Gagnrýni | The Grand Budapest Hotel

Ralph Fiennes er Gustave H. í The Grand Budapest Hotel.
Ralph Fiennes er Gustave H. í The Grand Budapest Hotel.
[column col=“1/2″][message_box title=“The Grand Budapest Hotel“ color=“gray“] [usr 4] Leikstjóri: Wes Anderson
Handrit: Wes Anderson, lauslega byggt á verkum Stefans Zweigs
Aðalhlutverk:  Ralph Fiennas, Tony Revolori, Saoirse Ronan, F. Murray Abraham, Jude Law, Edward Norton, Jason Schwartzmann, Adrien Brody, Willem Dafoe, Jeff Goldblum, Tom Wilkinson, Mathieu Amalric, Tilda Swinton, Harvey Keitel, Bill Murray, Owen Wilson og Léa Seydoux
Lengd: 100 mín.
Bandaríkin, 2014
[/message_box][/column]Í bókinni Prague: A Novel er kanadískur doktorsnemi að skrifa sögu nostalgíunnar. Hann finnur kláf nokkurn í Búda-hlíðunum í Búdapest og og fer ótal ferðir í honum upp og niður. Þetta er eldgamall kláfur – merki um gömlu Evrópu – og ástæðan fyrir því að hann fer þessa ferð aftur og aftur er einföld: í örfá augnablik er borgarmyndin fullkomin – nostalgían sem hann hafði alltaf dreymt um. Þetta er nostalgíu-fræðingur úr nýja heiminum að sjá nostalgíuna vakna til lífsins í gamla heiminum.

En þessi nostalgía, hún er einfaldlega minnið. Okkar og annarra. Lyktin af horfnum minningum. En í bland við eigin minningar blandast minningar heimsins. Það kollektíva minni má vissulega finna í sögubókum en jafnvel frekar í kvikmyndasögunni – og listasögunni allri ef því er að skipta. Það minni er í gömlum ljósmyndum, teikningum og bókum. En þetta minni er hins vegar afskaplega brigðult. Ekki bara af því það er ósjaldan stílíserað og vandlega farðað, heldur ekki síður sökum þess að minningarnar eru sjálfar aðeins endursköpun á löngu liðnum atburðum. Þannig þekkir mín kynslóð nítjándu öldina oft best með vænu dassi af tísku áttunda eða níunda áratugs tuttugustu aldarinnar – því við kynntumst henni fyrst í gegnum bíómyndir bernsku okkar. Eða jafnvel ennþá eldri myndir – með þess tíma tísku. Þetta er líka ástæðan fyrir því að það truflaði mann aðeins að heyra Jesú og lærisveinana í Síðustu freistingu Krists tala með Brooklyn-hreim – því maður var löngu orðinn þannig skilyrtur að manni fannst allar persónur Biblíunnar eiga að tala með valdsmannslegum Oxford-hreim.

Þannig er hið kollektífa minni sem við höfum öll vænan skammt af úr listneyslu æskunnar – samtíningur frá ótal tímabilum og heimshlutum, raunverulegum og ímynduðum, og oftast hálfgleymdum. Það sem við munum er oft frekar óljós fagurfræði, áferð á byggingum og fötum og skissur af karakterum sem maður man ekki nöfnin á lengur. Þetta var ein helsta ástæðan fyrir því að Vesturlandabúar flykktust til gamla austursins eftir að múrinn féll – svona fyrir utan hvað bjórinn var ódýr: þarna höfðu ótal bernskuheimar fortíðarinnar, sem menn höfðu aldrei upplifað, varðveist í formalíni gleymskunnar. Þar sem þeir blönduðust grámóskulegum arkítektúr kommúnismans sem var þá þegar orðinn að nostalgíu fréttatíma og njósnaþrillera kalda stríðsins.

Veröld sem aldrei var

Maður hefur á tilfinningunni að fáir leikstjórar geri sér betur grein fyrir þessu en Wes Anderson. Hann þykist nefnilega aldrei reyna að endurskapa veröld – hvorki veraldir nútímans né horfnar veraldir fortíðarinnar. Þess í stað ýkir hann öll nostalgísk minni í botn og býr til einhverja mið-Evrópu sem við vitum vel að var aldrei til, rétt eins og hann bjó til litríkt Indland rómantískra póstkorta í The Darjeeling Limited. Þetta virðist vera nokkuð meðvitað. Í myndinni er meðal annars greint frá því að yfirbrytinn og aðalpersónan Gustave H (Ralph Fiennas) hafi reynt að tilheyra tímabili sem var löngu liðið þegar hann fæddist. En til viðbótar við það þá er fjarlægðin við aðalpersónuna sveipuð nokkrum lögum af fortíð: myndin hefst árið 1985 þar sem rithöfundur nokkur segir okkur sögu sem hann heyrði árið 1968 – og árið 1968 sjáum við yngra sjálf þessa sama rithöfundar á niðurníddu Búdapest-hótelinu hlusta á söguna af Gustave H – sögu frá dýrðardögunum árið 1932 – en strax þá var augljóst að þessi veröld var að hverfa. Enda eru veraldir alltaf að hverfa.

Í viðtali við The New York Times staðfestir aðalleikarinn Ralph Fiennes að þetta eigi einnig við um leikstjórann sjálfan. Hann segir að það hafi verið veröld áður fyrr sem Anderson hefði getað verið hamingjusamur í og bætir svo við: „En það er ljúfsár nostalgía sem maður finnur gagnvart hlutum sem maður upplifði aldrei sjálfur, gagnvart tímum sem þú aldrei lifðir. Þessi tilfinning skiptir stundum öllu máli fyrir ímyndunarafl rithöfunda og kvikmyndagerðarmanna.“

[quote align=“right“ color=“#999999″]The Grand Budapest Hotel er sögð byggð á verkum Stefans Zweigs – þar á meðal Veröld sem var – en innblásin væri kannski nákvæmari lýsing. Hún er kannski frekar Veröld sem var hrært saman við Tinna – já, eða kannski Sval og Val – önnur aðalpersónan er meira að segja í vikapiltsbúningi mestalla myndina.[/quote]The Grand Budapest Hotel er sögð byggð á verkum Stefans Zweigs – þar á meðal Veröld sem var – en innblásin væri kannski nákvæmari lýsing. Hún er kannski frekar Veröld sem var hrært saman við Tinna – já, eða kannski Sval og Val – önnur aðalpersónan er meira að segja í vikapiltsbúningi mestalla myndina. En um leið svífur andi Veldissprota Ottókars konungs yfir, að meðtöldu uppdiktuðu ríki í Mið-Evrópu. Landið heitir Zubrowka – eins og pólska vodkað – en er staðsett við rætur Alpana. Þannig að þetta hvergiland er nokkurs konar blanda af Tékklandi, Póllandi, Austurríki og Ungverjalandi með smá dassi af Rússlandi og prússneskum innrásarher.

Eitt af því sem ég man best úr Veröld sem var (sem ég las einhvern tímann á menntaskólaárunum) var hversu mjög Zweig syrgdi hina vegabréfslausu Evrópu. Hann hafði lifað í Evrópu án vegabréfa en kvaddi þegar landamæri voru öllum lokuð sem voru ekki með réttu pappírana. Þannig er kannski skemmtilegasta tengingin við verk Zweig hvernig hinn annars dagfarsprúði Gustave H missir stjórn á skapi sínu tvisvar í myndinni – í bæði skiptin sem hann kemst í kast við ósveigjanlega landamæraverði.

Rétt eins og í öllum myndum Andersons hrífst maður af útliti myndanna – þessum ýkta hvergiheim sem aldrei hefur verið til. Ég hef heimsótt sum þessara Austur-Evrópsku hótela sem eru fyrirmynd Búdapest-hótelsins. Sum þeirra minna meira á The Shining en sum eru nokkuð lík (og eitt þeirra, Pupp-hótelið í Karlovy Vary, ku vera helsta fyrirmyndin). Ekkert var þó nærri jafn glæsilegt.

Eins hrífst maður af persónunum – sem hegða sér allt öðru vísi en persónur í nokkrum öðrum skáldskap, hvað þá eins og persónur úr lífinu sjálfu. Og þetta tvennt – einkennilega kunnuglegur framandleiki (og lúmskur húmor) bæði persónanna og veraldarinnar sem þær búa í eru það sem heldur manni föngnum yfir myndum leikstjórans. Ég held mér hafi aldrei leiðst á Wes Anderson-mynd. En það er þó innbyggður galli við þær allar. Þessar persónur eru þannig byggðar að þær eru í raun hálfgerðir spítukallar. Þú ert að horfa á þær og hlæja að þeim frekar en að finna samlíðan með þeim.

En stundum er eins og það verði einhver galdur upp úr miðri mynd. Fyrir tilstilli einhverrar skrítinnar alkemíu (eða álfamærinnar hans Gosa?) þá öðlast þessar ólíkindalegu persónur líf og sál og manni fer að þykja vænt um þær – og þegar það gerist verða áhrifin sterkari en oftast í hefðbundinni dramatík. Þetta átti við um nánast allar persónurnar í The Royal Tenenbaums og flestar í Rushmore og The Darjeeling Limited. Einmitt þess vegna eru þetta bestu myndir leikstjórans – þær eru frábær sýning, eins og allar myndir leikstjórans, en líka frábær og afskaplega mannleg drömu.

Af sömu ástæðu fannst mér Moonrise Kingdom sísta myndin hans – mér var alveg sama um þessa krakka. The Grand Budapest Hotel er einhvers staðar þarna á milli. Maður kann ósköp vel við hótelstarfsmennina tvo án þess að finna beinlínis til verulegrar samkenndar með þeim. Sú staðreynd kemur í veg fyrir að maður flokki hana endilega með meistaraverkum leikstjórans.

Á móti kemur að þetta er bæði skemmtilegasta og um leið fallegasta mynd Andersons. Ég minntist áðan á Tinna og Sval og Val – hún deilir ekki bara teiknimyndalegum stílnum með þeim heldur líka hraðri atburðarás og farsakenndu plotti. Svo getum við skemmt okkur lengi við það að deila um hvort Tinni, Kolbeinn, Svalur eða Valur hafi verið líklegastur til að verða tvíkynhneigður miðaldra bryti með smekk fyrir eldri konum.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR