Mikael Torfason: Þú munt ekki ná neinum árangri ef þú ert bara með eitt egg í körfunni

Mikael Torfason rithöfundur og handritshöfundur hefur sest að í Kaliforníu ásamt fjölskyldu sinni, þar sem hann vinnur við handritaskrif. Hann segist ekki ætla heim aftur í viðtali við Vísi.

Í viðtalinu, sem Jakob Bjarnar Grétarsson tekur, er rætt við Mikael um ferilinn, starf og starfsaðstæður höfundarins, kvikmyndagerð, stöðuna á Íslandi og það sem Mikael er að fást við þessa dagana.

Segir meðal annars:

Þér lætur vel að vera með mörg járn í eldinum?

„Já en það tók mig tíma að fatta að þú munt ekki ná neinum árangri ef þú ert bara með eitt egg í körfunni. Þetta er erfiður bransi, þú verður sífellt að vera að bæta þig og leggja meira á þig. Ég hitti stundum fólk sem er að byrja í þessu. Og maður segir, talaðu við mig þegar þú ert búinn að skrifa átta handrit. Átta? Ég er búinn að skrifa HANDRITIÐ. En, nei, það er ekki alveg þannig sem þetta virkar.“

Verbúðin breytti miklu

Mikael lýsir því nú með mörgum orðum hversu flókið það sé að skrifa sjónvarpsþátt og halda taktinum. Þetta sé allt öðruvísi en skáldsagan sem getur verið bara tónn og stemmning.

„Stundum les maður skáldsögu sem er góð en það hvernig þú miðlar upplýsingum, hvað áhorfandinn veit og ekki og svo framvegis er svo miklu flóknara í sjónvarpshandriti. Að skrifa Falskan fugl og treysta á einhverja Mikka Torfa orku … þú þarft að hafa það allt plús og svo miklu meira þegar þú skrifar sjónvarpsþættir. Og vera þér meðvitaður um að þetta eru ekki bókmenntir.“

Og svo ertu að skrifa Verbúð II?

„Jaaaá. Við erum að vinna einhvers konar sjálfstætt framhald. Það er rétt, við erum bara að vinna það núna. Ég veit ekki alveg hvað ég get sagt um það. Þetta er svo stutt á veg komið. Þetta er ekki beint „Season 2“ heldur einhvers konar Íslandssaga sem er þó ekki svo fjarri í tíma.“

Mikael segir að Verbúðin hafi breytt öllu fyrir sig.

„Mig dreymdi alltaf um að skrifa fyrir sjónvarp og kvikmyndir, og lenti í að skrifa Brot (Valhalla Murders) í félagi við aðra og svo Verbúð með Vesturporti. Brot varð mjög vinsælt á Netflix. Svo gerðist það að Verbúð kom og vann öll verðlaun hugsanleg í Evrópu. Þá fékk ég, sem er erfitt að komast í, umboðsmenn. Ég er með þýskan umboðsmann og svo annan í London hjá Curtis Brown. Og svo annan hinum megin Atlantsála sem er UTA. Þar spiluðu þessi verðlaun stórt hlutverk. Og í gegnum þessar umboðsskrifstofur fæ ég ótal verkefni.“

Lesa má viðtalið í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR