Menningarsmygl um VERBÚÐINA: Meðal róna og slordísa á Súganda

„Þetta er líflegt og skemmtilegt og fólk virðist sannarlega vera að vanda sig,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars um þáttaröðina Verbúðina á vef sínum Menningarsmygl.

Ásgeir skrifar:

„Ef þú eyðir viku í Kína skrifarðu skáldsögu, ef þú ert í mánuð skrifarðu smásögu, ef þú ert í ár skrifarðu ljóð og ef þú ert í tíu ár skrifarðu ekki neitt.“ Þessi spakmæli gamals bókmenntakennara míns mætti kannski alveg færa yfir á Ísland með því einu að skipta Kína út fyrir landsbyggðina; hópur Reykvískra leikara og rithöfunda ákveða að skrifa heila þáttaröð sem gerist í verbúð fyrir vestan og gera marga brjálaða en líklega fleiri glaða.

Þarna rekast á spakmælin um glöggu gestsaugun og það að skrifa um það sem maður þekkir. Joan Didion heitin lýsti þessu skemmtilega:

„Ég var bara einu sinni á þessum flugvelli, í vél til Bogotá sem stoppaði þarna í klukkutíma til að fylla á eldsneyti. En það hvernig völlurinn leit út þennan morgun litaði allt annað sem ég sá þangað til daginn sem ég kláraði að skrifa A Book of Common Prayer. Ég bjó á þessum flugvelli í mörg ár. Ég finn enn fyrir heitu loftinu þegar ég stíg út úr vélinni, get séð hitann sem stígur upp af malbikinu klukkan sex að morgni. Ég finn fyrir pilsinu, röku og krumpuðu upp við fótleggina. Ég finn fyrir malbikinu loða við sandalana.“

Samband höfunda við hið kunnuglega og hið framandi getur verið flókið og það getur verið allavega, það getur verið bæði kostur og galli að vera kunnugur staðháttum og mismunandi hvaða kröfur efnið gerir um slíkt.

Fortíðin er auðvitað einn af þessum stöðum líka – og höfundar Verbúðarinnar voru allir börn á grunnskólaaldri árið 1983, fundu mögulega lyktina af þessum kaldranalega heimi í gegnum hina fullorðnu, eða eins og Haukur Ingvarsson, sem er fæddur 1978, sagði um skáldsögu sína Nóvember 1976 í viðtali:

„Maður veit ýmislegt um þá tíma sem maður lifir og þá sem maður les um í sögubókum. Meðan ég lá í rannsóknum á Halldóri Laxness komst ég að því að tíminn rétt áður en maður fæðist er blindur blettur. Hann er of nærri til að vera sögulegur en samt svo mikilvægur því maður er sprottinn úr honum.“

Og heimahagarnir eru líka oft það ólistrænasta af öllu fyrir mörg listþenkjandi ungmenni; sem eru að mestu á skjön við þá smáþorpsmenningu sem það elst upp við, svo á skjön að þau geta ekki beðið eftir að komast út í heim í allar sögurnar sem bíða þeirra þar. Kannski bara til að komast að því að þær sögur verða ekki svo auðveldlega þeirra, þetta er æska annars fólks – og á meðan fjarlægist smábærinn í baksýnisspeglinum og verður á endanum furðu framandlegur.

Þetta er kannski fólkið sem hljóp á milli húsa á meðan aðrir keyrðu, jafnvel þótt áratugum seinna verði fullyrt að þarna hafi aldrei nokkur einasta manneskja hlaupið á milli húsa – ekki einu sinni þegar þær voru aleinar í þorpinu. Fólk sem var inni að lesa á meðan aðrir voru að slást og drekka spíra. Það eru enda margir veruleikar til staðar í flestum plássum, þrátt fyrir að hafa eytt hálfri ævinni á Akureyri hef ég til dæmis sáralítið af Samherja og LÍÚ að segja umfram það sem ég les í fréttum, þótt sá heimur sé vafalítið miðlægur þeim sem vinna í slorinu.

Þessi langi formáli hefði vel að merkja aldrei verið skrifaður ef ég hefði skrifað um Verbúðina strax og ég slökkti á fyrsta þætti, en viðbrögðin á Facebook og Twitter voru ekki bara sterkari en maður er vanur með íslenskt efni, þau voru líka ljóðrænni, íhuglari og fróðlegri en venjulega, og þá á ég bæði við aðdáendur og þá sem voru ósáttir – sem kannski eitt og sér réttlætir þáttinn. Og þá er ég er ekki að tala um kjánalega þingmenn, heldur Vestfirðinga sem mark er takandi á eins og Elísabetu Gunnars og Eirík Örn Norðdahl sem hafa bæði gagnrýnt þættina.

Auk þess virðist nauðsynlegur fyrirvari að skila inn fæðingarvottorði og slor-ferilsskrá þegar kemur að árinu 1983 og verbúðarsukki; sjálfur var ég víst bara sex ára og átti bara eftir að vinna tvær vikur í fiski á Þórshöfn 1995 – og hefði gefið mikið fyrir að það væri þó ekki nema hálf prósenta af 1983 verbúðarstuðinu þar. Og það er líka alveg rétt að hafa í huga að staðurinn sjálfur er aldrei nefndur á nafn í Verbúðinni, þótt þættirnir séu sannarlega teknir upp á Suðureyri stendur hún fyrir hvaða sjávarpláss sem er á landinu sem þurfti að berjast fyrir sínum kvóta – samanber endalausar sögur af svipuðum verbúðum fyrir austan og norðan og sunnan, bæði áratugum fyrr og áratugum síðar.

Hér tek ég fram að það er nauðsynlegt og sjálfsagt að höfundar þurfa sannarlega að hafa fullt leyfi til að skrifa um hvað sem er, hversu nærri eða fjærri sem þeir standa því – en um leið held ég að við megum líka alveg velta þessu öllu meira fyrir okkur, stöðu höfundar gagnvart verki og hvernig hann kemur að því. Hefði til dæmis kannski verið sniðugt að bæta einum Vestfirðingi við handritateymið, jafnvel einhverjum sem kominn var á fullorðinsár 1983? Eða voru þau kannski með nóg af ráðgjöfum sem fylltu upp í stærstu eyðurnar í bland við heimildir?

Ég veit það ekki en ég veit að þetta virkaði bara helvíti vel, svona heilt yfir. Hér er djamm og fyllerí og geðveiki og vitaskuld nóg af fólki að striplast, enda lykilhlutverk norrænnar kvikmyndagerðar að kolefnisjafna nektarleysi Hollywood, þar sem fólk sefur oftast hjá fullklætt. Þeir sem halda að þarna sé verið að gera lítið úr landsbyggðinni mættu vel rifja upp til dæmis Skytturnar – þetta er einfaldlega nokkuð hefðbundin birtingarmynd íslenska djammsins á níunda áratugnum, hvort sem var í sveit eða borg.

Nautið og Lech Walesa

Vissulega er sagan af nautinu Torfa (Ingvar E. Sigurðsson), aflakónginum mikla, rækilega ýkt. Þótt svona fyllibyttur séu til og það séu fyllibyttur í hópi afreksmanna í fiskveiðum eins og annars staðar, þá var þetta einfaldlega aðeins of ýkt fyllibytta til að vera sömuleiðis fúnkerandi – en þetta virkar einmitt sem ýkjusaga sem gæti verið komin frá Hrabal eða úr Góða dátanum Švejk. Að því sögðu er alveg forvitnilegt líka að taka alkasöguna alvarlega; er þetta aflakló þorpsins að ná botninum og eru viðbrögð annarra til marks um meðvirkni með byttunni eða einmitt skort á samkennd með manni sem er þorpinu greinilega dýrmætur en færri virðast syrgja nógu lengi til að láta það trufla lífsins gang verulega. Maður veltir fyrir sér forsögunni, bróðirinn kallar hann fisk á þurru landi, góðan í vinnu, vondan á fundum – sem er vissulega veikleiki í mörgum stjórnendahandbókum skriffinnskunnar; þeir sem standa sig á fundum eru ekki alltaf þeir sömu og standa sig á gólfinu, eða dekkinu í þessu tilfelli. Og þótt manni þyki viðbrögð fólks við andlátinu sem og útlimamissi eins starfsmanns kaldlyndari en svo að maður vilji trúa því, þá má alveg rifja upp að fyrir ekki nema ári síðan sigldi skipstjóri með fárveika Covid-smitaða áhöfn áfram eins og ekkert hefði í skorist – íslenska vinnusiðferðið virðist einfaldlega skáka flestum harmleikjum á góðum degi og breytast ansi auðveldlega í netta siðblindu.

Það eru kannski frekar að það sé full langt gengið að láta mann trúa því að skipperinn og Jón bæjarstjóri (Gísli Örn Garðarsson) geti verið bræður – en bæði geta orðið til furðuleg bræðralög í litlum plássum og eins sýnir þátturinn að líklega sé varlegt að taka of mikið mark á meintu faðerni.

En þetta þorp sem teiknað er upp er sannferðugt og það sem mestu skiptir, sannarlega áhugavert. Netverjar hafa sannarlega talið til alls kyns smávillur – en á móti fá handritshöfundar prik fyrir að rifja upp gleymdar skringisögur á borð við Súsan að baða sig. Það var verst hvað hljómsveitin var lítt sannfærandi – Salka Sól var einfaldlega alltof módern þarna uppi á sviðinu, sumir leikarar virka einfaldlega seint í períódu. Tónlistarvalið utan ballsins var hins vegar prýðilegt og ýmsir slagarar ganga í endurnýjun lífdaga.

Þessi þáttur var hins vegar sagan um síðasta túr Torfa skipstjóra; hinar aðalpersónurnar er enn verið að teikna upp. Maður getur séð fyrir sér að bæjarstjórinn og ritarinn og kunnugjahjón þeirra verði, í einhverri mynd, uppistaðan í kvótaveldi framtíðarinnar. Einhverjir virðast efast um að Harpa (Nína Dögg Filipusdóttir) hefði náð að sannfæra stórbokkana, verandi kona í karlrembuheimi ársins 1983, en það held ég að sé ansi gróf samtímanærsýni, því á á öllum tímum hefur verið hægt að finna slóttugar konur sem kunnu á karlana, jafnvel þótt þær hafi þurft að sannfæra þá bak við tjöldin. Að því sögðu var hún grunsamlega fljót að sannfæra kunningjahjónin um að veðsetja húsið – það er merkilegt með svona langa sjónvarpsþætti, sem á endanum verða heilir átta klukkutímar, að stundum liggur þeim samt alltof mikið að klára ýmsa lykilþætti sögunnar.

Þá dauðlangar mann að fá að vita meira um samskipti bankamannanna tveggja sem Jóhann Sigurðsson og Ólafur Egill Egilsson túlka; þess eldri og mjúkari og þess yngri og ferkantaðri. Er Sólon kannski gamall hippi og dreifari að tengja við ræturnar á ný? Eru þeir kannski þess tíma fulltrúar gamla aðalsins og hinna nýríku, saga sem gekk aftur í hruninu? Eða jafnvel dæmisaga um hvernig upparnir tóku við af hippunum og vinstrisinnaðar byltingar áratugana á undan fjöruðu út?

Og hversu pólitískir verða þættirnir, hversu djúpt fara þeir í greiningu á kvótakerfinu? Það er auðvelt að ímynda sér þá kafa á dýpið þar en jafn auðvelt að ímynda sér að það verði bara bakgrunnur fyrir meira fyllerí og drama.

Spenntastur er ég þó að vita hvað verður um Sveppa í næstu þáttum. Ekki út af því hann er orðinn einhentur, heldur vegna þess að það getur varla verið tilviljun að hann sé döbbaður upp í gervi Lech Walesa. Verður hann verkalýðsleiðtoginn sem þetta pláss þarf?

Að öllu sögðu lofar þessi fyrsti þáttur góðu, þetta er líflegt og skemmtilegt og fólk virðist sannarlega vera að vanda sig. Og fuglasafnið dásamlegt. En getur verið að þættirnir séu á endanum fyrst og fremst toppurinn á ísjakanum í eilífu reiptogi borgar og sveitar; það eru svo rosalega mörg Reykjavíkurskáld í öllum listgreinum að yrkja um sveitina, sem þau heimsækja flest stutt, að þar verður til einhver skekkja sem er alveg ástæða til að ræða og þættirnir hafa opnað á. En persónulega finnst mér sú skekkja miklu verri í ótal verkum öðrum en fyrsta þætti Verbúðarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR