Tökum á BIRTU lýkur senn

Sambýlisfólkið Helga Arnardóttir og Bragi Þór Hinriksson ljúka fljótlega tökum á barnamyndinni Birtu sem hann leikstýrir eftir sögu hennar. Hann segir þau hafa þurft að hugsa út fyrir kassann í kófinu.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu:

Þetta blessaðist allt saman og þetta fær mann nú oft til að hugsa út fyrir boxið og það kemur oft bara eitthvað jákvætt og skapandi á móti,“ segir leikstjórinn Bragi Þór Hinriksson um tökur á barnamyndinni Birta sem hann er að gera eftir sögu sambýliskonu sinnar, Helgu Arnardóttur fjölmiðlakonu.

„Við lentum alveg í veseni og höfðum bara samband við landlækni og spiluðum þetta bara svolítið „safe“ og vissum hvað við ættum að gera. Við réðum í rauninni bara læknateymi sem mældi okkur á leiðinni inn á tökustað og svo voru allir með grímur og hanska.“

Bragi segir þau Helgu og samstarfsfólk þeirra vissulega hafa þurft að bregðast við ýmsum uppákomum og áföllum þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á en sem betur fer hafi tökur þá verið vel á veg komnar.

Frá tökum á Birtu. Salka Sól og Kristín Erla Pétursdóttir (mynd HMS Productions).

Leikkona í sóttkví

„Við náðum í raun að gera allar innitökur en eigum eftir að taka í tvo eða þrjá daga í desember af því að það er pínu jólastemning í myndinni,“ segir leikstjórinn og bætir við að hann telji það hollt, ef svo megi að orði komast, að þurfa að hugsa sig fram hjá óvæntum og óvenjulegum aðstæðum um leið og hann prísar sig sælan.

„Svo lentum við líka í því að missa leikkonu sem við höfðum valið í mikilvægt hlutverk en svo kemur þessi óvissuþáttur upp og sýking í fjölskyldunni hennar þannig að hún datt út og við þurftum að fylla í skarðið. Því miður,“ segir leikstjórinn sem deildi vonbrigðum með ungri leikkonu sem festist í sóttkví.

„Og svo misstum við einu sinni tökustað út af hertum reglum og höfðum fjóra daga til að bjarga því,“ segir Bragi og lætur fljóta með að fram undan eru útitökur í desember.

„Við svona rennum hýru auga til útitakanna og þetta verður vonandi örlítið einfaldara en við fylgjumst bara vel með og reynum að gæta okkar í hvívetna og gera þetta rétt. En við erum náttúrlega líka bara þakklát fyrir að hafa klárað aðal tökutímabilið án þess að hafa þurft að stoppa. Við vorum mjög heppin.“

Birtan í skammdeginu

Myndin heitir Birta eftir aðalpersónu hennar. „Okkur fannst titillinn svolítið góður vegna þess að þetta er svona birtan í skammdeginu. Maður lærir það í markaðsfræði kvikmyndarinnar að ef maður getur fundið góðan, eins orðs titil þá er það best fyrir alla,“ segir Bragi og hlær.

Birta er tíu ára stelpa sem fyrir tilviljun heyrir einstæða móður sína segja vinkonu sinni að hún óttist að geta ekki haldið jólin fyrir dætur sínar tvær, Birtu og Kötu sem er sex ára.

„Mamma hennar vinnur alveg myrkranna á milli en segir vinkonu sinni að hún haldi að það verði bara engin jól. Til þess vanti hana 100.000 krónur. Tíu ára stúlkan heyrir þetta og tekur mjög inn á sig og næstu daga á eftir og fram að jólum ákveður hún að reyna að fá sér vinnu og safna peningum til þess að hjálpa mömmu sinni sem veit ekkert af því. Hún kemst síðan að því að það er ekki svo auðvelt að safna 100.000 krónum þegar maður er tíu að verða ellefu ára.“

Frjótt samstarf

Helga gaf í fyrra út sína fyrstu barnabók, Nína óskastjarna og ævintýrið á Álfhóli, og Bragi segir hana eiginlega hafa skrifað handrit Birtu í kjölfar hennar. Það komi svo í hans hlut að færa orð konunnar sinnar á skjáinn, eins og hann orðar það.

„Maður getur sagt að við vegum hvort annað upp og okkur hefur áður tekist að vinna vel saman án þess að klóra augun hvort úr öðru,“ segir Bragi glettinn en síðast vann parið saman að sjónvarpsþáttum Helgu, Lifum lengur, þegar þau þvældust heimshorna á milli á meðan Helga gekk með son þeirra sem fæddist síðan í byrjun janúar á þessu ári. Lifandi sönnun þess að foreldrunum fer vel að skapa saman.

Sjá nánar hér: Bragi fangar birtu Helgu í skammdeginu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR