spot_img

Fréttablaðið um RÁÐHERRANN: Geð­veikin reddar ráð­herranum

“Ráð­herrann er svo­lítið reikull og rót­laus þar sem góð grunn­hug­mynd að fal­legri pólitískri fanta­síu líður fyrir hnökra í hand­riti, teygðan lopa og hæga fram­vindu en allt stein­liggur þetta í mögnuðum enda­sprettinum þegar geð­veikin tekur öll völd,” segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í Fréttablaðinu í umsögn sinni um þáttaröðina Ráðherrann.

Þórarinn skrifar:

Sjálfsagt ráða andleg veikindi Benedikts Ríkarðssonar miklu um hversu erfitt er að ná almennilega utan um bæði persónuna og þættina átta sem fylgja forsætisráðherranum í gegnum andleg veikindi sem enda með milljón prósent maníu með tilheyrandi átökum, axarsköftum, áföllum og eftirsjá.

Þótt aðalpersónan sé í miklu ójafnvægi liggur styrkur og um leið einn helsti veikleiki þáttanna einmitt í ógnarjafnvæginu milli innihaldsins og umgjarðarinnar.

Geð Benedikts sveiflast og þættirnir átta sveiflast með. Í allar áttir þannig að heildin er allt í senn áhrifarík, skemmtileg, hröð, langdregin, spennandi, leiðinleg, fáránleg, rökrétt, jarðbundin en um leið alveg úti í móa þannig að sagan „meikar stundum sens“ á milli þess sem hún týnist í dalalæðu einhvers staðar uppi á heiði. Alveg eins og Benedikt sjálfur.

Geggjuð hugmynd

Grunnhugmyndin að þáttunum er býsna snjöll. Hjartagóður guðfræðingur verður formaður Sjálfstæðisflokksins og leiðir síðan ríkisstjórn eftir frækilegan kosningasigur sem grundvallast á ákalli hans um 90% kosningaþátttöku og loforðum um að hlusta á þjóðarviljann. Hver svo sem hann nú er þar sem sumir eru þjóðin en aðrir ekki.

Þeir eru dálítið fjarskyldir raunveruleikanum, þessir flokksformenn.

Undirliggjandi er síðan geðhvarfasýki hins góða stjórnmálamanns sem finnst eftir því sem á líður og manían vex ekkert athugavert við það að keyra góð mál í gegn með gerræðislegum einræðistilburðum. Þegar Benedikt veður síðan í gegnum seigfljótandi samspillingu flokkakerfisins kemst hann auðvitað að því, síðastur allra væntanlega, sem við öll vitum. Að það breytist aldrei neitt í stjórnmálunum og sannleikurinn er svo afstæður og óvinsæll að sennilega þarf akkúrat geðhvarfasjúkling í maníu til þess að koma hreyfingu á fúafenið og fá einhverju breytt.

Pólitísk fantasía

Frá þessum kögunarhóli er líklega eðlilegast að líta á Ráðherrann sem einhvers konar pólitíska fantasíu. Útópíu jafnvel þar sem aðeins góð manneskja, sem missir tökin á tilverunni, getur rifið lygavefina, snúið rótgrónu ranglæti og látið pólitíkina snúast um fólk, eins og hún ætti með réttu að gera.

Þarna stendur hins vegar einn pólitíski bakstungurýtingurinn í Ráðherrakúnni þar sem sterkar raunveruleikatengingar þvælast ekki aðeins fyrir Benedikt heldur þáttunum sjálfum.

Hvar er VG? Maður eins og Benedikt gæti aldrei orðið formaður Sjálfstæðisflokksins! Hvað er málið með þennan hund? Er hann í alvörunni? Hvernig komst hundurinn Leó til Akureyrar? Samfylkingin myndi aldrei taka þátt í þessu. Voðalega er þetta eitthvað skrýtinn þingsalur. Veit enginn í þessu samfélagi hvað geðhvarfasýki er?

Þessar og fleiri svipaðar athugasemdir byrjuðu að bergmála um samfélagsmiðlana strax frá fyrsta þætti. Og já, talandi um samfélagsmiðla, þá er eins og þeir séu ekki til í söguheimi Benedikts fyrir utan einn þátt þar sem Twitter verður rödd þjóðarviljans. Kannski lúta Facebook og Twitter bara sömu lögmálum og hundurinn Leó. Nú eða kannski lýtur skáldskapurinn bara sínum eigin lögmálum og það er fánýt iðja að amast við honum.

Þorvaldur Davíð glansar sem pólitískur smjörkúkur.

Svona er bara heimur Benedikts og ekkert við því að gera þótt mögulega hefði farið betur á því að rjúfa beintenginguna við raunveruleikann með því að kalla stjórnmálaflokkana eitthvað annað en Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk, Pírata, Samfylkingu og Flokk fólksins. Þá hefði fólk í það minnsta losnað við að fárast yfir fjarveru VG og þeirri absúrd kómík að annað eins ljúfmenni og Benedikt væri leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfum fannst mér í það minnsta ágætt að Fréttablaðið hét bara Blaðið. Annars hefði ég örugglega neyðst til þess að láta það fara meira í taugarnar á mér hversu mikill leppalúði blaðamaðurinn þar er.

Lykkjuföll á teygðum lopa

Hver og einn verður vitaskuld að eiga það við sjálfan sig hversu mikið hann nennir að láta slíka árekstra og núning milli raunveruleikans og veruleika þáttanna trufla sig. Ágætt samt að hafa í huga að meiri fjarlægð þarna á milli hefði getað kostað okkur prófessor Ólaf Þ. Harðarson og Boga Ágústsson að leika sjálfa sig með miklum stæl.

 

Mikið mæðir á Þuríði Blæ sem leikur aðstoðarmann Benedikts og um leið í raun fulltrúa kjósenda og þar með áhorfenda.

Hæg og á köflum brokkgeng framvindan er hins vegar öllu áþreifanlegri ljóður á ráði höfunda Ráðherrans og að ósekju hefði annaðhvort mátt þjappa sögunni í færri þætti eða, enn frekar, nýta skjátímann betur til þess að fletja söguna betur út og kafa dýpra ofan í geðveiki Benedikts.

Þegar þessi lopi er teygður, eins og hann er, yfir átta klukkutíma eru hraðahindranir og dauðir kaflar að því er virðist óhjákvæmilegir. Hægur takturinn í fyrsta þætti gaf þó skýrt til kynna að ekkert væri verið að flýta sér og því er nú varla hægt að kvarta yfir pólitískum blekkingum í þessum efnum.

Áhuganum var síðan viðhaldið ágætlega með öðrum þætti en eftir hann byrjuðu lykkjuföllin. Þegar maður var síðan við það að missa áhugann og sá fram á að horfa á afganginn af skyldurækni hrukku þættirnir heldur betur í gang þegar Benedikt byrjar fyrir alvöru að keyra sig upp í maníu og slá á fingur Útlendingastofnunar.

Vitleysan meikar sens

Þegar veruleikatengingar Benedikts rofna algerlega hristir Ráðherrann af sér doðann og við taka þrír átakanlegir og erfiðir þættir sem rista djúpt og lýsa með ágætum hversu skæð hin lúmska manía getur verið þegar hún nær hámarki.

Þarna sýnir Ólafur Darri líka svo um munar hversu firnasterkur leikari hann er og bætir einni fegurstu rósinni í löngu yfirfullt hnappagatið. Satt best að segja er töfrum líkast hversu mikið þessi frábæri leikari getur sagt með þögninni, augunum, hreyfingum og svipbrigðum.

Handahófskenndar og á köflum undarlegar vörðurnar sem Benedikt og Ólafur Darri höfðu hlaðið á leið þess fyrrnefnda til sturlunar verða allt í einu þegar litið er til baka að þráðbeinni og sannfærandi vegferð manns út í fullkomna maníu. Mörg vitleysan sem á undan er gengin meikaði skyndilega sens, eins galið og það kann að hljóma.

Þverpólitískur stórleikur

Þótt Ráðherrann hvíli fyrst og fremst á reyndum öxlum Ólafs Darra njóta hann og þættirnir þess að valinn leikari er í hverju rúmi. Ráðherrann er þvert yfir ofboðslega vel leikinn og það eru ekki síst leikararnir sem ná að breiða yfir hnökrana í sögunni og framvindunni.

Aníta Briem glansar í hlutverki Steinunnar, eiginkonunnar sem stendur þétt við hlið hins geðveika en hagar þó seglum eftir öðrum vindum en blása endilega í segl Benedikts. Aníta leikur sér fram og aftur um tilfinningaskalann með áhorfendur í fyrirhafnarlitlu eftirdragi.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir kreista síðan flesta dropa út úr hinu (andstæðu) parinu, Grími varaformanni og Hrefnu sem situr heldur betur í súpunni sem smánuð eiginkona þingforsetans og aðstoðarmaður veruleikafirrta ráðherrans.

Þau njóta þess einnig að Grímur og Hrefna eru hvort á sinn hátt jarðtengdustu persónur þáttanna og um leið þau sem auðveldast er að tengja sig við og skilja. Hrefna er öðrum þræði fulltrúi kjósenda, venjulegs fólks sem kýs gegn spillingu og með heiðarleika en fær einhvern veginn engu breytt og aldrei það sem það vill.

Grímur er síðan aftur á móti erkitýpa hins tækifærissinnaða og spillta stjórnmálamanns. Dæmigerður hægri smjörkúkur eins og við kjósum að skilja þá en þó fyrst og fremst mannlegur og skemmtilega brjóstumkennanlegur í meðförum Þorvaldar Davíðs.

Niðurstaða: Ráðherrann er svolítið reikull og rótlaus þar sem góð grunnhugmynd að fallegri pólitískri fantasíu líður fyrir hnökra í handriti, teygðan lopa og hæga framvindu. Sterkur leikhópur með Ólaf Darra í fremstu víglínu bjargar þó miklu framan af og þetta steinliggur allt í mögnuðum endasprettinum þegar geðveikin tekur öll völd.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR