Laufey: Hlakka til að fylgjast með íslenskum kvikmyndum blómstra enn frekar

„Þetta hafa verið gefandi ár og ég þakka stjórnvöldum, sem og samstarfsfólki mínu í gegnum tíðina fyrir allt þeirra innlegg í starfsemi KMÍ,“ segir Laufey Guðjónsdóttir fráfarandi forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Í tilkynningu á vef Kvikmyndamiðstöðvar segir:

Laufey Guðjónsdóttir hefur látið af störfum sem forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Laufey tók við stöðunni fyrir 20 árum, hjá nýstofnaðri Kvikmyndamiðstöð. Hún þakkar traustið sem henni var falið til að byggja miðstöðina upp og móta stuðningsumhverfi og kynningar fyrir kvikmyndir og leikið sjónvarpsefni.

„Sköpunarkraftur, nýbreytni og framkvæmdagleði kvikmyndagerðarfólks hefur skilað ótrúlegum árangri og vexti kvikmyndagreinarinnar, bæði hvað varðar umfang og gæði og komið íslenskum sagnaarfi til áhorfenda um allar jarðir. Viðurkenningar á fremstu hátíðum og mörkuðum heims á undanförnum árum staðfesta það.

Þetta hafa verið gefandi ár og ég þakka stjórnvöldum, sem og samstarfsfólki mínu í gegnum tíðina fyrir allt þeirra innlegg í starfsemi KMÍ, og ég óska eftirmanni mínum velfarnaðar í starfi. Ég hlakka til að sinna nýjum verkefnum – eftir nokkurra mánaða frí með fjölskyldunni.

Kvikmyndagerðarfólki og öllum sem koma að stuðningi við greinina óska ég alls hins besta og þakka samstarfið á liðnum árum og hlakka til að fylgjast með íslenskum kvikmyndum blómstra enn frekar.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR