Þrjár kvikmyndahátíðir framundan

Nokkrar kvikmyndahátíðir eru framundan á næstu vikum og verða haldnar með reglulegum hætti, nú þegar faraldurinn virðist vera í rénum.

Þýskir kvikmyndadagar

Þýskir kvikmyndadagar verða í Bíó Paradís í þrettánda sinn dagana 11.- 20. mars. Hátíðin er í samstarfi við Goethe-Institut Dänemark og Þýska Sendiráðið á Íslandi. Allar myndir verða sýndar á þýsku með enskum texta. Opnunarmyndin er I’m Your Man eftir Mariu Schrader, sem notið hefur vinsælda. Dagskrána má skoða hér.

Frostbiter

Hryllingsmyndahátíðin Frostbiter fer fram í sjöunda sinn á Akranesi helgina 11.-12. mars. Sýndar verða fjöldi stuttmynda víða að og boðið uppá ýmsar uppákomur. Frítt er á alla viðburði og sýningar á hátíðinni. Greg Sestero verður sérstakur gestur hátíðarinnar, en hann lék í hinni alræmdu kvikmynd The Room. Mynd James Franco, The Disaster Artist var byggð á bók Sestero um gerð myndarinnar. Sestero frumsýnir fyrstu mynd sína sem leikstjóri, Miracle Valley, á hátíðinni. Vefur hátíðarinnar er hér.

Stockfish

Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival & Industry Days verður haldin í áttunda sinn dagana 24. mars til 3. apríl. Stockfish Film Festival & Industry Days er kvikmynda- og ráðstefnuhátíð fagfólks í kvikmyndabransanum og er haldin í  Bíó Paradís í samvinnu við öll fagfélög í kvikmyndagreinum á Íslandi. Meðal mynda sem sýndar verða á hátíðinni er Babysitter eftir Monia Chokri sem frumsýnd var á Sundance hátíðinni í byrjun árs. Vefur hátíðarinnar er hér.

Bíótekið og Svartir sunnudagar

Tvær reglulegar kvikmyndadagskrár eru í gangi í Bíó Paradís, annarsvegar Bíótekið þar sem sýndar eru valdar íslenskar kvikmyndir með þátttöku aðstandenda (og einnig norrænar myndir) og Svartir sunnudagar. Dagskrá Bíóteksins er hér og Svartra sunnudaga hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR