[Stikla] Heimildamyndin AFSAKIÐ MEÐANAÐ ÉG ÆLI sýnd í Bíó Paradís

Heimildamynd Spessa Hallbjörnssonar, Afsakið meðanað ég æli, verður í sýningum í Bíó Paradís frá 14. mars næstkomandi.

Myndinni er svo lýst:

Í mars 2019 ákvað Megas, einn þekktasti tónlistarmaður Íslendinga, að halda tónleika í Hörpu. Um tíma var tvísýnt hvort Megas gæti haldið tónleikana sökum heilsuleysis sem setti tónleikahaldið í uppnám.

Eftir tveggja vikna endurhæfingu gerir hann sér grein fyrir því að hann getur ekki sungið öll lögin á tónleikunum. Megas leitar þess vegna til sjö þekktra söngkvenna til að flytja lögin.

Tuttugu dögum fyrir tónleikana hófst æfingatímabilið. Megas, þrátt fyrir mikinn heilsubrest, mætir á allar æfingarnar, situr við hliðina á söngkonunum og leiðir þær í gegnum hvert lag fyrir sig.

Frá tökum.

Megas segist vera ágætur til heilsunnar, nema löppin vill ekki bera hann. „Ég vakna ekkert mjög hress á morgnana – mig verkjar í skrokkinn, ég er seinn á fætur – ég þarf að „sæka” mig uppí það og síðan að hakka í mig lyfin mín og þá er ég loksins ferðafær útí daginn. Það er dálítið öðruvísi en í gamla daga – þegar maður bara þoldi ekki að vera láréttur vakandi.”

Á þessum tuttugu dögum, er 40 ára æviferill Megasar rakinn með hjálp skáldsins, söngkvennanna auk annarra, sem unnu með Megasi sl. 40 árum.

Megas tjáir sig um persónuleg mál sem hann hefur ekki gert áður opinberlega, t.d. gömul hneykslismál, eiturlyfjaneyslu og samstarfið við þekkt íslenskt tónlistarfólk.

Á æfingunum syngur Megas meðal annars lög eins og „Litlir sætir strákar” og „Tvær stjörnur”. Það mun síðan ráðast af dagsforminu hversu mörg lög hann getur flutt í Hörpu. Í lok myndarinnar er Megas studdur inná svið Eldborgarsals Hörpu og syngur lagið „Tvær stjörnur” fyrir fullu húsi.

Í myndinni er listamaðurinn og skáldið í forgrunni, lifnaðarhættir Megasar hafa verið til umfjöllunar í tímans rás og er eðlilegur partur af sögunni en aðaláhersla er á íslenskumanninn, tónskáldið og grúskarann Megas.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR