Illugi Gunnarsson: „Það má ekki gleyma því að listin er fyrst og fremst listarinnar sjálfrar vegna“

Í ítarlegu viðtali ræðir Ásgrímur Sverrisson við Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra um margvísleg málefni kvikmynda- og sjónvarpsgeirans.

Hér birtist fyrri hluti viðtalsins þar sem rætt er um sóknaráætlun fyrir skapandi greinar, uppbyggingu kvikmyndasjóðs eftir niðurskurð, kvikmyndamenntun og niðurhalsmál.

Illugi nefnir meðal annars að verið sé að skoða hugsanlegar skattaívilnanir til fyrirtækja sem vilja styrkja menningarstarfsemi í tengslum við sóknaráætlunina. Þá segir hann tíma kominn til að hefja viðræður við bransann um frekari uppbyggingu kvikmyndasjóðs í áföngum til lengri tíma. Einnig segist hann sjá sterk rök fyrir tilkomu háskólanáms í kvikmyndagerð.

Í seinni hluta viðtalsins sem lesa má hér er rætt um málefni Ríkisútvarpsins.


Sóknaráætlun skapandi greina: skattaívilnanir til skoðunar

– Í hverju felast áherslur sóknaráætlunar fyrir skapandi greinar sem forsætisráðherra boðaði að væri væntanleg í áramótaávarpi sínu?

Við í ráðuneytinu höfum verið að skoða hvernig við getum styrkt stoðir hinna svokölluðu skapandi greina. Auðvitað fellur mjög margt undir þetta víða hugtak en ýmsir þættir eru sameiginlegir. Þar má nefna fjármagn frá ríkinu, rekstrar- og skattaumhverfi greinanna og síðan skipulag þeirra, sem um margt er reyndar ágætt og hefur færst til betri vegar á undanförnum árum.

Auðvitað væri æskilegt að við hefðum úr meiri peningum að spila en staða ríkissjóðs setur okkur mörk. Ég vonast þó til þess að við getum snúið vörn í sókn á þessu ári og að á kjörtímabilinu verði meira svigrúm varðandi útgjöld ríkissjóðs til skapandi greina. Varðandi rekstrar- og skattaumhverfið höfum við til dæmis verið að skoða í samvinnu við fjármálaráðuneytið hvernig við getum hvatt fyrirtæki enn frekar en nú er til að styðja betur við skapandi greinar.

– Ertu þá að tala um einhverskonar skattaívilnanir?

Meðal annars. Mér finnst nauðsynlegt að það sé ákveðið jafnvægi milli þess fjármagns sem kemur frá hinu opinbera og er stýrt í gegnum sjóði og ráðuneytið annarsvegar og hinsvegar fjármagns frá einkaaðilum sem lýtur meiri dreifstýringu. Við hrun fjármálakerfisins hvarf auðvitað stór hluti þeirra fjármuna sem höfðu runnið í listir og menningu, en ég held að það sé mjög mikilvægt að fyrirtækin sjái sér hag í því að styðja þetta svið.

Annað þessu tengt er samspil menningarinnar við aðra þætti efnahagslífsins. Listir og menning geta auðvitað verið frábær landkynning og fyrirtækin geta að vissu marki kynnt vörur sínar og þjónustu erlendis með því að styðjast við skapandi greinar. Við erum semsagt einnig að skoða hvar hægt sé að gera betur á því sviði. Eitt er að selja menninguna sjálfa, annað hvernig hún getur ýtt undir kynningu og sölu á okkar vörum og þjónustu.

– Hvenær verður þessi sóknaráætlun lögð fram?

Vonandi á þessu ári, ég vil ekki leggja fram nákvæma dagsetningu á þessu stigi. Ég vil líka taka fram að hér er ekki um að ræða einhverja stórkostlegu u-beygju frá því sem verið hefur, menn verða að sýna ákveðna varkárni í því að gera miklar breytingar á umhverfi menningarstarfseminnar. Aðalatriðið er að koma auga á þau tækifæri sem við höfum.

Ég vil einnig nefna eitt. Á undanförnum árum hefur mikil umræða verið um veltu og tekjur skapandi greina. Það er mjög gott að upplýsingar um umfang þeirra liggi fyrir en það má ekki gleyma því að listin er fyrst og fremst listarinnar sjálfrar vegna. Það er ekki þannig að gera eigi kröfu til að sýnt verði fram á með útreikningum að þetta borgi sig í krónum og aurum, málið er flóknara en svo. Það er mjög mikilvægt að við missum ekki sjónar á því að listin hefur meira gildi en hægt er að mæla með fjárhagslegum mælikvörðum. Þeir geta verið ágætir til síns brúks og hjálpað til í rökræðunni, en mér finnst kannski áherslurnar undanfarið hafa verið of miklar í þessa áttina.

Þjóðhagsleg hagkvæmni ekki einu rökin fyrir fjárfestingu ríkisins í kvikmyndagerð

– Hefur þú efnislegar athugasemdir við þau rök sem sýna fram á að fjárfesting ríkisins í kvikmyndagerð skilar bæði tekjum í ríkiskassann og liðkar til fyrir bæði erlendri og innlendri fjárfestingu með tilheyrandi atvinnusköpun í grein sem ungt fólk hefur mikinn áhuga á?

Nei, þetta er vissulega þjóðhagslega hagkvæmt og þetta eru góð rök. Samtímis er líka alveg klárt mál að það er þjóðhagslega hagkvæmt að fjárfesta í heilbrigði, sem eykur almennt lífsgæði fólks. Sama gildir um menntakerfið.

– Snýst ekki málið um að opinber framlög til kvikmynda draga að sér mikla fjárfestingu annarsstaðar frá, bæði erlenda og innlenda?

– Jú, en svipuð rök voru til dæmis dregin fram varðandi fjárfestingu í virkjunum. Það er alltaf matsatriði hvernig ríkið á að ýta undir fjárfestingu. Þú gætir sagt á móti að þetta sé betri tegund af fjárfestingu, en aðalatriðið er þetta: við getum verið sammála um að þetta skili árangri en menn verða líka að vera sammála um að þetta eru ekki einu rökin fyrir fjárfestingu í kvikmyndagerð. Þar koma inn fleiri þættir eins og til dæmis staða tungunnar, sjálfsmynd okkar Íslendinga, menningararfurinn og nýsköpunin sem þessi starfsemi felur í sér. Það er afar mikilvægt að halda þessum þáttum til haga.

"Ég held til dæmis að það hafi verið ekki verið rétt að hækka framlagið svona mikið eins og gert var á síðasta ári og með afmörkuðum tekjustofnum sem ljóst var að myndu verða bæði umdeildir og óljósir. Betra er að byggja upp stuðning jafnt og þétt og eftir einhverskonar langtímaplani. Við getum ábyggilega fundið sameiginlega lendingu þar, þó flóknara verði að ná sátt um hversu hröð sú uppbygging verði."
„Ég held til dæmis að það hafi verið ekki verið rétt að hækka framlagið svona mikið eins og gert var á síðasta ári og með afmörkuðum tekjustofnum sem ljóst var að myndu verða bæði umdeildir og óljósir. Betra er að byggja upp stuðning jafnt og þétt og eftir einhverskonar langtímaplani. Við getum ábyggilega fundið sameiginlega lendingu þar, þó flóknara verði að ná sátt um hversu hröð sú uppbygging verði.“

– Er ekki mikilvægt að kvikmyndagerðin búi við ákveðna samfellu hvað opinber framlög varðar í stað þessara miklu sveiflna sem verið hafa undanfarin ár?

Það er vissulega afar mikilvægt. Ég held til dæmis að það hafi verið ekki verið rétt að hækka framlagið svona mikið eins og gert var á síðasta ári og með afmörkuðum tekjustofnum sem ljóst var að myndu verða bæði umdeildir og óljósir. Betra er að byggja upp stuðning jafnt og þétt og eftir einhverskonar langtímaplani. Við getum ábyggilega fundið sameiginlega lendingu þar, þó flóknara verði að ná sátt um hversu hröð sú uppbygging verði. Þar verður að taka tillit til stöðu ríkissjóðs.

– Varðandi fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar átti fjármagn meðal annars að koma frá arði og sölu eigna. Nú greiddi Landsbankinn 10 milljarða í arð á síðasta ári sem var um það bil upphæðin sem átti að fara til fjárfestingaráætlunarinnar árlega. Auk þess hefur bankinn tilkynnt um að útgreiddur arður verði um 20 milljarðar á þessu ári. Á hvern hátt var fjárfestingaáætlunin því ekki fjármögnuð eins og núverandi ríkisstjórn heldur fram?

Við teljum ekki rétt að binda ákveðna tekjustofna við sérstaka málaflokka. Skattur er skattur sama hvort hann er kallaður útvarpsgjald, bensíngjald, tekjuskattur eða eitthvað annað. Allir skattar, tekjur eða arðgreiðslur ríkisins renna í einn sjóð, ríkissjóð, og það er síðan Alþingis að ákveða í gegnum fjárlög hvernig peningunum er best varið. Í fjárlögum fyrir árið 2014 var ákveðið að gera sérstakt og átak í heilbrigðiskerfinu sem var vissulega komið í nokkurn vanda og slíkur sveigjanleiki er mjög nauðsynlegur í ríkisrekstrinum. Það er svo fyrst og fremst afkoma ríkissjóðs árið 2013 sem sýndi okkur að fjárfestingaáætlunin var ekki fjármögnuð.

– Síðastliðið haust töluðu bæði Guðlaugur Þór Þórðarson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmenn um mikilvægi þess að hefja vinnu við frekari langtíma uppbyggingu kvikmyndasjóðs, en síðan hefur ekki mikið gerst. Ert þú tilbúinn að lýsa því yfir hér að þessi vinna sé að hefjast?

Já, þetta er ágætis tímapunktur til þess. Undirbúningur fjárlaga er hafinn og ég tel tímabært að menn setjist nú yfir þennan þátt málsins á grundvelli þeirrar yfirlýsingar sem forsætisráðherra gaf í áramótaávarpi sínu.

Sterk rök hníga að háskólanámi í kvikmyndagerð

– Í fyrra kom út skýrsla um kvikmyndamenntun þar sem staða hennar í landinu er greind og lagðar fram tillögur um úrbætur. Hvaða fyrirætlanir hafa stjórnvöld um frekari uppbyggingu kvikmyndamenntunar?

Við höfum eytt nokkrum tíma í þetta mál hér í ráðuneytinu. Málefni Kvikmyndaskólans hafa verið hér til skoðunar og nú er verið að vinna mat á stöðu skólans af utanaðkomandi aðilum, bæði hvað varðar rekstrarstöðu og getu hans til að skila því námi sem ætlast er til. Við bíðum eftir niðurstöðum þessarar úttektar og næstu skref verða ákveðin í framhaldi af þeim.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur náð miklum árangri og fer ört vaxandi þannig að það er líka umhugsunarefni að hér býðst aðeins nám í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi en ekki á háskólastigi. Við höfum því einnig verið að skoða þann möguleika.

– Nú hefur áhugi Listaháskólans á að koma á námi í kvikmyndagerð á BA eða MA stigi verið í umræðunni. Er stefnt að því að koma þessu á koppinn?

Ég held að það sé æskilegt að svo verði og hef metnað til að vinna að slíku námi. Kvikmyndagreinin hefur vaxið mjög og er ekki aðeins spennandi listgrein heldur einnig spennandi atvinnugrein. Hluti af vexti slíkrar atvinnugreinar er að háskólanám sé í boði í landinu fyrir þá sem vilja sækja slíkt nám, þó ég hvetji einnig til þess að fólk leiti út fyrir landsteinana í þeim efnum.

Annað er svo að hér yrði þá til akademía í kvikmyndagerð, þar sem væri fólk sem sinnti ekki aðeins kennslu heldur einnig rannsóknum sem myndu nýtast greininni líkt og á við um aðrar greinar.

– Hvenær sérðu fyrir þér að af þessu gæti orðið?

Ég þori ekki að nefna ártöl á þessu stigi en auðvitað kysi ég að stór skref yrðu tekin á kjörtímabilinu varðandi þessi mál. Allt kostar þetta fjármuni og við þurfum að forgangsraða, háskólakerfið býr við erfiða stöðu og við þurfum meiri fjármuni bara í núverandi rekstur. Það þarf því mjög sterk rök til að byrja á einhverju nýju, en þau rök eru að mínu mati mjög sterk hvað varðar kvikmyndanám á háskólastigi.

– Ef við gefum okkur að Kvikmyndaskólinn komi vel útúr úttektinni, hvar sérðu hann þá fyrir þér í námsskipulaginu? Gætu þessir tveir skólar verið í einhverskonar samspili?

Að því gefnu að hann standist skoðun eins og vonir standa til þá gæti vel hugsast að Kvikmyndaskólinn, eða sambærilegur skóli, yrði í einhverskonar samstarfi. Þó er rétt að hafa í huga að samstarf háskóla er yfirleitt bundið við háskólastigið. Annað er svo að nemendur þurfa að taka tillit til þess að LÍN lánar aðeins takmarkaða upphæð til skólagjalda og með því að fara í Kvikmyndaskólann yrði minna eftir þegar á seinni stig er komið.

Ég lít heldur ekki svo á að þeir sem vilji fara í háskólanám í kvikmyndalist þurfi endilega að hafa lokið einhverskonar fornámi í kvikmyndagerð, heldur ætti viðkomandi háskóli að hafa frjálsar hendur um að velja fólk inn. Væntanlega verður fjöldi nema einnig takmarkaður því þetta verður dýrt nám. Hinsvegar er ekkert sem segir að kvikmyndanám á framhaldsskólastigi og háskólastigi geti ekki spilað vel saman.

– Hvað með hugmyndir Kvikmyndaskólans um að taka upp nám á háskólastigi?

Til þess þarf skólinn að uppfylla ákveðnar kröfur um námsskrá og annað. Ef hann nær því er það sjálfstætt ákvörðunarefni, en það er auðvitað heilmikið ferli.

– Nú hefur það verið áberandi undanfarin ár að nemendur skólans hafa verið í áhöfnum kvikmyndateyma í hverskyns aðstoðar- og tæknistörfum, bæði innnlendra og erlendra verkefna. Skólinn hefur því virkað sem nokkurskonar grunnþjálfun í kvikmyndagerð og gert þessu fólki kleift að stíga sín fyrstu skref, auk þess að útvega bransanum mannskap. Eru ekki ákveðin verðmæti fólgin í þessu fyrir bransann?

Vissulega, við þurfum ekki aðeins að mennta leikstjóra heldur einnig fólk í margskonar önnur störf. Sú menntun getur bæði farið fram í skóla á borð við Kvikmyndaskólann en hún getur líka átt sér stað í fjölbrautaskólakerfinu. Þar eru þegar námsbrautir sem nýtast vel sem undirbúningur fyrir svona störf. Aðalatriðið er að aðgengi sé gott að svona námi.

En hvað Kvikmyndaskólann varðar sérstaklega þá leggjum við áherslu á að rekstrarleg staða sé trygg, því ef svo er ekki gæti ríkið þurft að grípa inní og aðstoða nemendur, en slíkt getur verið mjög kostnaðarsamt.

Eftirbátar í vörslu höfundaréttar

– Aðeins um niðurhalsmál og höfundarrétt. Nú sýnir nýleg skýrsla að niðurhal á Íslandi er gríðarlegt. Eru stjórnvöld að undirbúa einhverskonar aðgerðir til að takast á við þessi mál?

Ég hef að undanförnu fundað með hagsmunaaðilum til að glöggva mig á stöðu þessara mála og fara yfir þær leiðir sem færar eru. Eins höfum við verið að skoða hvernig tekið er á þessum málum í öðrum löndum.

Við virðumst vera nokkrir eftirbátar í að standa vörð um höfundarétt. Það hlýtur að vera meginreglan að hugverkaréttindi njóti sömu verndar og annar eignaréttur. Einhvernveginn hefur sá kúltúr þróast hér að það sé í lagi að brjóta á þessari tegund eignaréttar, sem grefur undan áframhaldandi sköpun, til dæmis gerð kvikmynda eða talsetningu þeirra.

Fyrir okkur sem erum eignaréttarsinnar og lítum á það sem grundvöll okkar stjórnmálaskoðana, þá er þetta mjög gott dæmi um hvað gerist þegar ekki er hægt að verja eignaréttinn. Þá dregur úr starfseminni og nýjir hlutir líta ekki dagsins ljós. Talsetning barnamynda er mjög gott dæmi. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert en þeir sem sinna þessu standa frammi fyrir því að um leið og myndirnar eru komnar á markað eru þær komnar í dreifingu á skráaskiptasíðum.

Í seinni hluta viðtalsins sem lesa má hér er rætt um málefni Ríkisútvarpsins.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR