spot_img

Sara Gunnarsdóttir ræðir MY YEAR OF DICKS

Morgunblaðið ræðir við Söru Gunnarsdóttur, leikstjóra teiknimyndaseríunnar My Year of Dicks, sem sýnd verður á Stockfish hátíðinni.

Segir á mbl.is:

Unglings­ár­in geta verið erfið og flók­in og oft er talað um að lifa þau af. Í nýrri teikni­mynd sem heit­ir því skemmti­lega nafni My Year of Dicks er unnið með texta­brot úr bók Pamelu Ri­bon, hand­rits- og met­sölu­höf­und­ar sem hef­ur getið sér gott orð í hinum list­ræna teikni­mynda­heimi. Mynd­in er róm­an­tísk gam­ansería sem fjall­ar um fimmtán ára ung­lings­stelpu sem hef­ur sett sér það mark­mið að missa mey­dóm­inn. Hún hef­ur verið frum­sýnd er­lend­is en verður nú sýnd á Stockfish-kvik­mynda­hátíðinni sem hald­in er 24. mars til 3. apríl í Bíó Para­dís. Sara Gunn­ars­dótt­ir leik­stýr­ir mynd­inni og klipp­ir, en hún er eng­inn nýgræðing­ur á sviði list­rænna teikni­mynda.

Til­rauna­kennt efni

Hvernig vinn­ur maður svona mynd eins og My Year of Dicks?

„Þetta byrj­ar allt með bók eft­ir Pamelu sem er sjálfsævi­sögu­leg minn­inga­bók sem heit­ir Notes to Boys: And Ot­her Things I Shouldn’t Share in Pu­blic. Bók­in fékk fín­ar viðtök­ur. Sjón­varps­stöðin FX-Network bað hana að taka efni úr bók­inni og búa til litla seríu með stutt­um teikni­myndaþátt­um fyr­ir þátt sem heit­ir Cake, sem er sketsaþátt­ur með til­rauna­kenndu efni, bæði leiknu og teiknuðu,“ út­skýr­ir Sara og seg­ir FX-Network vera einn af fáum vett­vöng­um þar sem verið er að kaupa slíkt til­rauna­kennt efni.

My Year of Dicks kitl­ar hlát­urtaug­ar áhorf­and­ans en marg­ir eiga eft­ir að geta sett sig í spor hinn­ar ungu Pamelu og vand­ræðagang unglings­ár­anna þegar all­ir eru að reyna að passa inn, segja það rétta og kynn­ast ást­inni og kyn­lífi.

Tæki­færi til að leik­stýra

„FX hafði svo sam­band við mig sum­arið 2020 og vantaði ein­hvern til að leik­stýra þess­ari seríu,“ seg­ir Sara og seg­ist hafa stokkið á þetta góða tæki­færi.

„Þarna kom tæki­færi fyr­ir mig að leik­stýra öllu verk­inu. Ég teikna ekki mynd­ina ein; ég var með sjö lista­menn sem unnu við að teikna hana, þrjá bak­grunnslista­menn og einn sem litaði,“ seg­ir hún og seg­ir al­gengt að svo marg­ir komi að gerð einn­ar teikni­mynd­ar, enda mik­il vinna.

„Það er svo ég sem hanna út­litið og er með nálg­un­ina sem list­rænn stjórn­andi eða leik­stjóri. Það var frá­bært að geta ráðið alla þessa góðu lista­menn en þeir fengu all­ir sinn sér­staka kafla eða búta og fengu þannig að setja sitt mark á efnið,“ seg­ir hún og seg­ir gerð mynd­ar­inn­ar hafa í heild tekið um eitt og hálft ár.

Lúx­us að vinna heima

„Mynd­in verður ekki sýnd á FX-network fyrr en síðar í sum­ar en hef­ur verið sýnd á kvik­mynda­hátíðinni SXSW í Texas og fékk góðar viðtök­ur,“ seg­ir Sara, en mynd­in fékk þar ein­mitt viður­kenn­ingu sér­stakr­ar dóm­nefnd­ar fyr­ir óvenju­lega sýn í skrif­um og leik­stjórn, eða „Special Jury Recogniti­on for Un­ique Visi­on in Writ­ing and Direct­ing“.

Sara seg­ir vinnu sína mjög skemmti­lega og finnst gott að geta unnið hana heima hjá sér.

„Mér finnst það lúx­us. Ég er búin að vinna þannig lengi. Ég er kom­in með ann­an fót­inn inn í brans­ann í Banda­ríkj­un­um og eft­ir að Covid kom fóru fleiri að vinna heim­an frá sér. Það gerði að verk­um að við fjöl­skyld­an gát­um flutt heim til Íslands,“ seg­ir Sara, en hún er ný­flutt heim eft­ir að hafa búið í Banda­ríkj­un­um í fjór­tán ár, bæði í Kali­forn­íu og New York.

Hvað er á döf­inni?

„Ég er byrjuð á sjón­varpsþáttaseríu fyr­ir Apple TV sem er byggð á bók­inni City on Fire, en sag­an ger­ist í New York. Það er ein­mitt svona verk­efni þar sem ég geri teikni­mynd­ir inn í leikna seríu,“ seg­ir Sara og er greini­legt að það er margt spenn­andi fram und­an. Þess má geta að Pamela verður einn af gest­um Stockfish í ár en þær Sara munu sitja fyr­ir svör­um eft­ir frum­sýn­ingu þátt­anna auk þess sem Pamela verður einn af þátt­tak­end­um í pall­borðsum­ræðum um nú­tíma­hand­rits­gerð á Bransa­dög­um Stockfish á Sel­fossi.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR