Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.
Dagana 16. - 19. apríl verða fjórtán norrænar kvikmyndir sýndar á Nordic Film Fest í Rómarborg. Tvær íslenskar myndir verða sýndar, Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson og Vonarstræti eftir Baldvin Z. Finnska gamanmyndin Nöldurseggurinn, sem er íslensk minnihlutaframleiðsla, verður einnig sýnd ásamt sænsku kvikmyndinni Gentlemen, sem skartar Sverri Guðnasyni í viðamiklu aukahlutverki.
Fjórtán íslenskar kvikmyndir hlutu alls 34 alþjóðleg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim 2014 (33 verðlaun 2013). Hæst bera Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs til handa Hross í oss og Nordisk Panorama verðlaunin til heimildamyndarinnar Salóme. Báðar myndirnar eru verðlaunum hlaðnar, Salóme hlaut alls þrenn verðlaun á árinu en Hross í oss níu (auk þess hlaut Salóme áhorfendaverðlaun á Skjaldborgarhátíðinni og Hrossin fengu sex Eddur).
Hross í oss, sem farið hefur sigurgöngu um heimsbyggðina á árinu, er á lista breska kvikmyndaritsins Empire yfir 50 bestu myndir ársins. Myndin hlaut einróma lof í Bretlandi þegar hún var sýnd þar á fyrri hluta ársins.