„Zjúkov marskálkur“ í Bæjarbíói

Zjúkóv marskálkur fer mikinn.
Zjúkóv marskálkur fer mikinn.

Kvikmyndasafnið heldur áfram að bjóða uppá rússneska dagskrá í Bæjarbíói. Í kvöld kl. 20 og á laugardag kl.16 verður sýnd heimildamyndin Zjúkov marskálkur. Þessi leikna heimildamynd segir frá Georgíj Zjúkov, frægasta hershöfðingja Sovétríkjanna í heimsstyrjöldinni síðari. Hann átti hlut að sigri sovéska hersins í orustunni um Moskvu og rak flótta Þjóðverja vestur á bóginn allt til Berlínar.

Kvikmyndin lýsir atburðarásinni frá átökum sem urðu við ána Khalhun-gol í Asíu 1939 að uppgjöf Þjóðverja í Berlín í maí 1945 og sigurhátíð Rauða hersins í Moskvu nokkrum vikum síðar, þegar Zjúkov marskálkur reið hvítum hesti við liðskönnun á Rauða torginu.

Geta má að myndin er gerð fyrir Glasnost Gorbachevs og er því lituð sterkum áróðri heimsveldisins fyrrverandi. Mikhail Ulyanov leikur hershöfðingjann, en hann þótti sláandi líkur honum í útliti.

Myndin er 83 mínútur að lengd. Á undan verður sýnd stutt mynd sem kallast Vopn þeirra – kvikmyndatökuvélin. Þetta er heimildarmynd frá 1980 helguð þeim kvikmyndatöku- og fréttamönnum sem féllu við störf sín í umsátri Þjóðverja um Leníngrad 1941-44 (900 daga umsátrið).

Kvikmyndasafn Íslands | Zjúkov Marskálkur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR