Júlíana, Vala og VENJULEGT FÓLK: „Þessi stelpa er bara sálufélagi minn“

Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir ræddu um þáttaröð sína Venjulegt fólk í þættinum Segðu mér á Rás 1.

Á vef RÚV segir:

Leikkonurnar, handritshöfundarnir og spéfuglarnir Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir hafa verið bestu vinkonur í nokkur ár. Þær eru konurnar á bak við sketsaþættina Þær tvær og gamanþættina Venjulegt fólk sem hafa slegið rækilega í gegn, nú eru fimm seríur komnar inn í sjónvarp Símans og fleiri eru á leiðinni.

Í vikunni var frumsýndur tvöfaldur jólaþáttur Venjulegs fólks þar sem Júlíana og Vala, sem samnefndir karakterar, lenda í hinum ýmsu ævintýrum með mönnum sínum Arnari, sem leikinn er af Arnmundi Ernst, og Tomma sem Hilmar Guðjónsson leikur. Auk þess birtast hinir fjölmörgu litskrúðugu aukakarakterar sem landsmenn hafa tekið miklu ástfóstri við. Vala og Júlíana kíktu til Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 og sögðu frá vináttunni, sköpunarferlunum, draumum sínum og sigrum.

„Við urðum svona platónskt ástfangnar“

Þær kynntust í Verzlunarskólanum þar sem þær léku saman í leikriti. „Ég sá strax að það væri eitthvað við þessa stelpu,“ rifjar Júlíana upp og Vala tekur undir. „Við urðum svona platónskt ástfangnar pínulítið.“

Júlíana flutti eftir menntaskóla til London þar sem hún var í leiklist en Vala lærði sama fag í Listaháskóla Íslands. Það var svo þegar Júlíana flutti heim sem vináttan fór að blómstra fyrir alvöru og hún blómstrar enn. „Við fórum að hlaupa saman og við spjöllum einhvern veginn allan tímann. Ég fæ svona hugljómun, bara þessi stelpa er bara sálufélagi minn. Það var ógeðslega fallegt móment þegar ég áttaði mig á því að ég væri búin að finna bara bestu vinkonu mína.“

Vala segir að það sé mikill auður í því að eiga svo nána vinkonu sem hafi sama húmor og hún sjálf og sé „nákvæmlega eins klikkuð. Það er bara dásamlegt,“ segir hún.

Guð minn góður, maðurinn minn er bara Tommi

Sem fyrr segir hefur þáttunum verið afar vel tekið og seríurnar eru orðnar fimm, ásamt sérstaka jólaþættinum sem frumsýndur var í vikunni. Þegar þær eru spurðar hvað það er við Venjulegt fólk sem snerti hjartastrengi áhorfenda og valdi þessum vinsældum segir Vala að það sé kannski því þær fjalli um kunnuglegan mannlegan breyskleika sem fólk þekki hjá sjálfu sér og fólkinu í kringum sig. „Fólk kannast við þá og sér sig eða sína nánustu. Það er hægt að hlæja og vera bara: Guð minn góður, maðurinn minn er bara Tommi. Eitthvað sem hefur verið, einhver smá núningur, allt í einu geturðu hlegið að því og þið bæði. Þetta er grín og fyndið en við höfum alltaf lagt áherslu á að sagan sé raunveruleg og sönn, það séu alvöru tilfinningar undir sem jarðtengir allt ruglið.“

„Þetta eru ekki við“

Þrátt fyrir að aðalpersónurnar heiti það sama og skaparar þáttanna eru Júlíana og Vala ekki sömu manneskjur og nöfnur þeirra í þættinum. Þær eru þó byggðar á þeim sjálfum að einhverju leyti. „Við byrjum að skrifa þetta þannig að við byrjum rosalega nálægt okkur. Ég er tveggja barna móðir og á þessum tíma var ég gift en Vala var single. Við skrifum um eitthvað sem við þekkjum rosalega vel, sem gefur okkur leyfi til að fara aðeins fjær og ýkja aðstæður. Skrifa eitthvað sem er ekki satt,“ segir Júlíana. „Svo ég segi alltaf já, við byrjum að skrifa þannig að við erum Júlíana og Vala en svo er þetta komið svo langt frá okkur að nei, þetta eru ekki við.“

Ekkert skemmtilegra en að vinna með bestu vinkonu sinni

Það fyrsta sem þær skrifuðu saman voru sketsaþættirnir Þær tvær sem sýndir voru á Stöð 2. Þær áttuðu sig strax á því að þær væru ekki síðri samstarfs- en vinkonur. „Þá fundum við hvað það var ógeðslega gaman að vinna saman og eitthvað var að virka sem við vorum að gera. Ég tala oft um kemmann, eða kemistríið. Það var bara þannig að það var ekki bara gott í raunverulega heiminum heldur líka á vinnustaðnum,“ segir Júlíana. „Við fengum þetta tækifæri til að gera það og ég er bara ótrúlega þakklát og tala um að ég sé að lifa minn draum. En það er líka vegna þess að ég er að vinna með bestu vinkonu minni og það er ekkert skemmtilegra.“

Vala tekur undir og segir að það sé yfirleitt alltaf gaman hjá þeim. Hún snýr sér að Júlíu og bætir kímin við: „Annaðslagið gefst hún samt upp, gengur um í sloppnum grá í framan og segir: nei, nú er komið gott. Nú þarf ég að láta leggja mig inn einhversstaðar.“

Hafa aldrei rifist

Það hefur aldrei slest upp á vinskap þeirra af neinni alvöru, þrátt fyrir áralangan vinskap og náið samstarf. „Ég held að Vala bara rífist ekki við neinn. Ég er blóðheitari en hún sko en ég hef aldrei orðið reið eða pirruð,“ segir Júlíana. Vala segir að það hafi þó komið upp smá stirðleiki og Júlíana tekur undir. „Auðvitað, eins og í öllum samböndum. En þetta hefur aldrei verið þannig að við höfum tekið eitthvað rifrildi.“

Vala bætir því við að hún eigi sjálf alltaf erfitt með að heyra aðra rífast og sjálf hækki hún ekki róminn við fólk, sama hve ósátt hún kann að vera. Stundum kveðst hún jafnvel velta því fyrir sér hvort ástæðan sé að hún trúi því ekki að hægt sé að elska sig þegar hún reiðist.

„Þá sé ég búin að missa minn rétt á ástvinum,“ segir hún en bætir því við að almennt leggi hún sig líka fram við að vera ekki ósanngjörn og segja ekkert að óhugsuðu máli á meðan hún er enn í reiðinni. Þá sé erfitt að taka þau til baka. „Þú setur ekki tannkrem aftur í tannkremstúbuna eins og maður lærði í denn. Svona virka orð.“

Júlíana segist dást að þessum eiginleika hjá vinkonu sinni. „Mér finnst þetta svo fallegt með Völu en ég er annarsstaðar. Ég get alveg rifist sko, en ég geri það samt ekki við neinn nema kannski bara makann minn,“ segir hún. „En ég trúi svo mikið á fyrirgefninguna að ég get alveg sagt eitthvað, af því að ég er ógeðslega breysk og geri þúsund mistök. En ég get alltaf sagt: æ, fyrirgefðu. Ég var illa stemmd, ég er þannig að ég læt orðin flakka svo baka get ég sagt fyrirgefðu.“

Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Karen Björg Þorsteinsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir og Fannar Sveinsson eru hæfileikafólkið á bak við Venjulegt fólk | Mynd: Júlíana Sara Gunnarsdóttir.

„Ertu að djóka? Þau eru að ruglast“

Fyrstu seríuna skrifa Vala, Júlíana, Halldór Halldórsson, eða Dóri DNA, og Fannar Sveinsson sem leikstýrir. Í fjórðu seríu kemur svo Karen Björg Þorsteinsdóttir líka inn í teymið sem handritshöfundur. „Hún kemur inn, gefur okkur öllum mánaðafrí og hún bara ver yfir þetta og kemur með sína punkta og breytingar. Þá fann ég strax að hún væri rétta nýja aflið.“

Næst á dagskrá er að gera sjöttu seríu enda er ekkert lát á vinsældunum. Þær viðurkenna að vera stundum hissa yfir ótrúlegri velgengninni. „Já, ég bara skil ekkert,“ segir Vala. „Líka bara þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag var ég bara: ertu að djóka? Svo kom þriðja sería og ég bara: Þau eru að ruglast,“ skýtur Júlíana inn.

Hágrét að sjá bestu vinkonu sína sigra sviðið í einleik

En þær fagna viðtökunum eru afar þakklátar. „Þetta er algjörlega magnað og mikil gæfa, maður er sjálfsagt búinn að læra meira en maður áttar sig á. Þetta er algjörlega sturlað, að vera staddur í miðjunni á þessu ævintýri,“ segir Vala.

En þær hafa mörg járn í eldinum báðar og Venjulegt fólk ekki það eina sem á huga þeirra. Vala er að klára sitt áttunda ár í Borgarleikhúsinu og leikur um þessar mundir í einleiknum Allt sem er frábært sem Valur Freyr flutti áður. „Nú er ég tekin við því,“ segir hún. Borgarleikhúsið býður tíundu bekkingum að sjá verkið snemma á morgnanna og Vala segir að það sé dásamlegt að leika fyrir unglingana. „Þetta er eins og bootcamp fyrir leikara. Svo eru líka almennar sýningar, tvær á dagskrá í janúar svo endilega skellið ykkur í leikhús.“

Júlíana skellti sér sannarlega í leikhús og grét þegar hún sá bestu vinkonu sína eiga sviðið. „Ég hélt ég væri búin að jafna mig áður en ég fór að hitta Völu eftir sýninguna en um leið og ég hitti hana var ég bara uhuhu,“ rifjar hún upp. „Mér fannst þetta bara svo stórkostlegt, að sjá vinkonu mína blómstra svona mikið. Vera í einleik í Borgarleikhúsinu og gera þetta svo vel. Þetta var geggjuð sýning og ég mæli með að sem flestir fari að sjá hana.“

Alltaf gaman í vinnunni

Sjálf hefur Júlíana verið sjálfstætt starfandi síðan árið 2013 þegar hún útskrifaðist og hún hefur haft nóg að gera. „Ég er mest í sjónvarpi, hef verið að gera alls konar hluti og er búin að leikstýra auk þess sem ég hef verið í dagskrárgerð og útvarpi. Mig langar að gera sem mest og víkka mig sem mest sem listamann.“

Þegar hún útskrifaðist úr leiklistarskóla sá hún fyrir sér að verða dramaleikkona á sviði. „En svo er þetta bara andstæðan, ég er grínleikkona í sjónvarpi og það er ógeðslega gaman. Lífið bara tekur mann í áttir sem maður hafði ekki hugmynd um og það hefur verið ógeðslega mikið að gera og það er alltaf gaman í vinnunni.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR