VOLAÐA LAND í íslensk bíóhús, hefur tekið inn yfir milljón dollara á heimsvísu

Almennar sýningar á Volaða land eftir Hlyn Pálmason hefjast í kvikmyndahúsum í dag. Myndin verður sýnd í Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Álfabakka og Bíó Paradís.

Myndin hefur verið sýnd víða um heim síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes síðasta vor. Í Frakklandi munu um 110 þúsund manns hafa séð hana og hún hefur einnig gengið vel í Hollandi og á Ítalíu. Alls hefur hún tekið rétt yfir milljón dollara í tekjur á heimsvísu.

Hátíðarforsýning á myndinni fór fram í Bíó Paradís síðastliðið miðvikudagskvöld að viðstöddu fjölmenni.

Hlynur Pálsson leikstjóri (til hægri) og Anton Máni Svansson framleiðandi við hátíðarforsýningu Volaða lands í Bíó Paradís miðvikudaginn 8. mars 2023.
Frá vinstri: Hilmar Guðjónsson, Elliot Crosset Hove, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hlynur Pálmason, Ingvar E. Sigurðsson og Anton Máni Svansson við hátíðarforsýningu Volaða lands í Bíó Paradís miðvikudaginn 8. mars 2023.

Næstu daga munu Hlynur Pálmason leikstjóri, Anton Máni Svansson framleiðandi og aðalleikarnir tveir, þeir Ingvar E. Sigurðsson og Elliott Crosset Hove, fara hringinn í kringum landið með myndina þar sem hugmyndin er að gefa áhorfendum tækifæri til að spjalla við aðstandendur að sýningu lokinni. Þessar sýningar verða sem hér segir:

Ísafjörður: Ísafjarðarbíó, 10. mars kl.20
Patreksfjörður: Skjaldborgarbíó, 11. mars kl.12
Akureyri: Sambíóin Akureyri, 11. mars kl. 20
Seyðisfjörður: Herðubíó, 12. mars kl. 20

Volaða land er dönsk/íslensk framleiðsla. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Með helstu hlutverk fara Elliott Crosset Hove, Ingvar E. Sigurðsson, Vic Carmen Sonne, Jacob Lohman, Hilmar Guðjónsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR