spot_img

Vesen eða ævintýri

Kristján Torfi Einarsson og Rut Sigurðardóttir lögðu samband sitt og fjárhag undir þegar þau keyptu trillu og fóru á sjóinn. Rut gerði heimildamyndina Skuld um fyrstu strandveiðivertíð þeirra á samnefndri trillu. Rætt var við þau í Víðsjá.

Myndin var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni í lok maí og hlaut þar hvatningarverðlaun dómnefndar. Umfjöllun Klapptrés um hátíðina og þar á meðal um Skuld, er hér að neðan:

Segir á vef RÚV:

„Skuld er mynd um ungt par sem hættir fjárhagsstöðu sinni og sambandi þegar þau ákveða að gera út trilluna Skuld á handfæraveiðum,“ segir Rut Sigurðardóttir, leikstjóri heimildamyndarinnar. Rut og maður hennar, Kristján Torfi Einarsson, keyptu trillu og gerðu hana út frá Rifi á Snæfellsnesi. „Þetta er sagan af fyrstu strandveiðivertíð okkar á trillunni.“

Heimildamyndin Skuld hlaut hvatningarverðlaun á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði. Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé sérstaklega hlý, fyndin og falleg og opni glugga inn í heim smábátaeigenda. Rut og Kristján ræddu við Víðsjá á Rás 1 um þá ákvörðun að leggja samband sitt og fjárhag undir, feta í fótspor feðranna og gerast trillusjómenn.

Öruggara að hafa örlögin með sér í liði

Örlaganornin Skuld er norn framtíðar í norrænni goðafræði þar sem þrjár nornir spunnu mönnunum örlög. Rut og Kristjáni þótti öruggast að hafa nornirnar með sér í liði þegar þau lögðu af stað í nýtt ævintýri. „Við fórum svolítið smeyk í þetta og ákváðum að heiðra Skuld, örlaganornina. Gott að hafa hana með sér í liði,“ segir Kristján. Þau nefndu því nýkeyptan bát sinn Skuld og héldu af stað á sína fyrstu strandveiðivertíð á Snæfellsnesi.

„Kristján er frá Flateyri og upphaflega planið var að fara þangað,“ segir Rut. Þau enduðu þó á að gera út frá Rifi. „Við erum í raun að elta þorskinn. Hann byrjar þarna í maí, þá er mikið um þorsk í Breiðafirðinum.“ Þau fundu fljótt að þeim leið vel þarna og ákváðu að halda kyrru fyrir. „Við sáum enga ástæðu til að fara og erum mjög hrifin af þessum stað. Breiðafjörðurinn er uppáhaldsstaðurinn okkar,“ segir Rut.

Mont í heita pottinum yfir að vera fyrst að klára dagskammtinn

„Strandveiðar eru sem sagt veiðikerfi þar sem vertíðin er frá byrjun maí til loka september að nafninu til,“ segir Rut. „En það er ákveðnum potti úthlutað í þetta. Ákveðnum kvóta úthlutað og þegar hann klárast þá er strandveiðinni lokið.“ Stundum klárast kvótinn um mitt sumar og þá lýkur veiðitímabilinu sjálfkrafa. „Í fyrra var það bara í miðjum júlí sem potturinn kláraðist og þá voru allir settir í land.“

Strandveiðibátar mega sigla 12 daga í mánuði, frá mánudegi til fimmtudags, og landa 774 kílóum af þorski á dag. Rut og Kristján segja að strandveiðimenn í Rifi keppist um að vera fyrstir að klára dagskammtinn. „Þetta er smá vitleysa,“ segir Kristján. „Maður er farinn að vakna eitt á nóttunni til að reyna að vera fyrstur í land. Að ná skammtinum þykir ekki mjög merkilegt en að vera kominn heim fyrir hádegi, þá ertu maðurinn eða konan,“ segir hann hlæjandi. „Og getur montað þig af því í heita pottinum eftir hádegi,“ tekur Rut undir.

Brenndur á útgerð en ekki hættur

Kristján er sem fyrr segir frá Flateyri og þekkir sjóinn vel. „Ég held ég hafi verið 14 þegar ég byrjaði á sjó, einmitt á handfæraveiðum,“ segir hann. „Svo þegar ég var fullorðinn maður reyndi ég útgerð. Setti allt í það, flutti aftur til Flateyrar, en það mistókst.“

„Ég er alinn upp í þessu, brenndur en ekki hættur. Þetta er besta vinna í heimi, ég þurfti eiginlega að horfast í augu við það.“ Sjómennskunni fylgir þó heilmikið umstang. „Ég held að trilla sé samheiti yfir vesen,“ segir Kristján. „Ég hef stundum verið að berjast fyrir því að skipta út orðinu vesen fyrir ævintýri,“ segir Rut. „Það er bara spurning um hvernig þú lítur á hlutina hvort þetta sé vesen eða ævintýri eða tækifæri eða möguleikar.“

Trillukarlar hlaupa í öll störf enda yfirleitt einir um borð. „Maður verður vélstjóri fyrir rest ef maður er trillukarl, og rafvirki og plastari og bókhaldari og reglugerðarsérfræðingur.“ Þótt það sé bara einn um borð hverju sinni er algengt að tveir séu um rekstur bátsins, gjarnan feðgar eða hjón. „Það er mjög algengt að maðurinn sé að róa og konan á bak við hann,“ segir Rut.

Sérstök manngerð sem fer á handfæraveiðar

Í myndinni kynnast áhorfendur samfélagi trillukarla í Rifi samhliða sögu Rutar og Kristjáns. „Þetta er ákveðið samfélag sem skapast þarna,“ segir Rut. „Það er ekki fyrir hvern sem er að vera trillukarl. Þú ert einn á báti úti á Atlantshafi svo það þarf sérstaka týpu til að stunda þessa vinnu.“ Hún segir að trillukarlar séu jafnan innhverfar félagsverur. „Þeim líður mjög vel í þessu litla samfélagi sem skapast við höfnina en fá samt þann frið sem þeir óska eftir.“

Það voru einmitt ekki síst töfrarnir við samfélag smábátaeigenda sem Rut vildi fanga með myndinni. Þau Kristján vildu miðla því sem þeim fannst heillandi atvinnugrein og jafnvel hvetja fólk til að leggja hana fyrir sig. „Ég hef rosa mikinn áhuga á smábátum og miklar áhyggjur af stöðu þessarar greinar,“ segir Kristján. „Það er ótrúlegt að hún skuli standa svona tæpt.“

Elsta atvinnugrein á Íslandi

Meðalaldur strandveiðimanna er nokkuð hár að sögn Kristjáns og nýliðun lítil. „Mér fannst þetta klikkað. Þetta er atvinnugreinin sem gerði búsetu á Íslandi mögulega og þetta er atvinnugreinin sem gerði nútímavæðingu Íslands svona geggjaða.“ Honum er mikið í mun að kynna handfæraveiðar á aðgengilegan hátt. „Að reyna að sýna fólki hvað væri í gangi, sleppa öllum farangrinum.“

Kristján segir þróun í sjávarútvegi áhyggjuefni en skilur vel að almenningur fylgist ekki grannt með henni. „Þessi umræða um sjávarútveg og kvóta og aflaheimildir er orðin svo rosaleg og svo löng og við erum trámatíseruð og eyrun lokast um leið og við heyrum þetta nefnt.“

Vilja kynna komandi kynslóðum töfra veiðanna

Með persónulegri frásögn af kaupum sínum á smábát gátu Rut og Kristján fjallað um hið pólitíska og um varðveislu handfæraveiðanna. „Ein aðalástæðan fyrir því að mig langaði að gera þessa mynd er að mín kynslóð hefur ekki hugmynd um hvað við vorum að gera og það er svo sorglegt,“ segir Rut. „Þetta er elsta atvinnugrein landsins. Þess vegna vildi ég gefa innsýn í þennan heim. Til að sýna að hann er raunverulegur og þetta er ekki bara gamall karl í lopapeysu og deyjandi stétt“

„Við erum heldur ekki Bjartur í Sumarhúsum uppi á heiði að reyna að halda í einhvern lífsmáta,“ segir Kristján. „Því þetta er enn þá mjög arðbært og mikill auður í þessu,“ heldur hann áfram. „Til að mynda þorskurinn, uppáhaldið okkar, hefur ekki klikkað síðan við mættum á skerið fyrir þúsund árum. Ekki eina vertíð. Það er ansi gott.“

FRÁRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR