Óskar Þór Axelsson ræðir NAPÓLEONSSKJÖLIN: Sver sig í ætt bandarískra hasarmynda

Óskar Þór Axels­son ræðir við Fréttablaðið um mynd sína Napóleonsskjölin og segir hana meðal annars spennumynd með kómísku ívafi.

Á vef Fréttablaðsins segir:

Kvikmyndaleikstjórinn Óskar Þór Axelsson sló hressilega í gegn með Svartur á leik í sinni fyrstu bíómynd í fullri lengd og hefur mikið til haldið sig á glæpabrautinni. Hann hefur til dæmis leikstýrt þáttum af Ófærð og Stellu Blómkvist.

Napóleonsskjölin sver sig hins vegar frekar í ætt bandarískra hasarspennumynda þannig að þótt myndin byggi á bók eftir Arnald Indriðason, glæpasagnakonung Íslands, má segja að bæði rithöfundur og leikstjórinn séu þar í aðeins öðrum gír.

„Þetta er meira kannski hefðbundnari aksjón-þriller, ef svo má segja, og líka með smá kómísku ívafi þannig að hún verður leyfð miklu fleirum og yngri aðdáendum en fyrri myndir mínar,“ segir Óskar og hlær.

„Þegar ég gerði Svartur á leik langaði mig til að gera ákveðna týpu af glæpamynd ólíka þeim sem höfðu verið gerðar hérna áður og þegar ég gerði Ég man þig vildi ég gera einhvers konar hrylling sem hefði ekki sést hér áður og nú langaði mig að gera aksjón-mynd sem hefði ekki sést hér áður. Þetta er eitthvað svona „genre“ sem við höfum ekki beint séð hérna og þekkjum frekar frá Ameríku,“ segir Óskar um Napóleonsskjölin.

Annað tækifæri
Bók Arnaldar kom út 1999 og Óskar hafði þá strax augastað á henni en var of seinn. Örlögin höguðu því síðan þannig að fjölmörgum árum síðar var hann sóttur sérstaklega til þess að koma henni á hvíta tjaldið.

„Þetta byrjaði þannig að ég las bókina á sínum tíma í kringum aldamótin og hafði þá strax samband við útgefandann en þá var einhver kominn með kvikmyndaréttinn. Svo bara öllum þessum árum seinna þá kemur þetta aftur til mín.“

Þá höfðu þýskir framleiðendur keypt réttinn á bókinni eftir að hún kom út í Þýskalandi þar sem Arnaldur hefur notið mikilla vinsælda. Óskar minnir að Þjóðverjarnir hafi gripið bókina á lofti 2010 eða 2011 þegar rétturinn hafði losnað aftur.

„Þeir eru síðan búnir að vera að þróa þetta í mörg ár, prófa ýmislegt og lenda í einhverri blindgötu.“ Handritshöfundurinn Marteinn Þórsson kom síðan að verkinu einhvers staðar í þessu langa ferli og hreyfing komst á hlutina. „Þá var komin lausn sem fólk sætti sig við. Þá var leitað til framleiðenda á Íslandi og þannig kemur Sagafilm að myndinni og þaðan berst hún til mín.

Hvenær og hvernig?
Þannig að þegar ég kem að þessu þá er til handrit og ég kom svo auðvitað að því að endurskrifa með Marteini og við vorum svona eitthvað að breyta og bæta. Eins og gengur bara.“

Óskar segir aðlögunina hafa verið svolítið snúna og þá ekki síst með tilliti til þess hvar ætti að staðsetja myndina í tíma. „Vegna þess að það setur svo mikinn svip á bókina að hún gerist þegar herstöðin er hérna í Keflavík og þegar ég las handritið var ég eiginlega mest spenntur að sjá hvort þetta yrði í „períóðu“ og hvort þetta myndi gerast á sögutíma bókarinnar sem er 1997 eða eitthvað svoleiðis.

Það var alveg góð og gild leið sem hægt var að fara þar sem þetta er svo fyrirferðarmikið í bókinni. Það var líka hægt að uppfæra þetta en þá var spurningin hvernig? Og þegar ég kom að þessu fannst mér bara vera búið að færa þetta fram á okkar tíma á frekar áhugaverðan og trúverðugan hátt.“

Þumalputtareglan
Þótt Óskar hafi áður lagað skáldsögur eftir Stefán Mána og Yrsu Sigurðardóttur að kvikmynd segir hann það alltaf frekar erfitt að vinna með eðlismuninn á hinum ólíku listformum.

„Mín þumalputtaregla þegar ég er að gera þetta og á ekkert síður við um leikstjórnina er í raun og veru að vera trúr tóni bókarinnar og persónunum. Ég held að þetta séu tvö lykilatriði. Það eru einhvern veginn karakterarnir sem fólk man svo vel eftir,“ segir Óskar.

Hann bætir við að vitaskuld skipti sagan sjálf líka máli en það hafi komið honum á óvart hversu lítið lesendur muni í raun og veru eftir plottinu. „Ég upplifði það með Svartur á leik þegar fólk var að segja mér að þetta og hitt hefði verið alveg eins og í bókinni en var það bara alls ekki.

Ég hef mikið pælt í þessu og ég held að þetta sé að einhverju leyti viðurkenning á því að það eru persónurnar og kannski þessi tónn sem fólk man eftir. Þessi fílingur. Þetta bragð sem þú fékkst og fyrir mér er þetta risastórt mál.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR