Sex íslenskar myndir keppa á Nordisk Panorama

Sex íslenskar myndir keppa um verðlaun á stutt- og heimildamyndahátíðinni Nordisk Panorama sem fer fram í 33. skipti dagana 22.-27. september í Malmö í Svíþjóð.

Nordisk Panorama er helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn. Alls eru sextíu og fjórar myndir sýndar í keppnisflokkum af þeim 433 myndum sem sóttust eftir þátttöku.

Veitt eru verðlaun fyrir bestu heimildamyndina, bestu stuttmyndina og björtustu vonina (New Nordic Voice), auk verðlauna sem veitt eru í flokki mynda sem ætlaðar eru börnum og áhorfendaverðlauna.

Dagskrá hátíðarinnar í heild verður kynnt 1. september.

Besta heimildamyndin

Myndirnar Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur og King of the Butterflies eftir Ólaf de Fleur keppa í flokki heimildamynda. Alls eru 15 norrænar heimildamyndir sem keppa um titilinn og er verðlaunaféð 11.000€.

Band er meiksaga hljómsveitar sem á líklega ekki eftir að meika það og er í raun ekki hljómsveit.

King of the Butterflies er heimildamynd um Darryll Francis, mann sem sat í fangelsi ranglega sakaður um glæp sem hann átti að hafa framið sem táningur í Los Angeles. Í prísundinni uppgötvaði hann mátt skapandi skrifa og lærði að takast á við fangelsisvistina með húmor að vopni.

Besta stuttmyndin

Stuttmyndirnar Hreiður eftir Hlyn Pálmason og Óvissuferð eftir Kolfinnu Nikulásdóttur keppa í flokki stuttmyndina. Nítján myndir eru í flokkinum. Verðlaunaféð er 5.000€ auk þess sem sigurmyndin verður gjaldgeng í tilnefningu stuttmyndahluta Óskarsverðlaunahátíðarinnar.

Hreiður er saga af systkinum sem byggja saman trjákofa. Við fylgjumst með lífi þeirra og ferli í heilt ár í gegnum hamingju og þjáningu, vetur og sumar, ljós og myrkur.

Óvissuferð: Ragnar, sem bindur fyrir augun á Hildi á þrítugsafmælisdaginn og tekur hana í óvissuferð. Hildur er óörugg en lætur sig hafa glaðninginn, fyrir kærastann. Ragnar fyllist samviskubiti og vanlíðan þeirra beggja eykst smám saman. Rifrildi á hverasvæði, sem minnir á helvíti, færir Hildi nýja sýn á sambandið.

Bjartasta vonin (New Nordic Voice)

Stuttmyndin Hex eftir Katrínu Helgu Andrésdóttur var valin til keppni um björtustu vonina, þar sem 10 myndir taka þátt. Verðlaunaféð er 5.000€.

Framúrstefnuleg og absúrd kvikmynd, gegnsýrð af hryllingi. Sagan er sögð frá sjónarhorni barns sem horfir upp á heimili sitt fyllast af uppstríluðum nornum í gegnum linsu DV myndavélar. Hún er hrædd en móðirin fylgist passív með hlutunum fara úr böndunum.

Young Nordic Award

Þá taka stuttmyndirnar Hreiður eftir Hlyn Pálmason og Á yfirborðinu eftir Fanny Sissoko þátt í Young Nordics hluta hátíðarinnar, þar sem yngstu áhorfendurnir sjá um að velja bestu myndina. Verðlaunaféð er 1.500€.

Á yfirborðinu

Ada, ung kona af erlendum uppruna, fer að synda í íslenskum sjó og hugleiðir það að ala upp barn í framandi landi. Þegar hún fer í ískalt vatnið endurupplifir hún áfall meðgöngunar og fæðingarþunglyndi sitt. Brátt venst hún vatninu. Að vera í náttúrunni og horfast í augu við óttan sinn hjálpar henni.

Forum

Þrjú íslensk verkefni í vinnslu taka þátt í Forum-hluta Nordisk Panorama. Það eru heimildamyndirnar Skuld eftir Rut Sigurðardóttur, Storm Alerts eftir Berg Bernburg og Brynhildur eftir Körnu Sigurðardóttur, sem tekur þátt undir formerkinu Wildcard Iceland.

Nordisk Forum er vettvangur fyrir heimildamyndagerðarfólk sem vill komast í samband við fjölda norrænna og alþjóðlegra aðila frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndastofnunum og ýmsum sjóðum með það fyrir augum að verða heimildamyndum sínum úti um fjármagn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR