spot_img

Dögg Mósesdóttir um AFTUR HEIM?: Mjög persónuleg mynd

Heimildamynd Daggar Mósesdóttur, Aftur heim?, fer í almennar sýningar í Bíó Paradís í dag. Hún ræddi verkið við Höllu Harðardóttur í Samfélaginu á Rás 1.

Segir á vef RÚV:

„Ég bara skalf með myndavélina,“ segir Dögg Mósesdóttir leikstjóri sem varð vitni að ýmsu við gerð heimildarmyndar sinnar Aftur heim sem fjallar um heimafæðingar. Dögg fylgdist með pörum sem kusu þá leið frá meðgöngu til fæðingar í heimahúsi, en sjálf hefur hún reynslu af slíkri fæðingu og er málefnið henni afar hugleikið.

Fyrir ekki svo löngu áttu allar íslenskar konur börnin sín í heimahúsi. Í dag er ekki nema brot kvenna sem kýs að gera svo. Heimildarmyndin Aftur heim eftir Dögg Mósesdóttur, sem fjallar um heimafæðingar, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg í sumar en fer í almennar sýningar í Bíó Paradís í kvöld. Dögg segir að fæðing myndarinnar hafi verið rosalega löng. „Nú mun ég nota þessa myndlíkingu mjög mikið á meðan ég tala um þessa mynd,“ bætir hún glettin við. „En ég er spennt.“

Myndin er persónuleg fyrir Dögg sem segir gott að hafa fengið tækifæri til að sýna hana fyrst á Skjaldborg í nánum hópi, áður en hún fór í almennar sýningar. „Þetta er mjög persónuleg mynd og maður getur tekið því persónulega hvernig fólk tekur myndinni.“ Aftur heim sé þó ekki endanlegur vitnisburður um hana sjálfa, þó hún fari mjög nálægt kvikmyndagerðarkonunni. „Það var hollt ferli fyrir mig að hugsa að þessi mynd er bara ein hlið af mér en ekki vísindi fyrir minn persónuleika.“

Myndinni var vel tekið á hátíðinni og það var léttir að senda hana frá sér. „Svo bara treysti ég því að hún geri sitt þegar barnið er fætt og komið í heiminn. Það er ekkert sem ég get gert lengur.“

Átti dóttur sína heima og var fegin að hafa vitað af möguleikanum
Áhugi Daggar á heimafæðingu hófst þegar hún gekk sjálf með dóttur sína, sem hún verður níu ára í apríl, og kynntist möguleikanum og valdi hann. „Eftir að ég átti dóttur mína fannst mér fáránlegt að konur vissu ekki af þessum valmöguleika og langaði bara að benda þeim á að þetta væri hægt.“

Eitt af því sem hún komst að við gerð myndarinnar er hins vegar hve persónubundnar meðgöngur og fæðingar eru og eitt henti því ekki öllum. „Það hentar ekki endilega öllum að fæða heima. Það er ekki endilega öruggast og ekkert endilega best þó það hafi verið mjög jákvæð upplifun fyrir mig.“

Skiptir máli að kona upplifi öryggi í fæðingu
Nálgun á viðfangsefnið er fremur í formi persónulegs rannsóknarferðalags en rannsóknarblaðamennsku. Ástæðan fyrir því að Dögg fór þá leið í myndinni er enda ekki síst hve persónubundin reynslan er. „Það er kannski það sem ég lærði líka, það er ekki hægt að setja konur í eitt box og það er mjög persónulegt hvernig við upplifum fæðingar og öryggi líka. Það skiptir máli að kona upplifi öryggi í fæðingu upp á bara hormónaflæði í líkamanum. Það er ekki eitthvað hippaleg sýn á fæðingar heldur er þetta bara líffræðilegt,“ segir hún.

Fólk nálægt spítala oft hræddara við fæðingar
Reynslan af fæðingum sé líka mismunandi eftir því hvar á landinu konur fæða. Í myndinni fer Dögg meðal annars til Hafnar í Hornafirði þar sem ferlið er merkilega frábrugðið því í Reykjavík og kynntist þar öflugum ljósmæðrum sem þurfi að huga að ýmsu, enda sér hvergi á landinu eins langt í næsta spítala og þar.

Þar er við lýði ákveðið flokkunarkerfi þar sem barnshafandi konur eru flokkaðar eftir því hvort meðgangan sé heilbrigð og hvort ljósmæður sjái til dæmis möguleikann á að mæðurnar geti fætt heima. Dögg hitti meðal annars eina konu þar sem þurfti að fara á spítala og beið í tvo klukkutíma eftir flugi í stað þess að bruna í nokkrar mínútur eins og ef hún hefði verið nær. „Hún var bara alveg róleg og fékk lyf til að hægja á hríðunum og beið bara. Fór svo í sinn keisara í Reykjavík.“

Í borginni finnist jafnvel mörgum spítalinn of langt í burtu þó hann sé jafnvel ekki í nema fimm mínútna akstursfjarlægð. „En það tekur alveg hálftíma að undirbúa skurðstofu svo þótt við værum komin á réttum tíma þurfum við að bíða eftir skurðstofunni,“ segir hún. Hér þróist ólíkt hugarfar út frá frábrugðnum aðstæðum. „Því nær sem fólk er spítalanum, því hræddara virðist það vera við fæðingar. Sem er mjög áhugavert.“

Viðtalið allt má lesa með því að smella á heimildarhlekkinn hér að neðan.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR