spot_img

WOLKA, síðasta kvikmynd Árna Ólafs Ásgeirssonar, Íslandsfrumsýnd á RIFF

Wolka, síðasta mynd Árna Ólafs Ásgeirssonar sem lést fyrr á þessu ári, verður Íslandsfrumsýnd sem opnunarmynd Icelandic Panorama á RIFF þann 6. október í Bíó Paradís.

Wolka er fyrsta leikna íslenska kvikmyndin sem veitir innsýn inn í pólskt samfélag á Íslandi í nærmynd. Myndin gerist að mestu í Vestmanneyjum. Þegar Anna fer á reynslulausn úr fangelsi í Póllandi eftir 15 ár á bakvið lás og slá er einungis eitt sem hún ætlar sér – að finna konu að nafni Dorota. Hún leitar hennar í gamla hverfinu sínu í Varsjá en kemst að því að Dorota hafði flutt til Íslands nokkrum árum áður. Anna hættir öllu sínu og ferðast til Íslands á fölsku vegabréfi vitandi það að hún gæti verið að fórna frelsinu með því að taka áhættuna.

Aðalhlutverk myndarinnar er í höndum Olgu Boladz sem er kunn leikkona í Póllandi. Handrit skrifa Árni og Michal Godzic.

Wolka er íslenskt – pólskt samstarfsverkefni og eru flest hlutverk í höndum pólskra leikara. Atli Örvarsson sér um tónlist, Brynja Skjaldardóttir um búninga og Marta Luiza Macuga, ekkja Árna Ólafs ,er leikmyndahönnuður.

Framleiðsla myndarinnar er í höndum Hilmars Sigurðssonar og Begga Jónssonar hjá Sagafilm og Stanislaw Dziedzic hjá Film Produkcja.

Allar myndir Árna sýndar á RIFF

Allar myndir Árna Ólafs verða sýndar á RIFF í ár, Brim, Blóðbönd og Lói – þú flýgur aldrei einn auk Wolka.

Árni útskrifaðist frá Polish National Film School í Lodz og var hans fyrsta mynd í fullri lengd Blóðbönd sem kom út árið 2006. Myndin var sýnd á mörgum kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn. Næsta mynd hans Brim kom út árið 2010 og var líka tilnefnd til verðlauna á mörgum alþjóðlegum hátíðum, auk þess að vinna fjölda Eddu verðlauna, meðal annars sem besta kvikmyndin. Þriðja mynd Árna, teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn var sýnd í meira en 90 löndum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR