spot_img

Elsa María og Tyrfingur ræða VILLIBRÁÐ

Elsa María Jakobsdóttir leikstjóri og Tyrfingur Tyrfingsson handritshöfundur ræddu við Lestina um mynd sína Villibráð, sem væntanleg er í bíó þann 6. janúar.

Af vef RÚV:

Á tímum snjallsímavæðingar og samfélagsmiðla kannast margir við að lifa tvöföldu lífi að hluta, öðru í raunheimum og hinu í stafrænum heimi. Sumir fela þar fyrir mökum sínum og aðstandendum ýmsa þá óra sem ekki fá útrás í skynheimum. En hvað gerist þegar leyndarmálin eru lögð á borð?

Í febrúar árið 2016 var frumsýnd á Ítalíu kolsvört gamanmynd sem nefnist Perfetti sconosciuti, eða Fullkomlega ókunnugir, eftir Paulo Genovese. Myndin fjallar um hóp vina sem kemur saman í matarboði og ákveður að spila leik. Viðstaddir leggja snjallsíma sína á borðið og símtölum og skilaboðum sem berast þetta kvöld verður deilt með samkomunni, enda hefur enginn neitt að fela, eða hvað? Myndinni var vel tekið hún hlaut fjölda verðlauna og Ítalir flykktust í kvikmyndahús.

Mest endurgerða kvikmynd heims
Eins og oft þegar myndir á öðrum tungumálum en ensku þykja vel heppnaðar var fljótt ákveðið að endurgera myndina. Reyndar var það ekki Hollywood sem stökk á hana að þessu sinni, heldur voru það grískir kvikmyndagerðarmenn. Og myndin var komin út í desember 2016, sama ár og upprunalega myndin var frumsýnd.

Bandarískt fyrirtæki tryggði sér næst réttinn og leit allt út fyrir að amerísk útgáfa af myndinni yrði gerð næst og mögulega yrðu þannig aðrar endurgerðir óþarfar. En í óktóber sama ár varð eigandi fyrirtækisins uppvís um fjölda kynferðisbrota, hver annar en Harvey Weinstein.

Framleiðslan á amerískri útgáfu frestaðist því en endurgerðunum fjölgaði þó hratt og örugglega. Árið 2017 kom út spænsk útgáfa, 2018 kom út tyrknesk endurgerð, þá frönsk og svo ungversk. Og þá fóru myndirnar að dreifast út fyrir Evrópu. Næst kom indversk útgáfa, suður-kóresk, mexíkósk og kínversk.

Í júlí 2018 var myndin skráð í heimsmetabók Guinness sem sú kvikmynd sem hefur oftast verið endurgerð. Áfram fjölgaði útgáfunum. Það var gerð pólsk, þýsk, armensk og víetnömsk útgáfa, japönsk, rúmensk, hollensk, ísraelsk, tékknesk, arabísk, norsk og örugglega fleiri. En nú styttist í íslenska útgáfu af myndinni, kvikmyndin Villibráð er væntanleg í sýningar snemma á næsta ári.

Þetta er fyrsta kvikmynd Elsu Maríu Jakobsdóttur í fullri lengd en nafn hennar er þó alls ekki óþekkt. Hún vakti mikla athygli fyrir kvikmyndina Atelier, sem var útskriftarverkefni hennar úr danska kvikmyndaskólanum. Elsa María skrifar handritið ásamt Tyrfingi Tyrfingsyni, leikskáldi. Þau sögðu Lestinni á Rás 1 frá ævintýrinu fyrr á árinu.

Þurftu ekki auka kvíðalyf til að vaða í þetta
Samstarf Elsu Maríu og Tyrfings á sér nokkurra ára sögu. Það vildi svo til að fyrirtæki Þóris Snæs Sigurjónssonar kvikmyndaframleiðanda og sambýlismanns Elsu Maríu átti endurgerðarréttinn að myndinni og hafði átt hann í nokkur ár þegar Elsa María og Tyrfingur fengu hugmynd. Og þó að Tyrfingur sé leikskáld í grunninn var hann alveg á heimavelli í þessari sögu því sviðsetningin er leikhúsleg á mörgu leyti.

„Ég er gamall leikhúshommi þannig að ég hugsaði: þetta er nú eitthvað kunnuglegt. Þarna er læknirinn og ungu elskhugarnir.“ Það megi segja að þarna gangi ítalska trúðalistin, commedia dell’arte, en það er búið að færa hana í nútímalegan símaleik. Sagan gerist á einni kvöldstund sem er rammi sem hentaði höfundum. „Við þurftum ekkert auka kvíðalyf til að vaða í þetta því þetta er smá… mér fannst vera hæg heimatökin þegar við föttuðum að þetta væri byggt á þessari gömlu ítölsku hefð.“

„Jæja krakkar, nú farið þið út að leika“
Ástæða þess að sagan hefur svo oft verið endurgerð segir Elsa að sé vegna þess að símaleikur tali vel inn í djúpstæðan ótta nútímamanneskjunnar og standi okkur því nærri á tímum snjallsímavæðingar. „Svo það er auðvelt að útfæra þetta úr frá hverju menningarsvæði fyrir sig og þetta er aldrei sama myndin,“ segir Elsa.

Hver endurgerð byggir á sama grunni en inn í söguna mæta nýir karakterar með ný vandamál að glíma við tabú sem eru ólík eftir hverju menningarsvæði. „Þú getur tekið þetta hvert sem er og eftir að við fórum af stað hættir maður dálítið að hugsa endilega um að þetta sé endurgerð. Maður hleypur bara með þetta þangað sem mann langar.“

Tyrfingur tekur undir og segir að frelsi þeirra hafi verið algert. „Við fengum ekkert handrit og það voru engar skyldur á okkur lagðar. Þórir Snær sagði bara: Jæja krakkar, nú farið þið út að leika. Sem við gerðum.“

Órar og bælingar sem felast í snjallsímum fólks
Útkoman segir hann að sé enn meiri gamanmynd en í mörgum öðrum endurgerðum. „Við sátum bara í COVID að skrifa brandara,“ segir Tyrfingur og ítrekar að þó hugmyndin sé ekki ný sé myndin einstök. „Þetta er alveg okkar mynd þó það liggi til grundvallar þessi ítalska skemmtilega hugmynd.“

Heimurinn sem flestar manneskjur geyma inni í símanum sínum er sannarlega hluti af nýjum veruleika. Höfundar unnu með hugmyndina um að setja inn í aðstæður karaktera sem fela inni í litla tækinu óra og bælingar sem ekki megi vera uppi á borðum. „Þarna eru búnar til aðstæður þar sem þú þarft ekki að elta karaktera út um alla borg og bæ til að koma þeim í einhverjar aðstæður sem segja einhverja sögu og kalla fram karakter, heldur gerist þetta allt með þessum hræðilega leik við þetta borð,“ segir Elsa. „Bara gjörðu svo vel, og það er reynt á þetta fólk til hins ítrasta.“

Borgarlífið og fantasían á internetinu
Tyrfingur bætir við að síminn sé eins og Völuspá því hann geymi vísbendingar um það sem muni fara úrskeiðis í lífi eigandans. „Við erum að einhverju leyti búin að úthýsa hvatalífinu, það er búið að oma því fyrir í þessari snyrtilegu buddu sem maður er með í vasanum en auðvitað. Þetta tvöfalda líf sem ég held að margir lifi og maður geti alveg tengt við,“ segir Tyrfingur. „Annarsvegar er þetta borgaralíf og hins vegar fantasían sem lifir á internetinu. Það er erfitt að sætta þetta tvennt svo úr verður svolítið hversdagslegur óheiðarleiki. Ég held við séum svolítið mikið að gera grín að því.“

Unaðslegt að horfa á fólk ljúga
Það sem er ekki síst sjarmerandi við leikinn í þessu tilfelli samkvæmt höfundum er gestgjafinn, sem stórleikkonan Nína Dögg Filippusdóttir leikur, samkvæmt höfundum. „Það er hún sem ýtir samkomunni út í þennan hræðilega leik,“ segir Elsa.

Gestgjafinn kallar leikinn Með allt á hreinu en auðvitað kemur í ljós að allir eru með óhreint mjög í pokahorninu. „Það sem gerir þetta að svo miklu bíói er hvað það er unaðslegt að horfa á fólk ljúga. Það er fátt skemmtilegra á skjánum, en að horfa á karaktera ljúga og vera jafnvel æðislega góð í því. Það er bara svo dásamlega mikil mennska í því.“

Mikilvægt að geta talað um séríslensk fyrirbæri eins og Bjössa bollu
Fyrir áhugasama er franska útgáfa myndarinnar aðgengileg á Netflix á Íslandi. Í þeirri útgáfu er það franska borgarastéttin sem hittist, miðaldra og ungmiðaldra fólk á framabraut. Tyrfingur segir að sami þjóðfélagshópur dúkki upp í Villibráð.

„Við leyfum okkur algjörlega að gossa ofan í það og það sem er svo hressandi við þetta,“ segir Tyrfingur. Stemningin sé afar íslensk enda standi ekki til að dreifa myndinni. Persónur heita ekki Anna og Pétur heldur Hildur og Þorsteinn því það þótti ekki þörf á að laga karaktera, stemningu eða efnistök að alþjóðlegum markaði. „Það er hægt að tala um Bjössa Bollu eða hvað maður vill og allir vita um hvað ræðir. Mér finnst það svo mikilvægt.“

Loksins fær borgarastéttin á baukinn
Það er vel þekkt stef í íslenskum kvikmyndum að fjallað sé um sveitalífið í minni plássum en hér er peningnum snúið við enda segir Tyrfingur að það hafi oft verið kvartað yfir því hvernig kvikmyndir djöflast í fólki úti á landi. „Þetta er bara Reykvíkingur tekinn fyrir og KR fáninn. Það er verið að snúa vörn í sókn má segja.“

Myndin er tekin upp í stúdíói í Reykjavík sem var svðsett sem einbýlishús sem líkist þeim sem finnast á Seltjarnarnesi. Ferlinu lýsa þau sem afar skemmtilegu. „Við höfum verið að skemmta okkur konunglega yfir þessu efni og mér fannst það þýðast og skila sér. Mér fannst auðvelt að fá fólk með í þá stemningu, þá sem komu að þessu. Það lyfti svo miklu þegar maður finnur að það eru allir um borð, allir að skilja þetta. Það gerir allt svo miklu auðveldara og skemmtilegra.“

„Hvað er ég að glenna mig?“
Sem fyrr segir er þetta fyrsta kvikmyndahandritið sem leikskáldið Tyrfingur skrifar. Hann segist að hluta vera afar hógvær þegar hann er spurður hvort það hafi ekki verið flókið að skipta um miðil. „Ég verð alltaf eins og amma Gunna og fer í bara: æ, ég veit það ekki. Hvað er ég að glenna mig?“ segir hann. En það leið hjá. „Þetta bara gekk eitthvað svo vel.“

Margt af því sem birtist í handritinu á rætur að rekja til margra ára gamallar Gróu á leiti. „Mikið af því sem rataði inn í þetta handrit var bara slúur. Við vorum að slúðra um fólk sem var í MH eitthvað bara: já, vissirðu að hún er frelsuð?“ segir Tyrfingur glettinn.

Til stendur að Villibráð lendi í kvikmyndahúsum 6. janúar 2023.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR