Á mánudag fékk Klapptré senda fréttatilkynningu frá almannatengli þar sem því var haldið fram að myndin hefði átt tekjuhæstu frumsýningarhelgi íslenskrar myndar frá upphafi og að myndin hefði slegið fimmtán ára gamalt frumsýningarmet Mýrinnar.
Þessar fullyrðingar standast ekki skoðun. Því var ekki byggt á þessum upplýsingum þegar Klapptré birti frétt sama dag um aðsókn á íslenskar myndir vikuna á undan.
Tilkynningu almannatengilsins fylgdi listi þar sem tíndar voru til tekjur á opnunarhelgi nokkurra vinsælla íslenskra kvikmynda og mátti af honum ráða að Leynilögga sé þar tekjuhæst. Út frá þessum lista voru hinar hæpnu fullyrðingar dregnar.
Og nú flækist málið. Sé horft á tölurnar sem slíkar eru þær réttar. Gallinn er hinsvegar sá að tekjur myndanna sem Leynilögga er borin saman við, eru ekki núvirtar og að auki bornar saman tekjur opnunarhelgar við tekjur opnunarhelgar ásamt forsýningum.
Svona lítur umræddur listi út (smelltu á mynd til að stækka):
Í verðbólgulandinu Íslandi er samanburður án núvirðingar auðvitað mjög villandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Núvirtar 15,8 milljóna króna frumsýningarhelgartekjur Mýrinnar frá 2006 eru um helmingi hærri upphæð í dag.
Þá er hugtakið “opnunarhelgi” samkvæmt skilgeiningu FRÍSK (einnig alþjóðlegt viðmið) þrír dagar, föstudagur til sunnudags. Bent skal á að opnunarhelgi Bjarnfreðarson var aðeins tveir dagar. Myndin var frumsýnd var á annan í jólum 2009, sem var laugardagur (kvikmyndahús eru lokuð á jóladag).
En niðurstaðan er sú að opnunarhelgi Mýrinnar er enn sú langstærsta í bæði tekjum og aðsókn talið.
Leynilögga er þrátt fyrir þetta að fá alveg sérdeilis fína aðsókn á alla mælikvarða og telst fjórða stærsta opnunarhelgin í tekjum talið frá því mælingar hófust 1995.
Hér að neðan má sjá lista yfir fimm stærstu opnunarhelgar íslenskra kvikmynda í tekjum talið frá upphafi mælinga. Tölurnar í dálkinum “Tekjur opnunarhelgi” eru frá FRÍSK (Félagi rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndum), sem og aðsóknartölur á opnunarhelgi, sem er bætt við til upplýsingar.
Klapptré hefur núvirt tekjutölur (sjá reiknivél hér) og miðast röðin við þær.
HEITI MYNDAR | FRUMSÝND | TEKJUR OPNUNARHELGI | NÚVIRTAR TEKJUR OPNUNARHELGI | AÐSÓKN OPNUNARHELGI |
Mýrin | 20.10.2006 | 15.807.800 kr. | 30.181.754 kr. | 13.956 |
Bjarnfreðarson * | 25.12.2009 | 12.984.400 kr. | 18.438.114 kr. | 11.004 |
Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum | 31.10.2014 | 13.434.312 kr. | 16.132.506 kr. | 11.425 |
Leynilögga | 20.10.2021 | 15.941.412 kr. | 15.941.412 kr. | 8.503 |
Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið | 10.9.2010 | 11.056.820 kr. | 15.495.720 kr. | 10.375 |
* Tveggja daga helgi | Aðrar: þriggja daga helgi.
ATH: Fréttin var uppfærð 29. október. Listinn er nú með með tekjum og aðsókn þriggja daga opnunarhelgar eingöngu, en innihélt áður heildartekjur og aðsókn opnunarhelgar með forsýningum. ATH. Uppfært 30. október: Í listann var bætt við dálknum “Tekjur opnunarhelgi”. Einnig var bætt við mynd af tekjulista frá almannatengli.