91 stuttmynd valin á Northern Wave hátíðina

 

Verðlaunagripir síðasta árs á Northern Wave hátíðinni.
Verðlaunagripir síðasta árs á Northern Wave hátíðinni.

The Northern Wave International Film Festival verður haldin í sjöttta sinn helgina 15. – 17. nóvember 2013 í Grundarfirði á norðanverðu Snæfellsnesi. Í kringum 340 myndir bárust hátiðinni í ár frá um 60 löndum sem er met fyrir hátíðina og helmingi fleiri umsóknir en bárust í fyrra. 91 mynd var valin til sýningar en lista yfir valdar stuttmyndir má nálgast hér. Tilnefningar til íslensku tónlistarmyndbandaverðlaunanna verða tilkynnt á næstu vikum.

Nafnið á hátíðinni og hugmyndafræði er byggð á frönsku nýbylgjunni eða Nouvelle Vague en hátíðin leggur áherslu á listræn gildi kvikmyndarinnar öðru fremur.

Mikilvægt markmið hátíðarinnar er að koma á fót tengslaneti meðal reyndra kvikmyndagerðarmanna og þeirra sem eru að feta sín fyrstu skref í greininni, erlendum sem innlendum. Auk þess býður hátíðin listamönnum úr öðrum geirum t.a.m. tónlistargeiranum að taka þátt með tónleikahaldi. Hátíðin er einnig mikilvægur viðbót við framboð menningarviðburða á landsbyggðinni.

Hátíðin leggur áherslu á að sýna fjölbreytileika stuttmyndaformsins með því að sýna allt frá heimildarmyndum til teiknimynda. Tónlistarfólk sem á myndband á hátíðinni er hvatt til að fylgja því eftir með tónleikahaldi.

Northern Wave hátíðin býður upp á fjölbreytt úrval viðburða yfir þessa vetrarhelgi í Grundarfirði. Bíósýningar, tónleikar, fyrirlestrar og síðast en ekki síst hin vinsæla fiskisúpukeppni Grundfirðinga. Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðarkona hefur umsjón með hátíðinni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR