Silja Hauksdóttir og SYSTRABÖND: Landslagið að verða opnara gagnvart fjölbreytileika

Silja Hauksdóttir er í viðtali við Björk Eiðsdóttur hjá Fréttablaðinu um þáttaröðina Systrabönd sem verður frumsýnd um páskana í Sjónvarpi Símans.

Segir þar meðal annars:

„Það er gaman að vera inni í þessari gerjun sem er, virðist vera, í sjónvarpsheiminum. Ég hef á tilfinningunni að hún hafi aukið þol okkar áhorfenda gagnvart ólíkum frásagnarleiðum og hegðun. Það er komið meira leyfi til að brjóta áður fastmótaðar reglur og við sem áhorfendur virðumst tilbúin í alls konar slaufur og útúrdúra sem í gamla daga þóttu kannski ekki eftir bókinni. Ég held að landslagið sé að verða opnara gagnvart fjölbreytileika, fjölmenningu, konum í ýmsum myndum, öllum kynjum og fólki af öllum gerðum.“

Kvenvinsamleg þróun

Silja segir þessar breytingar í sjónvarpsefni vera til komnar vegna nauðsynlegra viðhorfsbreytinga í heiminum sem áhorfendur séu að fá beint í æð í gegnum sjónvarpsseríur.

„Við höfum nú aðgang að svona skálduðum veruleika með einu klikki. Sjónvarpsseríur hafa í kjölfarið öðlast meiri viðurkenningu sem dýrmætt listform, sem er okkur öllum mikilvægt og nálægt. Það verður því vonandi minni poppstjörnukúltúr og minni úrvalshyggja með tímanum og þessi þróun held ég að sé kvenvinsamleg.“

„Þetta er svona vinsamleg yfirtaka,“ segir hún. Aðspurð hvort þetta skipti hana máli svarar hún ákveðin: „Þetta skiptir mig máli og þetta skiptir okkur öll máli.“

Drulluköflóttar konur

Silja sem var einn handritshöfunda og leikstjóri kvikmyndarinnar Agnes Joy, sem sló í gegn árið 2019 og var framlag Íslendinga til Óskarsverðlauna nú í ár, hefur í gegnum tíðina verið dugleg við að segja sögur af konum.

„Mig langar að segja sögur kvenna. Sérstaklega eftir að ég gaf sjálfri mér leyfi til að segja sögur af alls konar konum og áttaði mig á því að það væri ekki frumskylda mín sem leikstjóra, sem mér fannst dálítið svona framan af, að ég þyrfti að gera það sama hvort mér líkaði betur eða verr. Svo varð það svo gaman þegar ég áttaði mig á því að ég mætti gera það, en þyrfti þess ekki.

Eftir að ég fattaði að mér ber heldur ekki skylda til að búa til sterkar, fullkomnar og gallalausar valkyrjukonur, heldur mega þær vera jafn drulluköflóttar og ég sjálf og flest lifandi fólk er. Það er gjöfult að geta miðlað slíkum sögum,“ segir Silja með áherslu.

Áföll og vandamál erfast

En aftur að Systraböndum, þáttunum sem eru skrifaðir af þeim Jóhanni Ævari Grímssyni og Björgu Magnúsdóttur, en eftir nokkurra ára yfirlegu kom framleiðandi Sagafilm, Tinna Proppé að máli við Silju og bað hana að leikstýra verkinu og tók þá við áframhaldandi vinna með höfundum, ásamt Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur sem kom einnig inn í teymið.

Silja segir söguna snerta vissar taugar hjá henni, en hún fjallar um þrjár æskuvinkonur sem neyðast til að takast á við dimma fortíð sína.

„Talandi um köflóttar konur – þá eru þessar það svo sannarlega. Þær eru gerendur í ofbeldismáli og skýrari verða mistökin varla. Það var einna helst þessi yfirhylming sem heillaði mig, að lifa í svona mikilli skömm sem þú gengst ekki við og hvaða djúpstæðu áhrif það hefur á þig, líf þitt og allra í kringum þig.

Við veltum því mikið fyrir okkur í skrifferlinu, hvernig áföllin og vandamálin erfast milli kynslóða og hversu skemmandi áhrif þau hafa þegar þau eru ekki tekin upp og skoðuð. Hvað það að reyna að fela eitthvað getur flækt lífið og það verður mjög skýrt í þeirra tilfelli. Þetta var líka ágætis speglun og hvati til að minna mig og vonandi aðra á að drífa sig bara að gangast við mistökum og skoða það sem við höfum lent í. Það er svo óökónómískt að eyða tíma í að fela þau,“ segir Silja og hlær.

Þegar hún er spurð út í hvað hún hafi farið að endurhugsa svarar hún:

„Ég er bara alltaf að endurhugsa allt. Það er kannski aðaláhugamálið mitt, það ferðalag. Núna get ég næstum tekið nótu fyrir þessari endurhugsun og kallað það vinnu. Því meira sem ég velti upp einhverju rugli hjá sjálfri mér, því betri er ég í vinnunni og öfugt. Ég reyni að vera dugleg að fylgjast með mér og það er líka ógeðslega gaman að vinna svona í sér,“ segir Silja, sem er dugleg að vinna í andlegu og líkamlegu hliðinni enda meðvituð um að þær tvær haldist í hendur.

„Ég get samt ekki hreyft mig nema það sé gaman. Það er ekki næg gulrót fyrir mig að ég eigi að gera það, það er ekki nægilegur hvati til lengri tíma.“

Laus við hamingjupressuna

Silja segir að miðað við harm heimsins sé vandi hennar svo mikið hjóm að það tók hana tíma að viðurkenna að hún mætti tala um hann.

„Þegar ég svo áttaði mig á því að stórt fyrir mér ætti að vera nóg fyrir mig til að gera eitthvað í því, þá fór ákveðin stífla. Í kjölfarið gat ég farið að taka á hlutunum af þeim þunga sem þeir eiga skilið og takast á við verkefni sem lífið er sífellt að færa manni, og þau eru oft risastór.“

Silja segir jafnframt lífið hafa orðið auðveldara og skemmtilegra þegar hún áttaði sig á því að það þyrfti ekki alltaf að vera gaman, það mætti stundum vera líka erfitt, leiðinlegt og pínu glatað.

„Það er fínt að vera í sátt við það og setja ekki á sig of mikla hamingjupressu. Að geta sætt sig við að sumt sé einfaldlega drulluerfitt og vita að það þurfi ekki endilega strax að laga það eða fixa. Það þýðir heldur ekki að það geti ekki á sama tíma verið fyndið, skrýtið eða stórkostlega ósmekklegt og hörmulega frábært.

Ég held við séum oft aðeins of ánægjuupptekin, það á allt að vera svo ánægjulegt. En mér finnst einmitt svo gaman að skoða það sem er það ekki. Svo erum við líka eitthvað skökk með að halda að það sé allt svo ánægjulegt hjá öllum öðrum,“ segir Silja og talið berst að þeim eilífa samanburði sem við í dag lifum við í gegnum samfélagsmiðla.

„Auðvitað hefur það áhrif ef þetta er það eina sem þú sérð. Við fáum svo skakkar myndir. Við getum ekki látið það koma okkur á óvart að börn verði fyrir útlitsdýrkunaráhrifum þó við séum ekki endilega að búa þau til heima hjá okkur. Það er bara til heilt júnivers af áhrifum og það er dálítið ógnvænlegt .“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR