Íslenskar kvikmyndir og Cannes

Það eru ávallt merkistíðindi þegar íslensk kvikmynd er valin á Cannes hátíðina. Volaða land eftir Hlyn Pálmason er sextánda kvikmyndin eftir íslenskan leikstjóra sem valin er á þessa stærstu kvikmyndahátíð heimsins á tæpum fjörtíu árum.

Það segir sína sögu um breytta stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar að átta af þessum sextán kvikmyndum eru frá síðustu 11 árum.

Framan af voru íslenskar kvikmyndir sjaldséðir gestir á Cannes en undanfarin rúman áratug hafa þær birst þar nokkuð reglulega eins og glöggt má sjá af meðfylgjandi lista – og samfellt frá 2018 (engin hátíð 2020). Á þessu tímabili hafa þær einnig oftast komið heim með verðlaun.

Eldfjall (2011) Rúnars Rúnarssonar ryður brautina fyrir reglulega þátttöku íslenskra kvikmynda á Cannes hátíðinni. Slík regluleg þátttaka skiptir verulegu máli hvað varðar prófíl íslenskra kvikmynda og meðvitund hins alþjóðlega kvikmyndaheims gagnvart íslenskri kvikmyndagerð, en að sjálfsögðu eru margir fleiri þættir sem spila inní. Samhliða þessu hefur íslenskum kvikmyndum fjölgað mikið á alþjóðlegum hátíðum um allan heim, bæði stórum og smáum. Á sama tíma hefur framleiðsla íslenskra kvikmynda aukist, alþjóðlegt samstarf eflst, heimsóknum erlendra tökuliða til Íslands fjölgað gríðarlega sem og framleiðsla þáttaraða í alþjóðlegu samstarfi. Svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta og ýmislegt fleira hefur skerpt á og stækkað prófíl íslenskrar kvikmyndagerðar í hinum alþjóðlega kvikmyndaheimi. Nú er reglulega spurt um hvaða myndir séu væntanlegar frá Íslandi þetta árið.

Hér má sjá þær kvikmyndir íslenskra leikstjóra sem sýndar hafa verið á Cannes hátíðinni frá upphafi. Listinn inniheldur þær kvikmyndir (langar og stuttar) sem eru hluti af opinberu vali hátíðarinnar, sem og þær myndir sem valdar hafa verið á hliðardagskrár hátíðarinnar (Director’s Fortnight, Critics’ Wek) sem haldnar eru samhliða hátíðinni og í nánu samstarfi við hana. Á listanum eru ekki þær myndir sem sýndar hafa verið á markaði hátíðarinnar sem einnig fer fram samhliða, en þær sýningar eru að undirlagi framleiðenda og söluaðila.

1984: Atómstöðin / Þorsteinn Jónsson (Director’s Fortnight)
1992: Ingaló / Ásdís Thoroddsen (Critics’ Week)
1992: Ævintýri á okkar tímum / Inga Lísa Middleton (Stuttmyndaflokkur)
1993: Sódóma Reykjavík / Óskar Jónasson (Un Certain Regard)
2003: Stormviðri / Sólveig Anspach (Un Certain Regard)
2005: Voksne mennesker / Dagur Kári (Un Certain Regard)
2008: Smáfuglar / Rúnar Rúnarsson (Stuttmyndaflokkur)
2009: Anna / Rúnar Rúnarsson (Director’s Fortnight, stuttmynd)
2011: Eldfjall / Rúnar Rúnarsson (Director’s Fortnight)
2013: Hvalfjörður / Guðmundur Arnar Guðmundsson (Stuttmyndaflokkur)
2015: Hrútar / Grímur Hákonarson (Un Certain Regard)
2016: Sundáhrifin / Sólveig Anspach (Director’s Fortnight)
2018: Kona fer í stríð / Benedikt Erlingsson (Critics’ Week)
2019: Hvítur, hvítur dagur / Hlynur Pálmason (Critics’ Week)
2021: Dýrið / Valdimar Jóhannsson (Un Certain Regard)
2022: Volaða land / Hlynur Pálmason (Un Certain Regard)

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR