spot_img

Íslenskar fréttamyndir frá miðbiki 20. aldar, vampírur og samúræjar í Bíótekinu 10. mars

Bíótekið sýnir fréttamyndir frá miðri 20. öld, Nosferatu Herzog og lokahlutann í sverða-trílógíu Kenji Misumi, Ken ki, sunnudag 10. mars í Bíó Paradís.

Dagskráin er sem hér segir:


15:00
Ísland á filmu: Í fréttum er þetta helst … (1940 – 1960) – 60 mínútur
Á þessari einstöku sýningu verður farið yfir tilraunir íslenskra kvikmyndagerðarmanna til að taka upp og sýna myndir af líðandi stundu í kvikmyndahúsum fyrir daga Sjónvarpsins. Í þá daga voru erlendar fréttamyndir sýndar á undan venjubundnum kvikmyndasýningum og draumurinn var að veita landsmönnum svipaða þjónustu með íslenskum fréttamyndum. Sýndar verða myndir af merkilegum viðburðum sem náðust á filmu og í leiðsögn um sýninguna verða skoðaðar tilraunir manna til að stofna fréttamyndaþjónustu á landinu. Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands, leiðir sýninguna og segir frá því sem fyrir augu ber.

17:00
Nosferatu Phantom der Nacht (1979) – 107 mínútur
Hryllingsmynd eftir Werner Herzog með Klaus Kinski í hlutverki Drakúla. Myndin er stíliseruð og flott endurgerð á Nosferatu eftir Friedrich Wilhelm Murnau frá árinu 1922. Drakúla flytur frá Transilvaníu til Wismar og dreifir svartadauða um Evrópu í leiðinni. Ekkert getur stöðvað hryllingin nema þá kannski kona sem ber í brjósti hreinleika hinna saklausu. Kvikmyndinni var mjög vel tekið þegar hún kom út og var hún sýnd víða um heim. Tónlist myndarinnar samdi þýska Krautrock- og tilraunasveitin Popol Vuh sem vann mikið með Herzog.

19:15
Ken ki (1965) – 83 mínútur
Þriðja kvikmynd sverða-trílógíu Kenji Misumi. Titilinn mætti þýða beint sem „sverðdjöfullinn“. Kvikmyndastíll Misumi þykir hér njóta sín afar vel sem glæsilegur, óvenjulegur og listrænn svo mjög að sumar senur mætti telja í anda nýbylgjukvikmyndanna. Í sumum senum notar hann nærmyndir sem vekja í áhorfandanum innilokunarkennd og í öðrum eru tilkomumiklar landslagsmyndir. Allt þetta skapar kröftugt sjónarspil magnað upp með brjálæðislegri litadýrð sem vinnur vel með áhrifamikilli dramatík sögunnar. Kvikmyndin segir frá sverðabardagamanni sem Raizo Ichikawa túlkar og sker sig úr hefðbundnari samúræjasögum með því að vera flókinn og óvenjulegur karakter. Hann er til að mynda flinkur garðyrkjumaður, dreyminn og mjúkur, sem gerir stigvaxandi ofbeldið í framvindu sögunnar enn áhrifameira. Nökkvi Jarl Bjarnason kennari í japönskum fræðum frá Háskóla Íslands mun vera með stutta kynningu á undan sýningunni og segja okkur sitthvað um þennan stórkostlega leikstjóra og kvikmyndahefðina sem tengist svokölluðum samúræjakvikmyndum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR