Rætt um VITJANIR: „Þessi sería verður ekki um drauga sko“

„Ég man að Kolbrún sagði: Þessi sería verður ekki um drauga sko,“ segir Vala Þórsdóttir annar handritshöfundur sjónvarpsþáttanna Vitjana sem hófu göngu sína á RÚV á páskadag. Þær Kolbrún Anna Björnsdóttir áttu þó þrátt fyrir fyrri áætlanir eftir að sökkva sér í rannsóknarvinnu á bæði vísindum og spíritisma. Úr varð saga þessara tveggja heima sem mætast í skáldaða smábænum Hólmafirði. Rætt var við þær í hlaðvarpinu Með Vitjanir á heilanum á RÚV.

Á vef RÚV segir:

Fyrsti þáttur Vitjana var sýndur á RÚV á páskadag. Þar eru spenna, dramatík og dulúð við völd þó einnig sé stutt í húmorinn. Draugar fortíðar ásækja bráðalækninn Kristínu þegar hún flytur með Lilju, unglingsdóttur sinni, heim til foreldra sinna á Hólmafirði og reynir að ná áttum eftir framhjáhald eiginmanns síns. Hún hefur störf á heilsugæslu bæjarins og þarf að sýna gömlum vinum að hún er bæði fær stjórnandi og læknir.

Handritshöfundar þáttanna eru Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir en þær fara einnig með hlutverk í þáttunum þar sem þær leika Hönnu og Hugrúnu á Heilsugæslunni. Í leikstjórnarstól situr Eva Sigurðardóttir.

Í nýjum hlaðvarpsþætti á RÚV, Með Vitjanir á heilanum, sem fylgir sjónvarpsþáttunum eftir verður kafað á dýpið hvað varðar persónusköpun, efnistök, andatrú, læknisfræði og allt sem birtist áhorfendum á skjánum. Kolbrún og Vala voru gestir í fyrsta þætti og sögðu Júlíu Margréti Einarsdóttur frá ferlinu.

„Kolbrún, ég held ekki“
Kolbrún er sú sem fyrst fékk hugmyndina að þessum þáttum þótt hugmyndin væri óljós til að byrja með. „Ég var búin að vera með þessa hugmynd mallandi hjá mér og svo ákvað ég að nú þyrfti ég að gera eitthvað í þessu.“

Hún ákvað að heyra í Völu sem leist alls ekki vel á í fyrstu. „Ég kynnti þetta fyrir henni og hún bara: Kolbrún, ég held ekki,“ rifjar Kolbrún upp og hlær.

Þá var hugmyndin enn á byrjunarstigi og Kolbrún sá þættina fyrst og fremst fyrir sér sem læknaseríu. „Og það er ekki alveg minn stíll,“ segir Vala glettin. Kolbrún bætir við: „Hún var alveg: Hvað meira? Jú, mæðgur eitthvað.“ Vala var ekki sannfærð. „Hún bara: Nei, hugsaðu þetta aðeins meira.“

En Kolbrún gafst ekki upp og minnti Völu reglulega á þættina. „Kolbrún lét mig bara ekkert í friði. Hún var alltaf að segja mér hvað hún væri að gera og svona, ertu ekki til í að kíkja á þetta aðeins með mér?“ segir Vala. „Hún smá svona veiddi mig inn í þetta,“ segir Vala en bætir því við að hún hafi fljótt áttað sig á að þetta væri verkefni sem hún vildi taka þátt í. „Í rauninni þurfti hún ekkert rosalega langan tíma.“

„Þessi sería verður ekki um drauga sko“
Á þeim tíma var enn ekkert yfirnáttúrulegt á seyði handritinu en það átti eftir að breytast, þótt sú væri ekki ætlunin til að byrja með. „Ég man að Kolbrún sagði: Þessi sería verður ekki um drauga, sko,“ segir Vala og hlær. „Af því ég vissi innst inni að við myndum fara þangað, en ég var alveg, nei, nei, ekki draugar,“ tekur Kolbrún undir.

„Bróðir minn var andalæknir“
Ásamt Evu Sigurðardóttur leikstjóra tóku þær þátt í evrópskri vinnustofu sem nefnist Midpunkt. Í fyrsta viðtalinu sem þær fóru í spurði aðalleiðbeinandi vinnustofunnar hvernig þær tengdust læknum sjálfar og þekktu til þeirra vísinda sem þær fjölluðu um í handritinu.

„Ég fór í nett kerfi því ég er ekkert tengd læknum en pabbi Kolbrúnar er læknir og hún er alveg alin upp í þessum heimi. Svo hún talaði svolítið um það, en þegar hann leit á mig og spurði: En þú Vala? Þá fraus ég,“ rifjar Vala upp. Það kom henni sjálfri á óvart þegar hún svaraði: „Ég er í raun ekkert tengd vestrænum læknavísindum neitt en bróðir ömmu minnar var andalæknir.“

Vestræn læknisfræði og þjóðtrúin
Vala minnti sig á að þær hefðu verið staðráðnar í að fjalla ekki um drauga en það lifnaði yfir manninum sem tók viðtalið og hann sagði: „Stelpur, af hverju er þetta ekki í pappírunum hérna? Serían á að vera um þetta!“

Þær fóru að skrifa söguna upp á nýtt og þá fór allt að smella. „Við unnum út frá því að þorpið væri búið til úr vestrænni læknisfræði og svo þjóðtrúnni okkar, andalækningum, spírítisma og álfatrúnni og því öllu saman,“ segir Vala.

Sér Margréti aðeins þegar hún er ein
Það er ljóst á sögupersónunni Kristínu, sem er kölluð Sísí í heimabænum, að sá harmur sem áhorfendum birtist að einhverju leyti í endurliti í byrjun þáttar hefur haft gríðarleg áhrif á hana. Hún missti systur sína á unga aldri og tók þá ákvörðun að halla sér að vísindum á meðan móðir hennar leitar huggunar í andatrúnni. Sjálf trúir Jóhanna, móðir Kristínar, því sem hún sér þegar draugarnir birtast henni, það leikur ekki á því neinn vafi.

Kolbrún bendir á að í þeim senum sem framliðnir fara á stjá þá sjáum við áhorfendurnir með augum Jóhönnu. „Hún trúir því sem hún sér en áhorfandinn getur valið hvort hann trúir því sjálfur að þetta séu alvöru draugar eða hvort hún sé að ímynda sér það,“ segir Kolbrún. „Ef þú ferð að skoða seríuna þá á það að vera þannig að þegar Jóhanna sér Margréti er enginn annar í mynd, bara þær tvær. Hún sér Margréti ekki með einhverjum öðrum,“ bætir Vala við.

Hittu konu í Heiðmörk sem kyrjaði og kallaði á álfa
Með það fyrir sjónum að kynnast persónunum betur, sama hvar þær standa í vísinda- eða andatrú, fóru þær Kolbrún og Vala í mikla rannsóknarvinnu.

Til að dýpka skilning sinn á spírítismanum fóru þær á miðilsfundi, „svo fórum við með mjög góðri konu í Heiðmörk að hitta álfa. Hún kyrjaði, var með trommu og kallaði á þá og við fylgdumst með því. Svo fengum við leyfi til að taka upp á ákveðnum stað á Snæfellsnesi. Við fengum manneskju sem býr þar og er í miklum tengslum við náttúruna og alla þessa vætti og leyfi frá huldufólkinu til að taka upp á þessum stað,“ segir Vala sem fór einnig á sjaman-námskeið í undirbúningsferlinu.

Fór í andaglas á unglingsárum
Þó að það væri nýtt fyrir þeim að einhverju leyti að ganga inn í þennan heim af slíkri festu var hvorug þeirra lokuð fyrir hugmyndinni um handanheima. „Maður gekk auðvitað í gegnum skeið á unglingsaldri þar sem maður fór í andaglas,“ segir Kolbrún sposk, „en ég held ég hafi ekkert verið brjálæðislega lokuð fyrir því sem fólk vill trúa.“

Draugar og álfar sendu kveðjur
Þeim barst að lokum kærkominn stuðningur úr heimi huldufólks og framliðinna. „Við fengum kveðju inn í framleiðsluna þar sem var verið að segja að álfar fylgdu okkur og við ættum að fá gott veður,“ segir Vala. „Það voru draugar sem fylgdu okkur líka og alls konar,“ bætir Kolbrún við.

En meðbyrinn barst þeim líka úr heimi læknavísindanna. „Hún Kristín læknir, sem var okkar aðalráðgjafi á setti, hún kom með hvatningu úr læknaheiminum þar sem læknar og fólk úr heilbrigðisgeiranum var svo ánægt með að við værum að taka fyrir þessa hluti,“ segir Vala. Það vill svo til að dóttir Kolbrúnar er að klára kandídatsárið sitt í læknisfræði og hún fylgdist grannt með ferlinu.

Eru að vinna með það ómeðvitaða
Kristín, aðalsöguhetjan, er að ganga í gegnum mikla umbrotatíma í lífi sínu þegar sagan hefst. Við henni blasa erfið sambandsslit eftir framhjáhald en það verður líka ljóst að óuppgerð sár fortíðar elta hana uppi.

Í erfiðleikunum sem hún stendur frammi fyrir ákveður hún að fara aftur heim í smábæinn, jafnvel þótt þar sé slúðrað og það þrengi strax að henni. Þar átti hún þrátt fyrir allt alltaf heimili og skjól. Vala segir ýmsar ástæður fyrir þeirri ákvörðun.

„Það er held ég annars vegar það að fara inn í það sem einu sinni var gott, en kannski er þetta líka þannig að innst inni veit hún að hún þarf að skoða þessi mál öll,“ segir hún að lokum. „Við gerum oft hluti sem við áttum okkur ekki á fyrr en seinna af hverju. Við erum að vinna með þetta ómeðvitaða líka.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR