Systur í listinni

Ása Helga Hjörleifsdóttir kvikmyndaleikstjóri fékk að velja með sér fyrirmynd í spjall við Tengivagninn á Rás 1. Fyrir valinu varð Elísabet Ronaldsdóttir klippari sem Ása hefur litið upp til og lært heilmikið af. Þær ræða lífið og listina, kvikmyndagerð og að vera kona í bransanum og þeirra samstarf.

Á vef RÚV segir:

Systur í listinni
„Þetta var bara svona no brainer, þú komst strax upp í huga minn,“ segir Ása við Elísabetu. Þær kynntust þegar Ása var að klippa stuttmyndina Þú og ég eftir sjálfa sig. Elísabet kom sem ráðgjafi inn í ferlið eitt kvöldið. „Það voru engir peningar en ég bauð þér á Ban Thai að launum. Við náðum strax svo vel saman,“ segir Ása.

Þegar Ása var hálfnuð með að klippa kvikmyndina Svanurinn leitaði hún aftur til Elísabetar. Hún hafði áður unnið með þýskum klippara sem var á leið í annað verkefni og gat ekki klárað myndina. „Það ferli, tveir mánuðir, þá upplifði ég eins og við værum einhvers konar systur í listinni. Það var svo gefandi og skemmtilegt og lærdómsríkt ferli.“

Elísabet samsinnir því og heldur mikið upp á þessa minningu. „Það var svo gaman að vinna,“ segir hún. „Mjög gefandi og skemmtilegt og kemur alltaf til að lifa með mér.“

Skáldsagan lifandi brunnur visku
Væntanleg kvikmynd Ásu, Svar við bréfi Helgu, er aðlögun á skáldsögu Bergsveins Birgissonar og segir Ása það vera svolítið táknrænt. „Því ég kem inn í kvikmyndagerð úr bókmenntunum. Ég lærði fyrst bókmenntafræði og skáldsagan er fyrsta ástin mín,“ segir hún.

Það góða við að aðlaga skáldsögur að kvikmyndaforminu segir Ása vera að þá sé eins og maður hafi vin sér við hlið. „Ef maður lendir í vandræðum er alltaf hægt að fara aftur í söguna. Alltaf hægt að lesa aftur og aftur og kannski er eitthvað sem þú misstir af.“ Skáldsagan sé eins konar lifandi brunnur því það er alltaf hægt að finna nýjar merkingar og svör við hvern lestur. „Mér finnst þetta mjög gefandi.“

Ása segir að það sé líka gott að gera sitt eigið, upprunalegt, handrit en þá þurfi að leita í annan brunn. „Í lífi sínu eða reynslu sinni, eiginlegri eða ímyndaðri. Svörin eru alltaf einhvers staðar hvort sem þau eru í bókinni sem þú ert að aðlaga eða einhvers staðar inni í sálinni þinni eða fólksins í lífi þínu.“

Mikilvægt að finna einhvern sem er að gera sömu mynd og þú
Leikstjórar og klipparar vinna mjög náið og segir Ása mikilvægt að finna einhvern sem skilur efnið. Hún rifjar upp þegar hún var að klippa Svaninn með þýska klipparanum þá var ein sena sem hann ætlaði ekki að hafa með. „Það var þegar bóndakonan sem Katla Margrét lék var nýbúin að fara með dóttur sína í fóstureyðingu,“ segir Ása. Til þess að sýna hvernig persónan væri að glíma við þær erfiðu tilfinningar fór hún að þrífa glugganna mjög ákaft. „Þetta er sena sem fyrri klipparinn, með fullri virðingu fyrir honum, skildi ekki alveg og hún var ekki með í hans klippi. Ég varð að biðja hann að setja hana aftur inn.“

Hins vegar hafi Elísabet tengt strax við þessa senu á sama hátt og Ása. „Það er bara hvernig einhver sér efnið. Einhver sem er að gera sömu mynd og maður sjálfur. Ég held að það sé mjög mikilvægt.“

„Mér finnst stundum eins og það ætti að skrifa upp á samninga að framleiðendur, leikarar og leikstjórar eru að gera sömu myndina, því stundum vantar það upp á,“ bætir Elísabet við.

„Þá er hún kannski búin að gera eitthvað ótrúlega flott eða mjög skrítið“
Þegar þær Elísabet og Ása settust fyrst niður og hófu störf bað Elísabet hana um að skrifa helstu þemun og tilfinningar í myndinni á blá merkispjöld sem hún hafði síðan hjá sér í gegnum klippiferlið. „Því ég er ekkert að fara á prívat sprell,“ segir Elísabet. Hún reynir að skilja hvert leikstjórinn vill fara með söguna og þess vegna er samtalið svo mikilvægt.

„Svo eigum við þetta samtal og svo segir Beta: Jæja, farðu nú út,“ segir Ása. „Svo kem ég daginn eftir og þá er hún kannski búin að gera eitthvað ótrúlega flott, eða mjög skrítið,“ og þá taki það smá stund að átta sig. „En það er svo ótrúlega spennandi líka, að koma aftur að einhverju efni sem maður heldur að maður þekki mjög vel. En svo er kominn einhver strúktúr sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér.“

„Það eru svo mikil forréttindi að fá að leika sér svona með sögur,“ segir Elísabet því saga er ekki fastur raunveruleiki. „Þú getur alveg fleytt henni fram og til baka og snúið henni við og hent upp í loftið og séð hvernig hún lendir. Sem er ótrúlega spennandi hluti af ferlinu.“

„Ég er bara orðin gömul og búin að reyna við ýmislegt“
Elísabet gerir mikið af því sem í bransanum kallast „lækningar“, þá kemur leikstjóri með mynd sem ekki gekk upp og hún beðin um að bjarga henni. „Fyrir mér er það í rauninni þakklátasta starfið,“ segir hún. Þá fær hún sendan harðan disk með efni sem hún reynir að vinna úr.

„Þetta er pínu eins og The Matrix, ekki vera hræddur. Það er ekkert sem stoppar þig eins og hræðsla,“ segir hún. Um leið og maður er kominn með eitthvað sem virkar aðeins þá er boltinn fljótur að rúlla.

Hún sé óhrædd við að hætta við hugmyndir og byrja upp á nýtt. Það geti vissulega verið yfirþyrmandi fyrir marga að fá til sín mikið af efni, sérstaklega ef viðkomandi er óvanur að fást við slíkt. „En fyrir mér, núna er ég bara orðin gömul og búin að reyna við ýmislegt. Í rauninni finnst mér þessar lækningar það skemmtilegasta sem ég geri, þar fær maður hrósið. Öllum hinum er alveg sama,“ segir hún og hlær.

Klipparar oft í hlutverki sálfræðinga
Kvikmyndagerð er tímafrek vinna og líkir Ása því við að vera í útgerð. „Maður verður pínulítið háður því. Maður fer í tökur oftast út á land eða einhvers staðar í burtu og býst við að sofa sama og ekkert. Svo kemur maður heim gjörsamlega búinn á því.“

„Ég held að það sé mjög oft þannig að þegar leikstjórar setjast niður með klippurum þá lendir klipparinn í því að vera ekki bara læknir heldur líka sálfræðingur,“ bætir hún við. Eftir átökin á tökustað sé leikstjórinn orðinn svolítið tættur. Þá skipti rosalega miklu máli að finna það frá klippara að allt verði í lagi og að einhver sé spenntur fyrir efninu.

Oft séu leikstjórar búnir að þróa verkefni í mörg ár og svo lýkur tökunum á augnabliki. „Maður er búinn að vera með einhverja senu í hausnum á sér í mörg ár og svo er hún bara búin eftir hálftíma eða tvo.“

Bannar rifrildi við vinnuaðstöðuna
Með tíð og tíma hafi hún lært að finna það á sér ef vel tekst til á setti. „Ég finn bara töfra, heyri eitthvað svona töfrahljóð,“ segir hún og hlær. En stundum hafi hún ekki hugmynd hvernig senan kom út og upplifi jafnvel að hlutirnir hafi ekki farið á þá leið sem hún sá fyrir sér. Sem leikstjóri einblínir hún oft á það sem ekki hafi tekist nógu vel, eins og skotið sem búið var að æfa í tvo daga með krana, og þá missi hún af því óvænta eða hinu sem fór vel. Þær Elísabet taka sem dæmi að stundum getur einhver sveiflandi pilsfaldur allt í einu orðið hjartað í senunni.

„Þá er svo gott að koma með efnið þitt til manneskju sem sér alla þessa hluti og skilur þá. Sér dramatíska og tilfinningalega möguleika og kemur með ferskt blóð inn í þetta allt.“

„Þetta er göldrótt ferli,“ segir Elísabet sem hefur þá ströngu reglu að það sé bannað að rífast í kringum vinnuaðstöðu hennar. „Það er mjög mikilvægt þegar þú ert með leikstjóra og framleiðendur, það bara kemur ekki til greina,“ segir hún. „Maður þarf að búa til safe space fyrir alla.“

Man þegar tölvan tók við af filmunni
Elísabet man þá daga þegar kvikmyndir voru teknar upp á filmu og klipptar með skærum og lími. „Mér finnst svo óþægilegt að segja það en já, ég man eftir því,“ segir hún og hlær. „Maður þarf að horfast í augu við það.“

„Ég fæ alveg dramatík í kringum það, flassbökk. Með hvítu hanskana að kafa ofan í einhverja filmupoka að leita að þessum eina ramma sem týndist einhvers staðar,“ segir hún. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa lært klippingar í gegnum filmuna, því það er ýmislegt sem þarf að gerast í hausnum á þér áður en þú ferð að gera hlutina,“ segir Elísabet sem fékk góða þjálfun í að hugsa klippin sín áður en hún framkvæmir þau.

Hún rifjar einnig upp þegar tölvan tók við filmunni. Þá var hún stödd í Danmörku að vinna kvikmynd fyrir Nordisk film. „Þau voru með svona klippiskúra þar sem steenbeckarnir voru með filmuna. Allir náttúrulega keðjureykjandi inni í þessum litlu timburskúrum með nítrat pokana, allt rosa flameable.“ Hún hafi setið í garðinum að fá sér kaffi og sá þá tíu manns bera út steenbeckana, tól sem notað var til að vinna filmuna, og inn var hlaupið með skjá í staðinn.

Heimsfaraldur kom sér vel fyrir Marvel
Elísabet hefur verið að vinna fyrir marga af stærstu kvikmyndaframleiðendum heims líkt og Marvel. „Það sem mér finnst svo áhugavert við þennan stóra markað sem er að setja 100 til 300 milljónir dollara í kvikmynd er að þar er oft farið af stað í tökur án þess að handritið sé klárað,“ segir hún.

„Covid kom sér mjög vel fyrir Shang Chi, Marvel mynd sem ég var að vinna með, því við vorum ekki með þriðja act,“ segir hún. Þau hafi eytt miklum tíma í heimsfaraldrinum úti í Ástralíu að teikna upp og skrifa þriðja hluta myndarinnar vegna þess að hann hafi ekki verið til. „Ef það væri ekki fyrir covid þá veit ég ekki hvernig þetta ævintýri hefði endað,“ segir hún.

„Ég bý í sama heimi og þú, því miður“
Ása ólst upp við það hugarfar frá móður sinni að sem kona væri ekkert sem hún gæti ekki gert. Kynjahallinn hafi þó komið aftan að henni þegar hún fór út í nám og byrjaði að vinna í bransanum og spyr því Elísabetu hver hennar upplifun hafi verið.

„Ég bý alveg í sama heimi og þú, því miður. Maður hefur einhverja fantasíu og drauma um að kvikmyndagerð sé prógressív en við erum alveg sömu risaeðlur og allir aðrir kimar samfélagsins,“ segir Elísabet. „Mér finnst það ekki hollt fyrir okkur og mér finnst það leiðinlegt. Ég trúi því virkilega að þessi risaeðluháttur okkar er að kosta áhorfendur efni sem gæti haft verulega skemmtileg áhrif á líf þeirra.“

„Uppáhaldsmyndirnar þínar, ég get lofað þér, eru leikstýrðar af konum“
Ása segist taka eftir því að konur séu hjartanlega velkomnar á stuttmyndasenuna en viðhorfið sé að þær eigi ekki erindi að gera kvikmyndir í fullri lengd. Það séu minni peningar í stuttmyndinni og þar af leiðandi minni áhætta. Hún segist einnig finna fyrir því að sögur eftir konur þurfi gjarnan að fjalla algjörlega um reynsluheim kvenna eða þá vera svo algjörlega klikkaðar að þær sprengi af sér allt þak.

„Þetta er svo marglaga,“ segir Elísabet. Í fyrsta lagi þurfi peninga til að gera mynd og þeir eru alltaf vandamál þegar kemur að konum og í öðru lagi, ef fjármagn fæst og myndin er gerð, þarf að markaðssetja myndina. „Þá kemur í ljós að konur fá miklu minni pening í markaðssetningu en karlar. Þetta er marglaga stopp á okkur en samt shænum við,“ segir hún.

Þrátt fyrir að þykja mikilvægt að benda á þennan misjöfnuð séu þær báðar orðnar þreyttar á að þurfa þess. „En höldum áfram, bendum á það. En við þurfum líka að vera duglegar að lyfta upp þeim konum sem eru til staðar. Okkar hlutverk er að draga þær fram og horfa á myndirnar þeirra,“ segir Elísabet. Þá segist hún einnig geta lofað því að mörgum af uppáhaldsmyndum fólks sé leikstýrt af konum en það tali bara enginn um það því það væri ekki vænlegt að markaðssetja þær þannig.

Báðar segjast þær hafa séð mikinn mun á bransanum, sér í lagi eftir að #Metoo-bylgjan átti sér stað en enn þá sé langt í land. „Einn daginn svo sannarlega, en ég er ekkert allt of viss að ég fái að lifa það,“ segir Elísabet.

„Ég var komin yfir fimmtugt þegar ég fer að geta lifað vel á mínum launum“
Að lokum spyr Ása hvort Elísabetu finnist einhvern tímann eins og henni sé borgið. Sem listamenn halda þær alltaf á mörgum boltum í einu og eru í verkefnum sem taki langan tíma og það sé alltaf smá hræðsla við að ná endum saman.

„Nei, og sem betur fer ekki,“ svarar Elísabet. „Ég held að það sé hluti af því sem drífur mann áfram að vilja alltaf gera vel og gera betur.“ Listamenn þurfi að horfast í augu við þá staðreynd að þeir eru alltaf dæmdir eftir síðasta verkefni. „Það segir enginn: Ú, muniði eftir myndinni sem Elísabet klippti árið ‘98? Það er ekki þannig, það er bara síðasta mynd.“

„Þannig það er svo sannarlega krafa um að halda dampi, sem enginn kemur til með að gera endalaust,“ heldur hún áfram. „Ég var komin yfir fimmtugt þegar ég fer að geta lifað vel af mínum launum,“ segir hún. Það hafi verið eftir að hún klippti myndina John Wick, þá fór hún að sjá laun sem hún gat lifað á sem fjögurra barna einstæð móðir. „Þangað til var þetta bara svartnætti.“

Hún segir að það sé í raun með ólíkindum að hún hafi lifað af þessi fyrstu 30 ár í kvikmyndagerð á Íslandi. „Sem ég vildi óska að ég gæti sagt að væri þrjóska en ég held að það sé meira að ég kunni ekkert annað. Svo maður lét sig hafa það einhvern veginn að halda áfram – og hafði gaman að því og allt það. En þetta var ekki að borga neina reikninga.“

Öllum hollt að umgangast vel gefið skapandi fólk
„Þú ert líka bara svo mikil stjarna,“ segir Ása við Elísabetu. „Ekki af því að þú ert að vinna í Hollywood heldur því þú ert enn þá með svo mikla sköpunargleði og kraft, það er svo skapandi.“ Elísabet segist nuddast við fólk eins og Ásu og það sé mjög gefandi fyrir hennar sköpunargáfu. „Ég held að það sé öllum hollt að umgangast vel gefið skapandi fólk.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR