32 innlendar þáttaraðir á vetrardagskrá RÚV

Alls eru 32 þáttaraðir á vetrardagskrá RÚV en auk þess sýnir RÚV íslenskar heimildamyndir, stuttmyndir og bíómyndir í nokkru magni og gerir auk þess fjölda stakra þátta um hin ýmsustu efni, má þar t.d. nefna sjálft Áramótaskaupið. Þá er ótalið margskyns íþróttaefni og einnig má nefna að RÚV sýnir mikið af talsettu barnaefni (líkt og hinar stöðvarnar).

Hér eru þáttaraðirnar á vetrardagskrá RÚV 2013-14:

MANNLÍFS- OG VIÐTALSÞÆTTIR:

kastljos_9Kastljós: Helstu fréttir samfélagsins á hverjum tíma eru í forgrunni þessa þáttar í formi fréttaskýringa og beinskeyttra viðtala. Ritstjóri Kastljóss er Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri er Þóra Arnórsdóttir og aðrir umsjónarmenn eru Helgi Seljan, Jóhannes Kr. Kristjánsson og Margrét Erla Maack. Dagskrárgerð er í höndum Egils Eðvarðssonar, Benedikts Ketilssonar og Sigurður Rúnars Jakobssonar, framkvæmdastjóri þáttarins er Salóme Þorkelsdóttir.

landinnLandinn: Frétta- og þjóðlífsþáttur þar sem fréttamenn RÚV um land allt færa áhorfendum fréttir og fróðleik. Ritstjóri er Gísli Einarsson og dagskrárgerð er í höndum Karls Sigtryggssonar.

360-gaurar-2013360 gráður: Íþrótta- og mannlífsþáttur þar sem fjallað er um íþróttaiðkun landsmanna og rifjuð upp gömul atvik úr íþróttasögunni. Umsjónarmenn: Einar Örn Jónsson og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson. Dagskrárgerð: Óskar Þór Nikulásson og Vilhjálmur Siggeirsson.

sunnudagsmorgunn logoSunnudagsmorgunn: Gísli Marteinn Baldursson tekur á móti gestum sem fara yfir fréttir á vikumótum og ræða stjórnmálin, menninguna og samfélagið. Útsendingu stjórnar Jón Egill Bergþórsson.

vidtalidViðtalið: Bogi Ágústsson, Egill Helgason, Eva María Jónsdóttir og Þóra Arnórsdóttir ræða við þekkt fólk sem hefur markað spor á sínu sviði, stjórnmálamenn, listamenn og sérfræðinga.

ísfólkið ragnhildur steinunnÍsþjóðin: Þáttaröð um ungt og áhugavert fólk. Umsjónarmaður er Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir. Stjórn upptöku og myndvinnsla er í höndum Eiríks I. Böðvarssonar. Sýningum er lokið í bili.

Brautryðjendur: Þóra Arnórsdóttir ræðir við konur sem rutt hafa brautina, verið frumkvöðlar á ákveðnum sviðum atvinnulífs eða annars konar starfs á borð við íþróttir, listir og fræði. Þættirnir verða sýndir í vor.

MENNINGAR- OG LÍFSSTÍLSÞÆTTIR:

djoflaeyjan-nyttDjöflaeyjan: Leiklist, kvikmyndalist og sjónlistir í víðum skilningi eiga sitt fasta heimili á Djöflaeyjunni. Ritstjóri er Brynja Þorgeirsdóttir. Umsjónarmenn eru Vera Sölvadóttir, Guðmundur Oddur Magnússon, Sigríður Pétursdóttir og Kolbrún Vaka Helgadóttir. Dagskrárgerð: Karl R. Lilliendahl og Kolbrún Vaka Helgadóttir.

kiljanKiljan: Egill Helgason fjallar um bækur úr ýmsum áttum og af öllum  toga. Ragnheiður Thorsteinsson sér um dagskrárgerð.

orðbragðOrðbragð: Skemmtiþáttur þar sem Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir snúa upp á íslenska tungumálið, teygja það, toga og umfaðma, knúsa og blása í það lífi. Fjallað verður um hvernig ný orð verða til, um dónaleg orð, af hverju sérfræðingar tala oft svo óskiljanlega, hvernig íslenska verður orðin eftir 100 ár, hvernig best er að lesa í líkamstungumál, íslenskar mállýskur, veggjakrot og mannanöfn svo fátt eitt sé nefnt, auk þess sem leitað verður að málfarslögreglunni. Samhverfur og mál-tilraunastofa Braga verða á sínum stað í hverjum þætti, óvæntar uppákomur og almennt fjör. Umsjón: Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir. Dagskrárgerð: Brynja Þorgeirsdóttir og Konráð Pálmason. Þáttaröðin hefst í nóvember.

villt-og-græntVillt og grænt: Úlfar Finnbjörnsson er einn þekktasti villibráðarkokkur landsins, og í nýrri þáttaröð sýnir hann áhorfendum hvernig best er að elda og nýta villibráð á sem fjölbreyttastan og bestan máta. Dagskrárgerð: Dúi Landmark.

Ferðastiklur (vinnuheiti): Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson ferðast um landið, staldra við á ýmsum áhugaverðum stöðum og segja frá náttúru, sögu, menningu og áhugaverðu fólki í átta þáttum sem sýndir verða í vor. Þór Freysson stjórnar dagskrárgerð fyrir Stórveldið.

Egill í Kanada (vinnuheiti): Egill Helgason fór á slóðir Vestur-Íslendinga í Kanada og gerði þáttaröð sem nú er í vinnslu, en verður á dagskrá í mars. Ragnheiður Thorsteinsson stjórnar dagskrárgerð.

andri á flandri í færeyjumAndri á flandri í Færeyjum: Andri Freyr Viðarsson heldur áfram að flandra um allar grundir og að þessu sinni heimsækir hann vini vora Færeyinga. Þættirnir, sem eru sex talsins, verða sýndir eftir áramót. Haraldur Sigurjónsson sér um dagskrárgerð fyrir Stórveldið.

Fagur fiskur: Þættirnir kynna fyrir áhorfendum alla þá ótrúlegu möguleika í því frábæra hráefni sem finnst í hafinu í kringum landið. Byggt á hugmynd Gunnþórunnar Einarsdóttur matvælafræðings og Brynhildar Pálsdóttur vöruhönnuðar. Umsjón hafa þau Sveinn Kjartansson matreiðslumaður og Áslaug Snorradóttir ljósmyndari. Stjórnandi er Hrafnhildur Gunnarsdóttir fyrir Sagafilm. Þáttaröðin hefur lokið göngu sinni á vetrardagskrá.

hljomskalinnHljómskálinn:  Þáttur um íslenska tónlist í umsjón Sigtryggs Baldurssonar. Honum til halds og trausts er greiningardeild hljómskálans, sem skipuð er þeim Guðmundi Kristni Jónssyni og Braga Valdimar Skúlasyni. Farið er um víðan völl íslensku tónlistarsenunnar, reynt að ráða í meikdrauma, rýna í suðupotta og þræða fornar söguslóðir. Auk þess eru þekktir tónlistarmenn fengnir til að vinna nýtt efni fyrir þættina. 4 þættir voru sýndir í september s.l. Haraldur Sigurjónsson stjórnaði dagskrárgerð fyrir Stjörnusambandsstöðina.

uturdurÚtúrdúr: Hver er munurinn á góðu dægurlagi og góðri sónötu? Kunnu Neanderdalsmenn að syngja? Á Ísland einhvern annan tónlistararf en gamla karla að kveða rímur? Hver er leyndardómurinn á bak við hljóm Stradivarius-fiðlunnar?  Þessar spurningar eru á meðal þeirra sem reynt verður að svara í Útúrdúr, nýjum íslenskum sjónvarpsþáttum um tónlist. Umsjónarmenn eru Halla Oddný Magnúsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson ásamt Viðari Víkingssyni. Helgi Jóhannesson stjórnaði upptökum. Fyrstu sex þættirnar voru sýndir snemma hausts, aðrir sex hafa verið teknir upp og verða sýndir síðar.

BARNAEFNI:

stundin-okkar-bannerStundin okkar: Gói er fenginn til að taka við gömlu og rykföllnu leikhúsi. Þar er verk að vinna því að langt er síðan starfsemi hefur verið í leikhúsinu. Gói kynnist Gloríu sem er sviðsmaður, sýningarstjóri, smiður, búningahönnuður, leikmyndahönnuður, saumamanneskja, ræstitæknir, tölvutæknir, sér um miðasölu og annað sem fellur til. Gloría á sér draum um að verða leikkona. Hver veit nema draumur hennar rætist. Eru sannir leikhústöfrar til? Með samvinnu og hjálp góðra vina Góa lifnar leikhúsið við smátt og smátt. Handrit: Bragi Þór Hinriksson og Guðjón Davíð Karlsson. Bragi leikstýrir og Guðjón Davíð fer með aðalhlutverkið.

skolahreysti-thattabannerSkólahreysti: Í þáttunum fylgjumst við með keppni 130 grunnskóla af öllu landinu. Keppt er í hinum ýmsu hreysti greinum sem reyna á bæði líkamlegan og andlegan styrk keppenda. Umsjónarmenn eru Edda Sif Pálsdóttir og Haukur Harðarson. Dagskrárgerð: Óskar Þór Nikulásson. Þættirnir verða á dagskrá eftir áramót.

ævar vísindamaðurÆvar vísindamaður:  Fræðandi skemmtiþáttur fyrir börn á skólaaldri og uppúr, stútfullur af æsispennandi tilraunum og æsispennandi fróðleik. Ævar hefur sprengt utan af sér Stundina okkar og er nú kominn í nýja og enn stærri tilraunastofu í sínum eigin þætti, í samstarfi við Sprengjugengið úr HÍ, Marel og Vísindavefinn. Íslenskt hugvit verður haft að leiðarljósi, alvöru- og ímyndaðir vísindamenn birtast ljóslifandi fyrir augum áhorfenda og gerðar verða lífshættulegar tilraunir – svona þegar Ævar þorir það. Þátturinn fer í loftið í janúar 2014. Kynnir og höfundur er Ævar Þór Benediktsson, aðrir leikarar eru Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Hilmir Jensson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Snorri Engilbertsson, Sigurjóna Rós Benediktsdóttir o.fl. Leikstjóri er Eggert Gunnarsson.

Vasaljós: Þáttur fyrir krakka um krakka sem krakkar fá að stjórna. Vasaljósið lýsir inni allskonar kima krakkaheimsins og bregður ljósi á skemmtilega krakka og allt það áhugaverða sem þau eru að fást við. Umsjónarmenn Vasaljóss eru Marteinn, Hekla Gná, Katla, Mira, Salka, Alex Leó og Júlíana Dögg en dagskrárgerð er í höndum Brynhildar Björnsdóttur, Kristínar Evu Þórhallsdóttur og Eggerts Gunnarssonar. Þættir hefja göngu sína í desember.

SKEMMTIÞÆTTIR:

vertu-vissVertu viss: Spurningaþáttur þar sem þátttakendur fá afhentar tíu milljónir í raunverulegum seðlum í upphafi þáttar og þurfa aðeins að svara átta spurningum rétt til að eignast milljónirnar. Keppendur eru alltaf tveir og þurfa að þekkjast mjög vel, hvort sem það eru mæðgur, feðgar, bestu vinir eða elskhugar. Umsjónarmaður er Þórhallur Gunnarsson. Dagskrárgerð: Helgi Jóhannesson fyrir Saga film.

gunnar á völlumGunnar á völlum: Í þáttunum fara þeir Gunnar Sigurðarson og Fannar Sveinsson um víðan völl og skoða það markverðasta sem er að gerast í íslenskri knattspyrnu. Þeir félagar eru oftar en ekki mun uppteknari af því sem gerist utan vallar og sökum þess fjalla þættirnir því í raun ekkert um knattspyrnu.

hraðfréttirHraðfréttir: Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson hafa mannlífið í flimtingum í þessum vikulega snarpa grínþætti.

