spot_img

Krassandi samtal milli mynda á Skjaldborg

Karna Sigurðardóttir, einn stjórnenda Skjaldborgarhátíðarinnar sem hefst í dag, ræðir við Lestina um áherslur hátíðarinnar í ár.

Segir á vef RÚV:

„Ég er spenntust fyrir samverunni, að vera saman á Patreksfirði með þessu frábæra fólki, eiga samtalið og vera saman,“ segir Karna Sigurðardóttir, ein skipuleggjenda heimildamyndahátíðarinnar Skjaldborg sem er haldin um helgina. Hún ræddi við Lestina á Rás 1.

Spyrja stórra og erfiðara spurninga

„Það sem er svo fallegt við Skjaldborg er að það er alltaf svo virkt og mikið og krassandi samtal sem á sér stað á milli mynda,“ segir Karna. „Það er mjög stór hluti af Skjaldborg að taka þetta samtal og spyrja stórra og erfiðra spurninga.“

Opnunarmynd hátíðarinnar í ár er myndin Burma Storybook eftir heiðursgesti hátíðarinnar, Corinne van Egeraat og Petr Lorn. „Þessa mynd gerðu þau 2017 og hún fjallar um rithöfund sem er í basli við einræðisstjórnina,“ segir Karna. Hjónin Corinne og Petr hafa unnið mikið með málefni mannréttinda í Bandaríkjunum og Myanmar, þar sem opnunarmyndin gerist. „Ótrúlega erfiðar aðstæður í gangi þarna og myndin fjallar um hvort penninn sé sterkara vopn en sverðið.“

Á hátíðinni verður eldri mynd þeirra hjóna einnig sýnd, Myanmar Diaries. „Þar eru þau að vinna öðruvísi, þar vinna þau með heimafólki.“ Ungt kvikmyndagerðarfólk í Myanmar myndar efni í heimalandi sínu sem hollensku hjónin setja saman. „Það er sannarlega átakanleg mynd sem opnar augu manns fyrir því sem er að gerast í þessu landi,“ segir Karna. „Og veltir líka upp spurningunni sem heimildarmyndagerðarfólk er tamt að spyrja sig: Hver segir söguna? Hver má segja söguna? Hver getur sagt söguna?“

Á hátíðinni verða myndir þeirra Corinne van Egeratt og Petr Lorn sýndar. Samhliða þeim verða pallborðsumræður í stjórn Kristjáns Loðmfjörð og áhorfendum gefst kostur á að spyrja leikstjórana út í verk sín. Karna væntir þess að umræðurnar verðir blómlegar og áhugaverðar. „Það er það sem er svo fallegt við Skjaldborg. Það er alltaf svo virkt og mikið og krassandi samtal.“

Ólíkar myndir úr öllum áttum

Fjöldi íslenskra heimildarmynda verður frumsýndur á hátíðinni, bæði styttri myndir og myndir í fullri lengd. „Myndirnar eru úr öllum áttum og það er ótrúlegt að sjá enn eitt árið, hvað það er mikill fjölbreytileiki í myndunum, í inntakinu og efnistökunum og líka aðferðunum sem fólk er að beita,“ segir Karna. Hún segir útkomuna alltaf magnaða. „Það eru einhverjir töfrar á Skjaldborg. Það er alltaf einhverju töfradufti sáldrað yfir þessa hátíð á hverju ári, ótrúlegt að fylgjast með því.“

„Það er þó nokkuð af myndum í ár sem snerta á viðkvæmum málefnum,“ segir Karna. „Ég myndi segja að þetta væri hugljúf og mjög mannleg hátíð í ár. Við förum nálægt manneskjunni og sambandi mannsins við líkamann og við lífið og dauðann og elementin líka.“

Þrjár íslenskar heimildarmyndir í fullri lengd

Þrjár íslenskar heimildarmyndir í fullri lengd verða sýndar: Heimaleikurinn eftir Smára Gunnarsson og Loga Sigursveinsson; Skuld eftir Rut Sigurðardóttur; og Soviet Barbara eftir Gauk Úlfarsson. „Heimaleikurinn er mjög skemmtileg samfélagsmynd á Snæfellsnesi um fótboltavöll og fótboltaleik en meira en nokkuð annað um samfélag og samstöðu,“ segir Karna. „Skuld fjallar um par sem hættir fjárhagi sínum og ástarsambandi og fer að gera út trillu.“

Heimildarmyndin Soviet Barbara er lokamynd Skjaldborgar í ár. Myndin fylgir Ragnari Kjartanssyni listamanni til Moskvu þar sem hann glæðir lífi í sápuóperuna Santa Barbara á nýopnuðu listasafni í hjarta borgarinnar. „Hún fjallar um þetta umfangsmikla verkefni Ragnars Kjartanssonar í Moskvu.“

Ragnar hélt til Rússlands í desember 2021, skömmu áður en Rússar hófu innrás sína í Úkraínu. Gjörningur Ragnars snerist um að sviðsetja einn þátt á dag, í 100 daga samfleytt, af sápuóperunni Santa Barbara sem naut mikilla vinsælda í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna. Áform hans leystust upp þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og heimildarmyndin veitir innsýn inn í daglegt líf í Rússlandi á þessum örlagaríku tímum.

Limbó, skrúðganga og partí

Auk fjölda bíósýninga eru ýmsir aðrir viðburðir á Patreksfirði í tengslum við Skjaldborgarhátíðina. „Á sunnudagskvöldi ganga áhorfendur fylktu liði, í skrúðgöngu, í félagsheimilið og þar er verðlaunaafhending og limbó-keppni og partí,“ segir Karna.

Kvikmyndasafn Íslands kemur að hátíðinni eins og undanfarin ár og sýnir meðal annars myndina Bóndi eftir Þorstein Jónsson sem safnið hefur verið að fara yfir. „Þorsteinn Jónsson var fyrsti heiðursgestur Skjaldborgar 2007 og það er ótrúlega ánægjulegt að fá hann á Skjaldborg,“ segir Karna sem er að vonum spennt fyrir hátíðinni sem hún hefur átt þátt í að skipuleggja. „Ég er spenntust fyrir samverunni. Að vera saman á Patreksfirði með þessu frábæra fólki, eiga samtalið og vera saman,“ segir hún. „Það er krafturinn í Skjaldborg og kjarninn fyrir mér. Það er það sem ég er spenntust fyrir.“

FRÁRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR