun niðurskurður á kvikmyndasjóði koma strax fram í greininni.
5. Framlag Kvikmyndasjóðs er aðgöngumiði að erlendu fjármagni fyrir framleiðslu á efni á íslensku.
Ekki er hægt að sækja í erlenda kvikmyndsjóði og fá erlenda meðframleiðendur án þess að fyrir hendi sé framlag frá kvikmyndasjóði og er það því „aðgöngumiði“ að því fjármagni. Samkvæmt skýrslunni „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“ nema þessir tveir erlendu liðir um 45% af framleiðslukostnaði 112 íslenskra kvikmyndaverka á árunum 2006-2009.
6. Kvikmyndagreinin fimmfaldar opinbert fjármagn í meðförum framleiðenda og getur gert enn betur.
Skv. „Hagræn áhrif kvikmyndalistar“, Ágúst Einarsson, Bifröst 2011, þá getur kvikmyndagreinin unnið úr allt að 10 milljarða árlegu framlagi með áðurnefndri niðurstöðu.
7. Margfeldisáhrif starfa í kvikmyndagreininni er 2,94
Skv. skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, 2006
[/message_box]