útsvarÚtsvar: Sjöunda árið í röð er þessi vinsæli spurningaþáttur í loftinu. Nýr spurningahöfundur og dómari í keppninni þennan vetur er Stefán Pálsson en þau Þóra Arnórsdóttir og Sigmar Guðmundsson eru sem fyrr í spyrlahlutverkinu. Helgi Jóhannesson stjórnar upptökum.

studio-aStúdíó A: Íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn flytja ný lög í myndveri RÚV. Í þáttunum stíga á svið frægir jafnt sem minna þekktir flytjendur. Fjölbreytnin er í fyrirrúmi og allt er þetta ný íslensk tónlist. Umsjónarmaður er Ólafur Páll Gunnarsson og upptöku stjórnar Helgi Jóhannesson.

Söngvakeppnin: Verður á sínum stað eftir áramót.

Alla leið: Verður sömuleiðis á sínum stað þegar líða fer á vetur.

gettubetur_logo_2012Gettu betur: Hinn sívinsæli spurningaþáttur verður á sínum stað eftir áramót með nýju fólki í öllum stöðum.

LEIKIÐ EFNI:

fólkið i blokkinniFólkið í blokkinni: Gamanþáttaröð byggð á sögu eftir Ólaf Hauk Símonarson. Vigga er 11 ára stelpa sem býr með fjölskyldu sinni í átta hæða blokk á höfuðborgarsvæðinu. Við kynnumst fjölskyldu hennar sem er ósköp venjuleg íslensk fjölskylda en þegar nánar er athugað er hún skemmtilega klikkuð eins og allir aðrir íbúar í blokkinni. Leikstjóri og handritshöfundur er Kristófer Dignus Pétursson, framleiðandi er Pegasus. Meðal leikenda eru Andrea Marín Andrésdóttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Gunnar Hansson, Kristín Pétursdóttir og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Átta þættir voru gerðir, sýningum er að ljúka.

hulli hópurHulli: Teiknuð útgáfa af höfundi þáttanna, Hugleiki Dagssyni. Hann býr í Reykjavík og er listamaður á niðurleið. Dónalegar myndasögur hans, sem hafa notið töluverðrar velgengni, eru hættar að seljast. Skrautlegur vinahópur hjálpar Hulla í hamingjuleitinni en ekkert virðist ganga upp hjá honum. Handritsgerð var í höndum Hugleiks, Þormóðs Dagsonar, Lóu Hjálmtýsdóttur, Árna Vilhjálmssonar og Önnu Svövu Knútsdóttur. Gerðir voru átta þættir, framleiðandi er RVK Studios. Sýningum er lokið.

Hraunið: Rannsóknarlögreglumaðurinn Helgi Marvin (Björn Hlynur Haraldsson) er sendur á Snæfellsnes til að aðstoða lögregluna á svæðinu við rannsókn máls sem virðist í upphafi sjálfsmorð en reynist síðan flóknara. Helgi stendur frammi fyrir ýmsum dularfullum ráðgátum og mikilli hættu þegar hann reynir að fá botn í málið. Hann þarf einnig að horfast í augu við sín eigin myrku skúmaskot og takast á við áður óþekktar hliðar síns eigin huga. Þættirnir eru óbeint framhald þáttanna Hamarinn sem sýndir voru á RÚV 2011. Sama teymi gerir þættina; Reynir Lyngdal leikstýrir, Björn Hlynur Haraldsson fer með aðalhlutverk, Sveinbjörn I. Baldvinsson skrifar handrit og Snorri Þórisson og Lilja Ósk Þórisdóttir framleiða fyrir Pegasus. Víðir Sigurðsson sér um myndatöku. Tökur fóru meðal annars fram á Snæfellsnesi. Fjórir þættir, sýningar hefjast um páska.

Þá verða einnig sýndir uppistandsþættir með Ara Eldjárn í vetur en ekki er ákveðið hvenær tveggja hluta sjónvarpsmynd Lars Emils Árnasonar, Ó blessuð vertu sumarsól, verður sýnd.

(Leiðrétting: Grein þessi var upphaflega birt 17. nóv. 2013 kl. 15:41 en var síðar leiðrétt 18. nóv. 2013 kl. 01:07 með viðbótum um Hljómskálann og Andra á flandri í Færeyjum).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR