spot_img

Lestin um BAND: Kvikmynd í dulargervi hljómsveitar

„Mér finnst skemmtilegt að hugsa um The Post Performance Blues Band þannig að það hafi alltaf verið kvikmynd í formi hljómsveitar, hljómsveitin hafi verið í dulargervi sem nú er búið að færa hana úr, þótt það sem við blasi rugli mig samt kannski enn svolítið í rýminu, en á góðan hátt þó,“ segir Guðrún Elsa Bragadóttir gagnrýnandi Lestarinnar um Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur.

Guðrún Elsa skrifar:

Ég átti erfitt með að átta mig á eigin tilfinningum þegar ég gekk út úr bíósalnum eftir að hafa horft á Band. Ég hélt að ég vissi um það bil hvernig mynd þetta væri og hvaða samhengi hún ætti heima í áður en ljósin slokknuðu einum og hálfum tíma áður; ég hélt að þetta yrði heimildarháð, eða mockumentary, sem er flokkur sem margar minna eftirlætismynda tilheyra, eins og til dæmis Drop Dead Gorgeous frá árinu 1999 og Christopher Guest myndin Best In Show, sem kom út ári síðar, þótt samanburður við aðrar myndir Guests eins og This Is Spinal Tap (1984) og A Mighty Wind (2003) eigi kannski betur við í samhengi Bandsins hennar Álfrúnar Örnólfsdóttur.

Aðeins of fullkomin fyrir kvikmynd til að vera sönn utan hennar
Raunin er þó sú að Band fellur ekki í flokk heimildarháðs eða grínheimildarmynda, þótt hún sé mjög oft fyndin, því eins og leikstjórinn hefur rætt í viðtölum þá er þetta heimildarmynd; hún fjallar um raunverulega hljómsveit, sem kallast The Post Performance Blues Band, og ákveðin kaflaskil í sögu bandsins, sem ákveður að nú verði að hrökkva eða stökkva, að næsta árið muni skera úr um örlög The PPBB: annaðhvort muni þær loksins meika það eða hætta ströglinu.

Greinaflækjan eða viðtökuvandræðin sem ég álpaðist í þegar ég horfði á Band orsakaðist líklega fyrst og fremst af skorti á þekkingu á íslensku tónlistarsenuninni almennt; ég var handviss um að The Post Performance Blues Band hefði aldrei verið til, heldur bara verið búið til fyrir myndina. Ég vil samt halda því fram að misskilningurinn hafi verið skiljanlegur — að þetta sé misskiljanleg upplifun, svona ef fyllstu sanngirnissjónarmiða er gætt. Hljómsveitin er nefnilega aðeins of fullkomin fyrir kvikmynd til að vera sönn utan hennar, þótt ég viti auðvitað núna að hún er til, raunveruleg, sönn… (eða hvað, er ég ekki örugglega alveg viss?)

Í viðtali sem flutt var í Lestinni fyrir tveimur vikum lýsir Álfrún tilurð myndarinnar og segir hana vera meðvitað á gráu svæði; hún fjallar um veruleikann og er heimild um raunverulega hljómsveit, en getur samt ekki annað en orðið performans, enda eru hljómsveitarmeðlimir allar listakonur.

Hún lýsir því að erlendir áhorfendur hafi margir spurt hvort hljómsveitin væri í alvörunni til og sú spurning er skiljanleg, vegna þess að myndin brýtur upp hefðir heimildarmyndagreinarinnar, til dæmis eru engin viðtöl í myndinni og persónurnar horfa heldur aldrei í myndavélina. Í því samhengi bendir hún á að kannski mætti segja að myndin sé heimildarmynd sem sé að þykjast vera leikin mynd, sem er mjög góð lýsing á mynd sem mér finnst sífellt forvitnilegri eftir því sem ég hugsa meira um hana.

Þetta reddast (ekki)
The Post Performance Blues Band vill vinna með kaosið, finna sátt í óreiðunni og í því að það gangi ekki allt upp í lífinu; það að við upplifum öll höfnun og að okkur mistakist, eins og ein meðlima bandsins orðar það á einum tímapunkti í myndinni. Mér mistókst auðvitað í einhverjum skilningi að horfa á hana, að minnsta kosti þegar ég sá hana fyrst, sem var eiginlega viðeigandi. Þessi ætlun bandsins varpar þó líka skemmtilegu ljósi á sviðsetninguna sem á sér stað í myndinni. Það er orðin hálfgerð klisja að tala um að við séum auðvitað alltaf að setja okkur á svið í heimi samfélagsmiðla, en þar er fólk yfirleitt að draga athygli að því sem heppnast, að reyna að láta lífið virka áreynslulaust og áferðarfagurt. Slíka viðleitni er síður en svo að finna í Band, þar sem athygli er dregin að því sem misheppnast, því vandræðalega og fyndna við það að vera manneskja sem er að reyna að gera eitthvað frábært.

Á mörkum þess að vera hljómsveit og listgjörningur
Samhengið sem birtist í myndinni og gerir hljómsveitina í mínum huga stórkostlega er það sem bætist við þegar við kynnumst meðlimum bandsins – Álfrúnu, Sögu Sigurðardóttur, Hrefnu Lind Lárusdóttur og hálfpartinn-meðlimnum Pétri Eggertssyni, vegna þess að auðvitað verður þetta band að hafa einn sem er líka eiginlega ekki með.

The PPBB er á mörkum þess að vera hljómsveit og listgjörningur, rúmast í flokkum tónlistar og sviðslista, en passar kannski á hvorugum staðnum, að minnsta kosti ekki fyllilega. Saga neglir þetta nefnilega þegar hún sagði í áðurnefndu viðtali að bandið hafi kannski ekki meikað það sem hljómsveit en hafi kannski fengið að meika það sem kvikmynd í staðinn. Mér finnst allavega skemmtilegt að hugsa um The Post Performance Blues Band þannig: Að það hafi alltaf verið kvikmynd í formi hljómsveitar, hljómsveitin hafi verið í dulargervi sem nú er búið að færa hana úr, þótt það sem við blasi rugli mig samt kannski enn svolítið í rýminu, en á góðan hátt þó.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR