spot_img

VOLAÐA LAND verðlaunuð í San Sebastian

Volaða land eftir Hlyn Pálmason vann Zabaltegi-Tabakalera verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Sebastian á Spáni sem lauk um helgina.

Kvikmyndahátíðin, sem fagnar 70 ára afmæli í ár, er meðal virtustu hátíða í heimi og ein fárra svokallaðra A-hátíða. Hlynur sat í aðaldómnefnd hátíðarinnar, ásamt því að sýna tvær nýjustu myndir sínar, stuttmyndina Hreiður og Volaða land, í opnum keppnisflokki.

Hlynur Pálmason í San Sebastian september 2002 | Mynd: Pablo Gomez.

Volaða land var heimsfrumsýnd við góðar undirtektir í Un Certain Regard flokki kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í maí. Síðan þá hefur hún verið seld til yfir 40 landa og verið valin til sýninga á fjölda mikilsvirtra kvikmyndahátíða líkt og Karlovy Vary í Tékklandi, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Toronto, Telluride-hátíðina í Colorado og BFI-hátíðina í London.

Myndin er framlag Danmerkur til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og er nú í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, sem veitt verða í Reykjavík í desember.

Volaða land fjallar um ungan danskan prest sem ferðast til Íslands undir lok 19. aldar með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Elliott Crosset Hove fer með aðalhlutverkið og Ingvar Sigurðsson fer með hlutverk sérviturs leiðsögumanns, sem leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimanna. Með önnur helstu hlutverk fara þau Vic Carmen Sonne, Hilmar Guðjónsson, Ída Mekkín Hlynsdóttir og Jacob Hauberg Lohmann.

Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sá um klippingu. Frosti Friðriksson var leikmyndahönnuður, Alex Zhang Hungtai samdi tónlistina, og Björn Viktorsson sá um hljóðhönnun ásamt Kristian Eidnes Andersen. Hlynur leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni.

Volaða land er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Join Motion Pictures og hinu danska Snowglobe. Framleiðendur eru Anton Máni Svansson, Katrin Pors, Eva Jakobsen, og Mikkel Jersin, í samvinnu við sænska og franska meðframleiðendur.

Til stendur að frumsýna myndina í kvikmyndahúsum á Íslandi 13. janúar 2023.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR