Vinsælustu bíómyndirnar 2022, tekjur aukast um 18% milli ára

Bíóaðsókn og tekjur kvikmyndahúsanna jukust nokkuð 2022 miðað við fyrra ár, enda samkomutakmarkanir vegna Covid aðeins í gildi í byrjun árs. Aðsóknin nemur rétt rúmum 66% af aðsókn ársins 2019.

Árið 2022 var svokallað endurkomuár í kvikmyndahúsum um heim allan og Ísland var þar engin undantekning. Aðsókn í kvikmyndahús hélt áfram að aukast og gamlir kunningjar snéru aftur á hvíta tjaldið og það má með sanni segja að árið 2022 var ár framhaldsmynda.

Skósveinarnir vinsælastir

Tekjuhæsta mynd ársins í kvikmyndahúsum á Íslandi var önnur kvikmyndin um skósveinana vinsælu, Minions: The Rise of Gru betur þekkt á íslensku sem Skósveinarnir: Gru rís aftur. Kvikmyndin halaði inn tæpum 70 milljónum króna í miðasölu en yfir 50 þúsund kvikmyndahúsagestir sáu skósveina hins illa Gru snúa aftur.

Í öðru sæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir ársins var það svo Elvis Presley sem dró kvikmyndahúsagesti að en kvikmyndin um ævi stórstjörnunnar í leikstjórn Baz Luhrman, Elvis, þénaði yfir 60 milljónir króna hérlendis og voru tæplega 40 þúsund manns sem lögðu leið sína í kvikmyndahús til að sjá kónginn snúa aftur.

Í þriðja sæti listans var svo nýjasta myndin um ofurhetjuna vinsælu Batman. Kvikmyndin The Batman skartaði nýjum leðurblökumanni og nýjum leikstjóra og aðdáendur ofurhetjunnar létu sig ekki vanta í kvikmyndahús. The Batman var rétt á eftir Elvis í listanum og þénaði yfir 60 milljónir króna ásamt því að taka á móti tæplega 40 þúsund manns.

Í næstu sætum listans má svo sjá fleiri framhaldsmyndir eins og Avatar: The Way of Water, Top Gun: Maverick og Marvel hetjurnar Thor: Love & Thunder og Doctor Strange in the Multiverse of Madness.

Aðsókn á íslenskar myndir dregst nokkuð saman milli ára

Allra síðasta veiðiferðin var eina íslenska kvikmyndin sem rataði inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir ársins en 19 íslensk verk (11 bíómyndir og 8 heimildamyndir) voru sýnd í kvikmyndahúsum á árinu. Færri kvikmyndahúsagestir sáu íslensk verk í kvikmyndahúsum þetta árið samanborið við árið áður. Heildartekjur af íslenskum verkum á árinu voru tæpar 128 milljónir samanborið við rúmar 146 milljónir króna árið 2021 eða 12,8% minnkun á milli ára.

Heildaraðsókn og heildartekjur aukast frá fyrra ári

Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.279.718.817 kr., sem er 18% hækkun frá árinu á undan. 845.699 manns lögðu leið sína í kvikmyndahús á árinu sem er 10,5% aukning frá árinu 2020.

Heildaraðsókn um 66% af 2019

Samkomutakmarkanir vegna Covid hafa þrengt mjög að starfsemi kvikmyndahúsanna frá fyrri hluta árs 2020, þannig að 2019 er síðasta heila árið hingað til án slíkra takmarkana. Samkomutakmarkanir voru aðeins í gildi í upphafi ársins 2022.

Aðsókn er á réttri leið þó enn vanti töluvert uppá að ná aðsókninni 2019. Heildaraðsókn 2019 nam 1.267.298 manns, þannig að aðsóknin 2022 er rétt rúm 66% af aðsókninni 2019. Þessar tölur eru sambærilegar við tölur frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Árið 2020 var aðsóknin um 40% af aðsókn 2019. 2021 var hún um 60% af 2019.

20 vinsælustu myndirnar 2022

Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2022 má sjá hér að neðan. Þess má geta að FRÍSK raðar myndum ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn. Þetta er gert til þess að hlutfall boðsmiða eða afsláttarmiða í umferð hafi ekki áhrif á uppröðun kvikmynda.

(Byggt á fréttatilkynningu frá FRÍSK)

NAFN DREIFING TEKJUR AÐSÓKN
1.  Minions: The Rise of Gru  Myndform  69.741.784 kr.  53.213 
2.  Elvis (2022)  Samfilm  61.432.420 kr.  37.657 
3.  The Batman (2022)  Samfilm  61.152.453 kr.  38.048 
4.  Avatar: The Way of Water*  Samfilm  59.788.158 kr.  34.797 
5.  Thor: Love and Thunder  Samfilm  59.646.152 kr.  35.855 
6.  Top Gun: Maverick  Samfilm  56.717.181 kr.  35.614 
7.  Doctor Strange in the Multiverse of Madness  Samfilm  52.081.961 kr.  32.052 
8.  Allra síðasta veiðiferðin  Myndform  45.126.861 kr.  24.258 
9.  Spider-man: No Way Home (2021)  Sena  40.457.409 kr.  26.607 
10.  Sonic The Hedgehog 2  Samfilm  34.322.193 kr.  27.495 
11.  Uncharted  Sena  34.303.842 kr.  22.505 
12.  Black Panther: Wakanda Forever  Samfilm  33.440.233 kr.  20.401 
13.  Smile  Samfilm  32.063.020 kr.  18.983 
14.  Black Adam  Samfilm  31.036.607 kr.  19.011 
15.  Jurassic World: Dominion  Myndform  28.815.963 kr.  18.341 
16.  Fantastic Beasts: The Secrets of Dumbledore  Samfilm  27.868.466 kr.  18.009 
17.  DC League of Super-Pets  Samfilm  26.191.667 kr.  20.404 
18.  Bullet Train  Sena  24.342.677 kr.  14.984 
19.  Sing 2  Myndform  21.500.479 kr.  17.752 
20.  Ticket to Paradise  Myndform  20.364.653 kr.  13.278 

*Ennþá í sýningu þegar listinn er gerður upp. Heildartekjur og aðsókn liggur því ekki fyrir. | HEIMILD: FRÍSK

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR