Lestin um LEYNILÖGGU: Hreðjalaust hommagrín og þunn persónusköpun

"Gamanið samanstendur annars vegar af háði með klisjum og einnar línu bröndurum Hollywood-hasarmynda tíunda áratugarins sem er staðfært og hins vegar af vísunum í íslenska samtíma-dægurmenningu," segir Gunnar Ragnarsson meðal annars í umsögn um Leynilöggu Hannesar Þórs Halldórssonar í Lestinni á Rás 1.

Gunnar skrifar:

Leynilögga, ný íslensk kvikmynd í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar fyrrum landsliðsmarkvarðar í knattspyrnu, var frumsýnd í Sambíóunum í síðustu viku og hafa rúmlega þrettán þúsund manns sótt myndina, sem telst vera stærsta frumsýningarvika íslenskrar kvikmyndar hérlendis frá því Bjarnfreðarson kom út árið 2009. Um er að ræða léttúðuga grínhasarmynd með Auðunni Blöndal í aðalhlutverki en grunnhugmynd hennar byggir á stiklu úr sketsaþáttunum Auddi og Sveppi frá árinu 2011 og ber þess merki. Margir gömlu brandaranna eru notaðir aftur í kvikmyndinni – nú færðir í stærri níutíu mínútna umgjörð. Gamanið samanstendur annars vegar af háði með klisjum og einnar línu bröndurum Hollywood-hasarmynda tíunda áratugarins sem er staðfært og hins vegar af vísunum í íslenska samtíma-dægurmenningu.

Níunostalgía
Titilsena myndarinnar hefst á drónaskoti af glitrandi turni Borgartúnsins og undir dynja hvínandi hetjugítarar. Samsetning leturgerðar, litar og áferðar upphafstitlanna við dramatíska borgarmynd framkallar hughrif til hasarmynda níunda og tíunda áratugarins – og ber á borð fagurfræðilegan útgangspunkt söguheimsins. Þó er grafið undan nostalgískum upptakti með áframhaldi drónaskota af höfuðborginni, og ímyndin sem minnti á þyrluskot hasarmynda horfinnar tíðar verður að enn einu þreyttu flygildi sem flögrar um í annarri hverri íslenskri kvikmynd og sjónvarpsseríu. Í framhaldi er áhorfanda fleygt beint inn í atburðarásina með lögreglumanninum Bússa við stýrið á sportbíl með skíthræddan samstarfsfélaga í farþegasætinu, sem er leikinn af Sveppa, Sverri Þóri Sverrissyni. Bússi, harðasta löggan í Reykjavík, veitir bankaræningja á mótorfáki eftirför en fyrirmynd persónunnar er augljóslega John McClane úr Die Hard-myndunum. Atriðið er fyndið og einnig langsamlega skemmtilegasta hasaratriði myndarinnar en Auddi og Sveppi virka sem klassískt gríntvíeyki. Bílahasarinn staðnæmist á bæjarmörkum Kópavogs og Garðabæjar þar sem umráðasvæði Harðar, erkifjanda Bússa, byrjar en hann er leikinn af Agli Einarssyni (einnig þekktum sem Gillzenegger). Er líður á myndina víkur Sveppi fyrir Agli sem meginfélagi (og ástmaður) söguhetjunnar. Bússi er nefnileg bældur hommi sem hefur komið kynórum sínum fyrir í harðlæstu kofforti neðst í innstu skúffu „skápsins“ alræmda.

Erkitýpur á Íslandi í dag
Í myndinni túlka margir þekktir leikarar og dægurhetjur lögreglumynda-erkitýpur og dæla út úttuggnum frösum. Teiknimyndalegt illmenni, í höndum Björns Hlyns Haraldssonar, talar ensku út í eitt en þorparasveit hans svarar ávallt á íslensku og er m.a. skipuð fótboltakappanum Rúrik Gíslasyni í hlutverki bardagalistar-stofustáss og Steinþóri Hróari Steinþórssyni, Steinda, sem aulabófa. Steindi er langfyndnasti leikari myndarinnar, og vannýtt auðlind, og í raun væri hann fullkominn aðalleikari fyrir íslenska hasargrínmynd. Jafnvel efni í Simon Pegg Íslands. Aðrar persónur eru strangi lögreglustjórinn (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) sem heyrir beint undir forsætisráðherrann Jón Gnarr (sem leikur „sjálfan“ sig) og söngkonan Bríet leikur tölvunörd. Söguheimurinn er ýkt hasarútgáfa af Íslandi þar sem allir hlusta á FM 957, Sindri Sindrason er með puttann á þjóðarpúlsinum og stemningin og innihaldsleysið er dúndrandi. Hasarháðið og endalausar poppkúltúrs-tilvitnanir myndarinnar verða þreyttar eftir fyrsta umgang og eftir stendur handrit þar sem hvorki er vandað til persónusköpunar né frásagnar.

Í alvöru, strákar?
Í slíkum tilvikum mæðir mikið á útgeislun aðalleikara. Auðunn Blöndal var góður í hlutverki aulans í sjónvarpsþáttunum Eurogarðurinn en hefur ekki enn burði til að bera uppi kvikmynd, sérstaklega ekki sem hasarhetja. Egill Einarsson er þar að auki kraftlítill mótleikari og samkynhneigðar-fléttan þeirra á milli er misheppnuð, þrátt fyrir hafa vakið athygli utan landsteinanna ásamt marksmannsafrekum Hannesar leikstjóra. Gott og vel, samkynhneigðar löggur, sennilega er það tilhugsunin um gauragaurana Audda og Gillz að ríða hvor öðrum, sem á að vera svona sprenghlægileg. Lélegast er þó hvað útfærslan á þessari meginhugmynd er mikið hálfkák – klippt er frá þegar hitnar í kolunum og elskendurnir myndaðir á bak við blaktandi gluggatjöld. Samband þeirra er án alls hita og eins og allt annað, algjört grínigrín. Þegar strákarnir kyssast í hasaratriðunum er það lauflétt á stútinn, eins og í frænkuboði. Hvernig væri nú að hafa þetta smá kynferðislegt, smá sexí og alvöru? Það er spurning hvort þessa gullslegnu fulltrúa „heteró“ menningarinnar hafi einfaldlega skort hreðjarnar til.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR