spot_img

Vinsælustu bíómyndirnar 2021, tekjur aukast um rúm 62%

Bíóaðsókn jókst hressilega 2021 miðað við fyrra ár, eða um tæp 50%. Þetta má skýra með rýmri samkomutakmörkunum á árinu miðað við 2020. Aðsóknin nemur rétt rúmum 60% af aðsókn ársins 2019. Tekjur 2021 jukust um rúmlega 62% miðað við fyrra ár. James Bond myndin No Time to Die er vinsælasta mynd ársins.

Nýjasta James Bond myndin No Time to Die var tekjuhæsta kvikmynd síðasta árs í kvikmyndahúsum en hún halaði inn rúmlega 87 milljónum króna í miðasölu. Yfir 58 þúsund kvikmyndahúsagestir sáu Daniel Craig kveðja hlutverk sitt sem leyniþjónustumaðurinn vinsæli 007 og var kvikmyndin nokkuð örugglega aðsóknarmesta mynd ársins.

Á hælum Bond á aðsóknarlista ársins mættu til leiks annars konar hetjur en fyrsta mynd Hannesar Þórs Halldórssonar, Leynilögga, sló heldur betur í gegn. Leynilögga þénaði yfir 76 milljónir í miðasölu en yfir 40 þúsund manns lögðu leið sína í kvikmyndahús til að sjá ofurlögguna Bússa berjast við hættulegustu glæpamenn landsins.

Í þriðja sæti listans var svo nýjasta myndin um ofurhetjuna vinsælu Spider-man. Kvikmyndin Spider-Man: No Way Home var frumsýnd viku fyrir jól en þrátt fyrir það klifraði Köngulóarmaðurinn alla leið upp í þriðja sæti listans yfir vinsælustu myndir ársins. Á fyrstu tveimur vikum sínum í sýningu þénaði kvikmyndin yfir 61 milljónir króna í miðasölu og höfðu þá yfir 40 þúsund manns séð hana í kvikmyndahúsum hérlendis.

Íslenskar myndir

Einungis tvær íslenskar kvikmyndir rötuðu inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir ársins en 15 íslensk verk voru sýnd í kvikmyndahúsum á árinu. Þrátt fyrir að einungis tvær íslenskar myndir hafi komist á listann yfir tekjuhæstu kvikmyndirnar mátti þó sjá aukningu í heildartekjum af íslenskum kvikmyndum og heimildamyndum.

Heildartekjur af íslenskum verkum á árinu voru yfir 146 milljónir króna samanborið við tæpar 116 milljónir árið 2020 en það er yfir 26% aukning. Um 86 þúsund manns keyptu sig inn á íslensk verk á árinu samanborið við 70 þúsund manns á árinu 2020. Tvær kvikmyndir tóku til sín meirihlutann af aðsókn ársins en það voru áðurnefnd Leynilögga og gamanmyndin Saumaklúbburinn sem fengu yfir 74% af heildartekjum íslenskra verka á árinu.

Aðsókn og tekjur aukast mikið frá fyrra ári

Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.084.391.002 kr., sem er 62,4% hækkun frá árinu á undan. 765.894 manns lögðu leið sína í kvikmyndahús á árinu sem er tæplega 50% aukning frá árinu 2020.

Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2021 má sjá hér að neðan. Þess má geta að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn. Þetta er gert til þess að hlutfall boðsmiða eða afsláttarmiða í umferð hafi ekki áhrif á uppröðun kvikmynda.

(Byggt á fréttatilkynningu frá FRÍSK)

NAFNDREIFINGTEKJURAÐSÓKN
1.No Time To DieMyndform87.657.692 kr.58.018
2.Leynilögga (Cop Secret)*Samfilm76.375.016 kr.41.534
3.Spider-man: No Way Home (2021)*Sena61.111.467 kr.40.495
4.Dune (2021)Samfilm42.754.365 kr.27.749
5.Paw Patrol - The Movie (2021)Samfilm34.392.988 kr.29.270
6.Free GuySamfilm33.950.637 kr.23.760
7.SaumaklúbburinnMyndform32.586.899 kr.19.036
8.Black WidowSamfilm30.641.950 kr.20.680
9.Tom & Jerry (2021)Samfilm29.504.842 kr.26.029
10.Shang-Chi and the Legend of the Ten RingsSamfilm28.234.769 kr.19.053
11.Venom: Let there be CarnageSena24.420.769 kr.16.157
12.The Suicide Squad (2021)Samfilm22.083.234 kr.14.257
13.Space Jam: A New LegacySamfilm22.037.526 kr.18.451
14.Fast & Furious 9Myndform22.030.196 kr.14.862
15.Godzilla vs KongSamfilm21.126.294 kr.14.771
16.EternalsSamfilm19.679.743 kr.12.756
17.The Conjuring; The Devil Made Me Do ItSamfilm19.455.351 kr.12.469
18.A Quiet Place Part 2Samfilm18.082.206 kr.11.643
19.Raya and the Last DragonSamfilm17.031.266 kr.14.965
20.The Boss Baby: Family BusinessMyndform14.774.965 kr.12.715
*Ennþá í sýningu þegar listinn er gerður upp. Heildartekjur og aðsókn liggur því ekki fyrir. | HEIMILD: FRÍSK

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR