Helgi Snær Sigurðsson hjá Morgunblaðinu fjallar um Svona er Sanlitun eftir Róbert Douglas og gefur henni 3 stjörnur. Umsögn hans fer hér:
[divider scroll_text=””]
Nýjasta kvikmynd Róberts Douglas, Svona er Sanlitun, sú fyrsta sem kemur frá honum í átta ár og opnunarmynd RIFF, er gamanmynd sem flokkast til „mockumentary“-mynda, gervi- eða grínheimildarmynda.
Í myndinni er fylgst með Englendingnum Gary sem fer til Kína í því skyni að hasla sér völl í viðskiptalífinu og vinna aftur ástir eiginkonu sinnar fyrrverandi og sonar þeirra.
Gary er algjör sauður og heldur að hann geti slegið í gegn með norðurkóresku hármeðali sem hann er með í farteskinu. Honum tekst hvorki að heilla kínverska athafnamenn né eiginkonuna fyrrverandi og kynnist kokhraustum Ástrala, Frank, sem búið hefur lengi í Peking og þykist vita allt um Kína, menningu og þjóð en undir yfirborðinu leynist þó óöruggur og einmana lítill karl.
Frank hefur Gary að féþúfu og gerist lærifaðir hans. Gary tekur að sér að kenna ensku í tungumálaskóla og þar verður ung kona, MoMo, heltekin af honum, fer að elta hann á röndum, skipuleggja brúðkaup og barneignir þó svo Gary vilji ekkert með hana hafa. Dag einn hleypur óvænt á snærið hjá Gary og peningarnir taka að streyma inn.
Sagan af vitleysingnum Gary í útlendingahverfinu Sanlitun er skemmtileg og persónurnar skrautlegar, ekki síst Ástralinn sem allt þykist vita en veit í raun lítið sem ekkert og eyðir öllum stundum í bjórþamb og iðjuleysi. Í stíl heimildarmynda er myndin byggð upp á stuttum samtölum við aðalpersónurnar um gang mála og þeim fylgt eftir í misheppnuðum tilraunum þeirra til aðlagast samfélaginu. Handritshöfundar þekkja vel til umfjöllunarefnisins, hafa sjálfir dvalið lengi í Sanlitun og Vesturlandabúar í leit að skjótfengnum gróða í Kína fá væna sneið. Áhorfandinn getur ekki annað en kennt í brjósti um vesalinginn Gary, mann sem virðist hafa brennt allar brýr að baki sér en heldur þó ótrauður áfram leit sinni að hamingjunni.
Gary minnir að vissu leyti á aðalpersónu fyrstu myndar Róberts, tækifærissinnann Tóta í Íslenska draumnum sem var með allt niðrum sig, bæði í einkalífi og viðskiptum. Kínverjarnir sem koma við sögu eru ekki síður skrautlegir, þótt fæstir komist í hálfkvisti við þá Gary og Frank.
Leikarar myndarinnar eru nær allir áhugamenn og standa sig ágætlega sem slíkir, sérstaklega Carlos Ottery í hlutverki Garys. Í einstaka atriðum eru leikararnir þó ekki nógu sannfærandi. Myndin er gróf á að líta enda var tækjakostur í lágmarki, tekið á litla vél og oft handhelt þar sem Róbert hafði ekki leyfi til að mynda utandyra, eins og fram hefur komið í viðtölum við hann. Þessi hrái stíll á vel við grínheimildamyndarformið, þótt vissulega hefði verið gaman að sjá fleiri svipmyndir af mannlífinu í hverfinu. Í raun fær maður ekki mikla tilfinningu fyrir því að sagan fari fram í þessu tiltekna hverfi og veikir það myndina, í ljósi titilsins. Maður vill fá að vita meira um hverfið og fólkið sem þar býr, ekki síst innfædda.
Frásögnin er í heildina flæðandi en þó misjafnlega fyndin, myndin rokkar á milli þess að vera í besta falli brosleg yfir í að vera sprenghlægileg.