Ragnheiður Erlingsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Zik Zak

Ragnheiður Erlingsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Zik Zak Kvikmynda og mun hefja störf 1. september.

Ragnheiður hefur starfað fyrir sölu- og fjármögnunarfyrirtækið Rocket Science í London síðastliðin fjögur ár þar sem hún vann að myndum eins og Mothering Sunday, At Eternity’s Gate, The Trial of the Chicago Seven og fleirum.

Hún lauk framhaldsnámi í framleiðslu við The National Film & Television School í Bretlandi. Áður var hún framleiðandi á Íslandi (XL, Regnbogapartí) en starfaði einnig á Kvikmyndasafni Íslands og fyrir RIFF.

Þórir Snær Sigurjónsson framleiðandi og einn af stofnendum Zik Zak segist hafa kynnst Ragnheiði gegnum viðskipti sín við Rocket Science. „Það fyrirtæki hefur á mjög svo stuttum tíma komið sterkt inn á alþjóðlegan markað með flottar kvikmyndir. Það hefur verið gaman að fylgjast með Ragnheiði takast á við fjármögnun á stórum alþjóðlegum kvikmyndum og sú þekking á eftir að koma sér frábærlega þegar hún hefur störf hjá Zik Zak. Við erum ótrúlega spennt fyrir komu hennar inn í fyrirtækið og tímunum framundan hjá Zik Zak kvikmyndum.

“Ég hef lengi fylgst með Zik Zak-teyminu og þeim spennandi verkefnum sem þau hafa verið að gera. Zik Zak er rótgróið fyrirtæki með traustan grunn sem ég hlakka til að byggja á,” segir Ragnheiður um starfið.

Ragnheiður mun vinna með framleiðandanum Arnari Benjamín Kristjánssyni.

Næst á dagskrá hjá Zik Zak kvikmyndum er frumsýning á kvikmyndinni Svar við bréfi Helgu sem leikstýrt er af Ásu Helgu Hjörleifsdóttir og skartar þeim Heru Hilmarsdóttur, Anítu Briem og Þorvaldi Davíð Kristjánssyni í aðalhlutverkum. Þá eru tökur fyrirhugaðar á kvikmyndinni Villibráð í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttir eftir handriti Tyrfings Tyrfingssonar og Elsu Maríu. Einnig eru tökur framundan á sjónvarpsþáttunum Afturelding með Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki. Þættirnir eru skrifaðir af Hafsteinni Gunnari Sigurðssyni og Halldóri Laxness Halldórssyni.

Zik Zak er eitt elsta framleiðslufyrirtækið á Íslandi og hefur á síðastliðnum 20 árum framleitt yfir 20 kvikmyndir þar á meðal Svartur á leik, Ég man þig, Nóa albinóa, Brim, Eldfjall, The Good Heart, Z for Zachariah og Andið eðlilega.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR