Þorsteinn Jónsson skrifar bók um reynslu sína af vorinu í Prag

Þorsteinn Jónsson kvikmyndaleikstjóri mun á næstunni senda frá sér bókina Vordagar í Prag, en hann stundaði nám við hinn kunna kvikmyndaskóla FAMU á árunum 1968-1972.

Bókin, sem Benedikt gefur út, er svo kynnt:

Erlendur námsmaður upplifir hið fræga Vor í Prag og horfir á hlutina með gests augum. Hann er í hringiðu ólgandi uppreisnar með skrautlegum samnemendum sínum af ýmsum þjóðernum, kynnist ástinni og sósíalismanum, sem hvort um sig vekur með honum flóknar og mótsagnakenndar tilfinningar. Innfæddir skora á hann að fylgjast með og bera vitni um atburðina. Frásögnin er í senn fróðleg og skáldleg, það er listamaður sem hér rifjar upp liðna tíma. 

Sjálfur segir Þorsteinn á Facebook síðu sinni:

22 ára með von í brjósti um betri heim lagði ég leið mína til Prag í þáverandi Tékkóslóvakíu. Þetta var í júlí 1968, Tékkar voru að rísa gegn sovéskum yfirgangi og vildu koma á manneskjulegum sósíalisma. Hreyfingin hét Vorið í Prag. Mánuði eftir komu mína var landið hernumið af Rússum.

Ég var kominn til að læra kvikmyndagerð og næstu 4 árin fylgdist ég með því hvenig Rússar moluðu hugmyndir Tékka um frelsi og lýðræði.

Benedikt bókaútgáfa hefur tryggt sér réttinn að sögunni og bókin er á leið í prentun.Þeir sem pósta til Benedikts nafn, heimilisfang og kennitölu fá hana senda heim síðsumars um leið og blekið er þornað.

Bókina er hægt að kaupa í forsölu með því að senda nafn, heimilisfang og kennitölu á benedikt@benedikt.is, en þá kostar hún 4.900 krónur (í stað 5.900). Bókin verður heimsend síðsumars eða snemma í haust.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR