Þingmaður býsnast yfir nýjum sjónvarpsþætti

Þórhallur Gunnarsson umsjónarmaður Vertu viss.
Þórhallur Gunnarsson umsjónarmaður Vertu viss.

Á Eyjunni er haft eftir Ragnheiði Ríkharðsdóttur þingmanni í umræðum á Alþingi fyrr í dag að auglýsing um nýjan sjónvarpsþátt, Vertu viss í umsjá Þórhalls Gunnarssonar, gangi fram af henni; á sama tíma og þeir sem halda um fjárveitingavaldið reyni að draga saman í ríkisútgjöldum þá auglýsi RÚV, sem fái á fjórða milljarð króna á fjárlögum, sjónvarpsþátt þar sem verðlaunafé er 10 milljónir króna.

Á Vísi er haft eftir Ragnheiði að „ekki veit ég hvaðan þetta fé á að koma en eitt veit ég að kostun er ekki leyfð í Ríkisútvarpinu. Ætli Ríkisútvarpið að taka þessar 10 milljónir af skattfé almennings til þess að veita svo einhverjum sem svarar spurningum rétt þá, virðulegi forseti, ef það er með þessum hætti þá er það með ólíkindum.“

Um hálfur mánuður er síðan fjölmiðlar fræddu almenning um einmitt þetta atriði, hvaðan féð kemur, eins og sést fljótt þegar nafn þáttarins er slegið inn í leitarvél Google.

Þannig segir Fréttatíminn frá því þann 24. október s.l. að þátturinn sé gerður í samstarfi við Íslandsspil – sem er söfnunarfélag Rauða krossins, SÁÁ og Landsbjargar – og leggur það til verðlaunafé. Í frétt Fréttatímans er einnig haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni dagskrárstjóra RÚV að um leið verði vakin athygli á söfnunarstarfinu og þeim þörfu málefnum sem það stendur fyrir.

Og dagskrárstjórinn bætir við: „Mér finnst hafa sárlega vantað slíka þætti undanfarin ár. Þátt sem sameinar alla fjölskylduna við sjónvarpstækið á laugardagskvöldi. Þannig þætti á RÚV líka að bjóða upp á.“

Samkvæmt lögum um RÚV sem samþykkt voru í vor tekur bann við kostun gildi 1. janúar næstkomandi, nema um sé að ræða „útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti eða útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá“ líkt og segir í 7. grein laga um RÚV. Óljóst er hvort takmarkanirnar taki gildi með þessum hætti þar sem menntamálaráðherra hefur sett fram hugmyndir um breytingar á fjármögnun RÚV en frekari útfærsla þeirra liggur ekki fyrir.

Þátturinn er framleiddur af Sagafilm og fer sá fyrsti í loftið 9. nóvember næstkomandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR