spot_img

Gísli Snær Erlingsson ráðinn forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands

Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra hefur skipað Gísla Snæ Erlingsson í stöðu forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hann hefur störf í apríl næstkomandi.

Staða forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar var auglýst í lok nóvember og rann umsóknarfrestur út þann 12. desember síðastliðinn. Umsækjendur um stöðuna voru fimmtán og var það mat þriggja manna hæfnisnefndar að Gísli væri hæfastur til að gegna embættinu. Að loknum ráðningarviðtölum ráðherra var það heildstætt mat að Gísli Snær stæði öðrum umsækjendum framar.

Skipunin er til fimm ára samkvæmt meginreglu um skipan forstöðumanna ríkisstofnana.

Gísli Snær er margverðlaunaður kvikmyndaleikstjóri. Hann lærði upphaflega dagskrárgerð fyrir sjónvarp hjá sænska sjónvarpinu (SVT) og starfaði hjá Ríkisútvarpinu (RÚV), áður en hann var tekinn inn í hinn virta kvikmyndaskóla La Fémis í París í Frakklandi. Frá útskrift hefur Gísli framleitt, skrifað og leikstýrt margverðlaunuðum kvikmyndum í fullri lengd, eins og Benjamín dúfu (1995) og Ikíngút (2000), sjónvarpsmyndum, sjónvarpsauglýsingum og heimildamyndum fyrir alþjóðlegar sjónvarpsstöðvar, svo sem NHK í Japan. Alls hafa kvikmyndir Gísla Snæs hlotið 22 alþjóðleg verðlaun og verið útnefndar 38 sinnum til verðlauna.

Uppúr aldamótum stofnaði Gísli framleiðslu- og dreifingarfyrirtæki í Japan sem talsetti og dreifði verðlaunakvikmyndum fyrir börn á DVD og í kvikmyndahús í Japan. Að auki framleiddi fyrirtækið myndefni fyrir sjónvarp og ýmsa miðla í Japan og Asíu.

Gísli er reyndur kvikmyndaleikstjóri og hefur leikstýrt mörgum þekktum aðilum í sjónvarpsauglýsingum, svo sem Valentino Rossi og mörgum öðrum þekktum japönskum flytjendum og listamönnum.

Gísli var skólastjóri hins virta London Film School frá 2017 til 2022. Hann var upphaflega ráðinn þangað 2016 sem sviðsstjóri náms. Skólinn er afar alþjóðlegur, með nemendur frá öllum heimshornum, sem hafa náð góðum árangri eftir útskrift og unnið mikilvæg verðlaun eins og Óskarsverðlaunin og BAFTA og vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi, eins og á kvikmyndahátíðinni í Berlín, kvikmyndahátíðinni í Cannes, Cannes Lions, og Clio verðlaununum.

Þá hefur Gísli skipulagt og stjórnað fjölda meistaraspjalla með heimsþekktum kvikmyndagerðarmönnum á borð við Mike Leigh, Walter Murch, Iain Smith, Pawel Pawlikowski, Duncan Jones, Asif Kapadia, Jeremy Thomas og Frank Spotnitz.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR